Hið ógeðslega Ísland

Margir hafa talað um það síðustu mánuði og ár að nauðsynlegt sé að „sameina“ landsmenn í stað þess að „ala á sundrungu“. Það gleymist hins vegar yfirleitt að útskýra um hvað á að sameina fólk, en erfitt er að skilja sameiningar- og samstöðutalið öðru vísi en að við eigum að sameinast um að vera nokkurn veginn sátt við núverandi ástand. Enda er ljóst að hinar ýmsu valdaklíkur í landinu, sem hafa ráðið lögum og lofum áratugum saman, munu berjast mjög harkalega gegn sameiningu um hvaðeina sem hróflar við völdum þeirra eða skerðir gróða þeirra sem ráða yfir efnahagslífinu. Á hinn bóginn er líka ljóst að ríkjandi ástand í íslenskri stjórnsýslu og efnahagslífi er ekki beinlínis í lagi, ef það eru hagsmunir almennings sem lagðir eru til grundvallar.

Í kvöldfréttum RÚV voru tvær fréttir sem sýna með dapurlegum hætti hversu ógeðslegt hið þaulsætna Gamla Ísland er.

Annars vegar var fjallað um brennisteinsvetnismengun frá Hellisheiðarvirkjun, sem er yfir leyfilegum mörkum í Hveragerði. Þau mörk miðast, skiljanlega, við að mengunin sé ekki skaðleg heilsu fólks. Þegar fréttamaður sjónvarps benti á að ekki sé hægt að fullyrða að heilsa fólks bíði ekki tjón af þessari mengun var svar umhverfisstjóra Orkuveitunnar, Hólmfríðar Sigurðardóttur, þetta: „Það er heldur ekki hægt að fullyrða að fólk beri tjón af.“ Ekki veit ég hvert hlutverk umhverfisstjóra OR er. Hún virðist hins vegar ekki líta svo á að henni komi neitt við heilsa þeirra sem OR eys menguninni yfir. Enda voru viðbrögð forstjóra OR, Bjarna Bjarnasonar, þau að sækja um undanþágur frá þessum hamlandi reglum, svo (forysta) OR fái að njóta vafans, frekar en heilsa fólks í Hveragerði.

Í hinni fréttinni, og í löngu Spegilsviðtali, er Ingólfur nokkur Bender látinn tala í löngu máli um skoðanir sínar, og „spár“ Greiningardeildar Íslandsbanka um hagvöxt. Jafnvel þótt við látum liggja á milli hluta þá augljósu staðreynd að afar erfitt er að spá af nokkru viti um hagvöxt á Íslandi (og víðar) næstu árin, þá hefðu fréttamenn RÚV átt að muna eftir því að Ingólfur er sami forstöðumaður sömu „greiningardeildar“ og tilheyrði Glitni, áður en hann fór á hliðina, og var síðan dubbaður upp í Íslandsbanka.

Ingólfur var sem sagt forstöðumaður einnar af þeim „greiningardeildum“ bankanna sem sögðu tóma þvælu árin fyrir hrun, og sem eðlilegt er að spyrja hvort ekki hafi hreinlega verið að ljúga, enda orðið ljóst að forysta þeirra banka sem um ræðir byggði starfsemi þeirra bæði á lygum og svikum.

Orkuveita Reykjavíkur er í eigu borgarinnar og tveggja annarra sveitarfélaga, þ.e.a.s. í eigu almennings. Eðlilegt ætti að vera að hún hefði hagsmuni þessa sama almennings að leiðarljósi. Samt fara forsvarsmenn fyrirtækisins sjálfkrafa í varnarstöðu gegn þeim hagsmunum þegar í ljós kemur að fyrirtækið hefur brotið gegn þeim reglum sem eiga að koma í veg fyrir heilsutjón meðal almennings.

RÚV á líka að þjóna hagsmunum almennings. Samt sýnir það lotningarblandna og gagnrýnislausa virðingu manni sem er í þjónustu banka sem hefur allt aðra hagsmuni en almenningur, og sem hefur sýnt sig segja tóma þvælu árum saman, án þess að nokkur ástæða sé til að ætla að maðurinn hafi vitkast síðan, hvað þá að hann hafi tekið upp siðlega starfshætti.

Ísland er stórkostlegt land. Íslendingar eru upp og ofan eins og fólk í öðrum löndum. Íslensku valdakerfin eru hins vegar gegnrotin af spillingu og fúski. Og þeir sem einhverju ráða eru ekki að reyna að breyta því til hins betra, heldur berjast þeir allir með kjafti og klóm við að viðhalda völdum þeirra sem leiddu hrunið yfir landsmenn, ollu stórum fjölda þeirra miklum búsifjum, en græddu margir gríðarlega sjálfir, bæði fyrir og eftir hrun.

Ég ætla ekki í bráð að taka þátt í söngnum um „sameiningu“. Þetta Ísland, valdakerfið sem drottnað hefur yfir landinu áratugum saman, er einfaldlega ógeðslegt. Og þeir sem helst tala um að þetta sé of mikil svartsýni eru ekki að gera neitt til að breyta því til betri vegar. Þvert á móti eru þeir að reyna að lægja öldur réttmætrar reiði, og það mun auðvelda kúgunaröflunum að halda áfram iðju sinni hindrunarlítið.

Deildu færslunni