Þóra Arnórsdóttir — Gamla Ísland

Þóra Arnórsdóttir hefur nú sagt nokkuð skýrt frá afstöðu sinni til forsetaembættisins. Í því kemur fátt á óvart, því hér er ekki um neitt nýtt að ræða, heldur staðfestir hún vandlega þá afturhaldssömu mynd sem hún hefur af embættinu. Hér eru nokkrar úrklippur úr ræðu hennar frá í dag, og athugasemdir við hana.

Þóra segir um sýn sína á embættið:

Það er alveg ljóst að hún er íhaldssamari en margra annarra frambjóðenda, sem hafa að mínu mati rangtúlkað nokkuð eða misskilið hlutverk forseta.

Ef Þóra væri karlmaður væri þetta kallað hrútskýring, og það með réttu. Hér er talað af hroka þess sem telur að ríkjandi valdaklíkur hljóti alltaf að hafa rétt fyrir sér. Túlkanir sem fara í bága við túlkanir Þóru eru ekki bara annars konar skoðanir, þær eru rangar, eða í besta falli misskilningur, eins og karlrembur útskýra gjarnan fyrir konum sem þeir telja að standi þeim skör lægra í skilningi á flóknum málum.

Ef stórum deilumálum er þröngvað í gegnum þingið, með minnsta mögulega meirihluta og í hávaðarifrildi, aukast líkurnar mjög á því að kjósendur taki sig saman og biðji forsetann um að skrifa ekki undir lög sem þannig eru samþykkt.

Þóra segir hins vegar ekkert um hvernig hún myndi bregðast við slíkum bónum, þ.e.a.s. hvers konar mál séu nógu veigamikil til að hún myndi beita synjunarvaldinu, auk þess sem hún sniðgengur þá staðreynd að nánast öll stór deilumál fara í gegnum Alþingi með atkvæðum stjórnarsinna gegn atkvæðum stjórnarandstæðinga, og þar skiptir varla máli hvort um er að ræða minnsta mögulega meirihluta eða aðeins stærri meirihluta en svo, þegar ríkisstjórnin hefur meira en lágmarksmeirihluta.

Ef ætlun Þóru væri að gefa skýra mynd af því hvernig hún ætlaði að haga sér sem forseti væri hægur leikur fyrir hana að telja upp þau stóru deilumál sem núverandi ríkisstjórn hefur fengið í gegn með minnsta mögulega meirihluta og sem hún teldi rétt að forseti hefði stöðvað með synjun. Ljóst virðist að það er ekki slík skýr stefna sem vakir fyrir henni að lýsa, og trúlegast virðist að hún hafi alls ekki áttað sig á afleiðingum þess sem hún sagði um „stór deilumál“ og „minnsta mögulega meirihluta“, því hún hefur ótvírætt gefið til kynna að hún myndi sem forseti nánast engin afskipti hafa af ákvörðunum þingsins.

Forseti […] á að standa vörð um hið lýðræðislega ferli, en ekki taka virkan þátt í baráttunni.

Þetta er ágætis líking, en hún varpar einmitt skæru ljósi á yfirborðsmennsku Þóru: Hvernig getur sá sem stendur vörð komist hjá því að taka þátt í baráttunni þegar í odda skerst?

Þannig forseti er ekki puntudúkka – það var Vigdís Finnbogadóttir ekki og það var Kristján Eldjárn ekki heldur.

Jú, Vigdís og Kristján voru einmitt puntudúkkur, forsetar sem forðuðust í lengstu lög að hafa nokkur afskipti af valdinu. Það er ágætt að Þóra skuli segja hreint út að hún vilji feta í fótspor þeirra. Það er ekki bara íhaldssemi, eins og hún segir að einkenni framboð sitt, það er afturhaldssemi, því hvað sem manni finnst um Ólaf Ragnar verður því ekki neitað að hann virkjaði vald forseta með hætti sem aldrei hafði verið gert áður, og ljóst er að þegar hann gerði það talaði hann fyrir munn yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar. Þóra virðist á hinn bóginn ekki ætla að láta slíkan meirihlutavilja ráða gerðum sínum.

Við ákváðum að samfélagið skuli meðal annars byggt á þessum grunngildum: Lýðræði, jafnrétti, frelsi og mannúð. Og – við höfum komið okkur saman um þetta í áranna rás án þess að beita rýtingum og skammbyssum – með stöðugri umræðu og rökræðu – sem hefur oft verið snörp – en við höfum sameinast um þetta. Þess vegna er gott að búa hér og þannig á það að vera áfram. Við eigum sameiginlega sögu, sameiginlegan menningararf og sameiginlega hagsmuni, sem forsetinn á að vinna að af heilum hug. – Því sem gerir okkur að þjóð.

Það hefur kannski farið fram hjá Þóru, en það er meira sem sundrar Íslendingum í dag en sameinar þá. Á Íslandi varð nefnilega svokallað hrun, margir eiga enn um sárt að binda vegna þess, og ekki er í sjónmáli nein sátt sem geti sameinað landsmenn. Það er góðra gjalda vert að vilja sameina, en það er í besta falli hræsni að tala um sameiningu ef ekki á að leysa þau djúpstæðu vandamál sem valda sundrungunni. Sú sameining mun ekki verða til með því að forseti eigi sunnudagsviðræður við forystumenn stjórnmálaflokkanna eins og Þóra talaði um; þeir eru ekki fulltrúar fólksins í landinu.

Ég skynja mjög sterka undirliggjandi þörf um nýja stefnu fyrir þjóðina þar sem við vinnum saman að hagsmunum lands og þjóðar. Höfnum gamalsdags, sundrandi átakapólitík og skotgröfum stríðandi fylkinga.

Þetta er rétt, en staðreyndin er sú að völdin eru enn í höndum þess flokkakerfis sem lengi hefur drottnað með spillinguna að leiðarljósi. Það má vel vera að Þóru takist að bera einhver klæði á vopn þeirra fylkinga, og það virðist vera markmið hennar. En, sátt meðal valdaklíknanna er ekki það sem íslenskur almenningur þarf. Þvert á móti er eina von okkar að þeim takist ekki að semja um frið sín á milli til að geta óáreittar haldið áfram þeirri samtryggðu spillingu sem gegnsýrir valdakerfi landsins.

Þóra Arnórsdóttir hefur sannarlega ekki sýnt á sér þær ógeðfelldu hliðar sem Ólafur Ragnar hefur gert, og það er vel. En, þótt hún sé ekki fulltrúi hinna ógeðslegri afla meðal valdaklíknanna þá er hún engu að síður málsvari Gamla Íslands.

Deildu færslunni