Fyrir þrem vikum sendi ég Mannréttindastjóra Reykjavíkurborgar nokkrar fyrirspurnir vegna klámvæðingarbæklings borgarinnar, sem fjallað var um hér og hér. Svör bárust í fyrradag, og eru þau birt hér í lokin. Reyndar er sumum spurningunum ekki svarað, og hef ég ítrekað þær, og mun birta svörin hér ef þau verða athygliverð.
Eitt af því sem sérstaka athygli vekur í svörum mannréttindastjórans er eftirfarandi:
Við mótun mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar, sem samþykkt var í borgarráði 16. maí 2006, var lögð áhersla á að kynjajafnrétti væri rauði þráðurinn í stefnunni og starfi mannréttindanefndar/ráðs þótt stefnan næði til fleiri þátta en jafnréttis kynjanna.
Það er líka athyglisvert að mannréttindastjórinn leiðir hjá sér spurninguna um hvort það skipti máli hversu algeng kynferðisleg áreitni er á vinnustöðum borgarinnar (staðreyndin er að slíkt er nánast óþekkt hjá borginni eins og fjallað var um hér).
Miðað við áherslurnar sem birtast í útgáfuefni og á vefsíðum Mannréttindaskrifstofunnar, virðist ekki óvarlegt að ætla að meirihluti vinnu þeirra 5-6 starfsmanna sem þar starfa snúist um það sem kallað er kynjajafnrétti og kynbundið ofbeldi. Samt er ekki að sjá að þetta séu raunveruleg vandamál hjá borginni. Eins og fram hefur komið er kynferðisleg áreitni nánast óþekkt fyrirbæri á vinnustöðum borgarinnar, þótt Mannréttindaskrifstofan hafi gefið út sérstakan bækling þar sem gefið var í skyn að þetta væri alvarlegt vandamál, þvert á það sem vitað var áður en bæklingurinn kom út.
Sé útgáfuefni Mannréttindaskrifstofunnar skoðað, og það sem birtist á vefsíðum hennar, verður sú spurning æ áleitnari hvort starf þessarar skrifstofu þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að skapa vinnu fyrir fólk sem er með klám og ofbeldi á heilanum. Það er nógu slæmt að sóa þannig almannafé. Hitt er ekki skárra að með þessu er reynt að skapa andrúmsloft ógnar og tortryggni á fölskum forsendum. Það er sérkennilegt „mannréttindastarf“.
—————————————————————————————-
From: Anna Kristinsdóttir <anna.kristinsdottir@reykjavik.is>
Date: 2012/4/30
Subject: Svör við fyrirspurnum
To: einar@alum.mit.edu
Sæll Einar,
Meðfylgjandi eru svör vegna fyrirspurna þinnar frá 9. og 11. Apríl 2012
1. Hver tók ákvörðun um útgáfu bæklingsins (og um vinnuna sem á undan honum fór)?
Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar og miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna við Háskóla Íslands sótti um styrk til nýsköpunarsjóðs námsmanna í samvinnu við Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna í Háskóla Íslands til að skoða klámvæðingu á vinnustöðum.
Verkefnið var mjög vel af hendi leyst og var tilnefnt til nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Lögð er áhersla á að nýsköpunarsjóðsverkefni séu nytsamleg og var frá upphafi í umsókn gert ráð fyrir að rannsóknin nýttist stjórnendum og starfsfólki með kynningarefni af einhverju tagi.
2. Af hverju var ákveðið að gefa út bæklinginn?
Til þess að hvetja til umræðu um klámvæðingu og kynferðislegra áreitni í samfélaginu, sjá einnig svar við spurningu 1.
3. Hversu mikið kostaði þetta, þ.e.a.s. öll vinnan í þessu sambandi, útgáfa, dreifing o.s.frv.?
Ekki liggur fyrir endanlegur kostnaður vegna útgáfu en hönnun og prentun er áætlað að kosti kr 250.000. -300.000 Bæklingnum var dreift á vinnustaði Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands af starfsfólki án sérstaks kostnaðar. Bæklinginn er einnig að finna á vef borgarinnar.
4. Telur þú þetta átak vera mikilvægan þátt í mannréttindastarfi borgarinnar? Ef svo er, af hverju? Og, skiptir í því sambandi einhverju máli hversu algeng kynferðisleg áreitni er á vinnustöðum borgarinnar?
Já, í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar er sérstaklega kveðið á um Reykjavíkurborg vinni gegn klámvæðingu. Enn fremur segir að kynferðisleg áreitni sé með öllu óheimil. Með kynferðilegri áreitni er vísað í orðskýringar jafnréttislaga; Hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi kynferðisleg hegðun sem er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni ef það er alvarlegt.
Öll kynferðisleg áreitni er litin alvarlegum augum hvort sem um eitt eða fleiri atvik er að ræða.
5. Miðað við útgáfuefni Mannréttindaskrifstofunnar virðist þið telja að klám og kynjajafnrétti séu mikilvægustu mannréttindamálin. Er það í raun lýsandi fyrir afstöðu ykkar? Ef svo er, af hverju teljið þið þetta svona mikilvægt (meðal mannréttindamála)? Ef ekki, hver eru þá helstu áherslumálin í mannréttindum hjá ykkur, hvernig vinnið þið að þeim og hvernig er hægt að kynna sér afrakstur þeirrar vinnu?
Við mótun mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar, sem samþykkt var í borgarráði 16. maí 2006, var lögð áhersla á að kynjajafnrétti væri rauði þráðurinn í stefnunni og starfi mannréttindanefndar/ráðs þótt stefnan næði til fleiri þátta en jafnréttis kynjanna. Starf mannréttindaskrifstofu endurspeglar lagasetningar og samþykkta stefnumótun Reykjavíkurborgar. Árlega er unnin starfsáætlun mannréttindaráðs í mannréttindamálum og þar koma fram helstu áherslur sem unnið er eftir hverju sinni. Starfsáætlun má finna á síðu mannréttindaskrifstofu undir útgefið efni auk ýmiss annars efnis sem varpar ljósi á starfsemina.
6. Það er best ég bæti við einni spurningu til þín. Á þessari síðu eru birtar „kynlegar tölur“: http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/mannr_ttindaskrifstofa/skjol/kynlegar_tolur_070312_HQ.pdf Hver er tilgangurinn með því? Og hvernig eru valin þau atriði sem fjallað er um?
Á fundi mannréttindaráðs þann 11. mars 2010 var samþykkt tillaga í mannréttindaráði um að á alþjóðlegum baráttudegi kvenna þann 8. mars yrði kynnt töluleg gögn varðandi stöðu kynjanna í Reykjavík. Mannréttindaskrifstofa vinnur í samráði við mannréttindaráð að útfærslu bæklingsins hverju sinni.
Með bestu kveðju,
Anna Kristinsdóttir
mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar