Tryggir Þóra sigur Ólafs Ragnars?

Margir stuðningsmenn Þóru Arnórsdóttur lögðu ofuráherslu á það í upphafi að finna þyrfti frambjóðanda sem gæti fellt Ólaf Ragnar og að hún væri sá eini sem það gæti. Þetta fólk er annað hvort sammála afstöðu Þóru um hlutverk embættisins, eða telur hana aukaatriði, því mikilvægast sé að koma Ólafi frá og fá „frambærilega“ manneskju í hans stað á Bessastaði.

Það er óhætt að segja að þetta hafi gengið eftir, enn sem komið er, því aðrir frambjóðendur en þau tvö mælast varla með nokkurt fylgi. Vandamálið er hins vegar að þegar Ólafur Ragnar hefur nú hafið kosningabaráttu sína, af alkunnri hörku og kunnáttu, þá fara að renna tvær grímur á ýmsa áður óákveðna kjósendur. Það finnst ekki öllum lengur jafn aðlaðandi að heyra Þóru tala um að „það eigi að vera aukinn samhljómur milli forseta og þeirrar ríkisstjórnar sem situr við völd hverju sinni“ og að hlutverki forseta sé lýst með þeim loðna hætti að „Hann á að leiða saman ólík sjónarmið, hann á að geta miðlað upplýsingum á milli …“

Stuðningsmönnum Þóru tókst sú ætlun sín að gera aðra frambjóðendur lítt sýnilega, og Þóru að eina valkostinum við ÓRG. Gerðu þeir þannig út af við möguleikann á að finna frambjóðanda sem meirihluti kjósenda gæti sameinast um og sem gæti fellt Ólaf?

Mun árangurinn af „hernaðarlist“ stuðningsmanna Þóru verða fullkominn ósigur, þar sem þeir tryggja á endanum sigur Ólafs Ragnars, eftir að hafa rutt burt öllum þeim sem hefðu getað lagt hann að velli?

Deildu færslunni