Þvælan um 25. grein stjórnarskrárinnar

Svolítil umræða hefur spunnist öðru hverju síðustu mánuði um 25. grein stjórnarskrárinnar, sem hljóðar svo:

Forseti lýðveldisins getur látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og annarra samþykkta.

Þessi grein hefur aldrei verið notuð af forseta, og ýmsir hafa haldið fram að hún þýði alls ekki að forseti geti lagt fram frumvörp á Alþingi. „Röksemdirnar“ sem ég hef hingað til heyrt fyrir þessari túlkun eru ansi aumar. Bent er á 13. grein (Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt) og 19. greinina (Undirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál eða stjórnarerindi veitir þeim gildi, er ráðherra ritar undir þau með honum). Rökleysan í þessu er að það er ekki framkvæmd valds að leggja fram lagafrumvarp, né heldur er það stjórnarathöfn.

Það sem er þó meira sláandi, og ætti að taka af allan vafa um rétt forseta til að leggja fram lagafrumvörp er að í 38. grein stendur:

Rétt til að flytja frumvörp til laga og tillögur til ályktana hafa alþingismenn og ráðherrar.

Ef í þessari grein stæði að aðeins alþingismenn og ráðherrar hefðu þennan rétt væri ljóst að forseti hefði hann ekki. En, það stendur ekki í 38. greininni. Þvert á móti er sérstök grein, sú 25., sem segir að forseti hafi þennan rétt.  Dettur einhverjum í hug að ákveðið hafi verið að setja inn sérstaka grein um að forseti  geti lagt fram lagafrumvörp, til þess að það væri tvítryggt í stjórnarskrá að ráðherra gæti lagt fram slík frumvörp?

Það er auðvitað tilgangslaust fyrir forseta að leggja fram lagafrumvörp sem Alþingi kærir sig ekki um, ef það treystir sér til að hunsa þau, sem það getur auðvitað gert ef þau njóta ekki mikils stuðnings meðal kjósenda. Það væri hins vegar sterkur leikur fyrir forseta nú að leggja fram frumvarp um kvótamálin, t.d. á þessa leið (í grófum dráttum):

Allur kvóti verður innkallaður frá og með þarnæsta fiskveiðiári. Afnot af honum verða síðan seld á opnu uppboði, til fárra ára í senn.

Ástæðan er að yfirgnæfandi meirihluti kjósenda hefur lengi viljað að kvótinn yrði innkallaður. Framlagning frumvarps á þessum nótum myndi gera Alþingi erfitt að hunsa þann almenningsvilja.

Það er ansi athyglisvert hversu illa sumum virðist vera við hina augljósu, bókstaflegu, túlkun á 25. greininni.  Forseti getur nefnilega bara gert sig að athlægi með því  að leggja fram frumvörp sem ekki hafa sterkan stuðning almennings.  Og, af hverju skyldi nokkur manneskja vera mótfallin því að forseti leggi fram frumvörp sem hafa mikinn stuðning meðal kjósenda?

Deildu færslunni