Klám og skrattamálun í Reykjavík

Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar gaf nýlega út bæklinginn „Klámvæðing er kynferðisleg áreitni“. Ég fjallaði um hann í þessum pistli, en þá vissi ég ekki að borgin bjó yfir upplýsingum um algengi kynferðislegrar áreitni á vinnustöðum hennar. Þær upplýsingar fékk ég eftir að hafa spurt, en fyrst fékk ég þó þetta svar frá starfsmanni skrifstofunnar: „Eftir að bæklingurinn kom út hafa fjölmargar konur starfandi hjá Reykjavíkurborg rætt atvik sem þær hafa orðið fyrir og tengjast klámvæddri orðræðu. Vonandi svarar það spurningu þinni um algengi.“

Þegar ég spurði nánar var mér sagt að borgin hefði gert viðhorfskönnun þar sem spurt var hvort starfsmenn borgarinnar hefðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu samstarfsfólks. Könnunin náði til 6.738 starfsmanna borgarinnar og svarshlutfalliið var 67%, þ.e.a.s. 4.848 svöruðu. Í könnuninni kom fram að um 0,2% svarenda segjast hafa orðið fyrir líkamlegri kynferðislegri áreitni, og um 0,3% fyrir kynferðislegri áreitni í orðum.

Sé gengið út frá að þessi könnun sé áreiðanleg er niðurstaðan sem sagt að kynferðisleg áreitni er nánast óþekkt fyrirbæri á vinnustöðum borgarinnar, og þessar upplýsingar lágu fyrir þegar Mannréttindaskrifstofan gaf út ofannefndan bækling.

Ég fjallaði svolítið um umrædda „rannsókn“ í áðurnefndum pistli en mun gera það nánar síðar, enda virðist hún lýsandi dæmi fyrir þá afstöðu til raunveruleikans sem einkennir hina svokölluðu kynjafræði við Háskóla Íslands. Hér er þó rétt að geta þess að rannsóknin byggist á viðtölum við fimm handvalda starfsmenn borgarinnar, sem höfundur var „svo lánsamur að vildu segja honum frá reynslu sinni.“ („I was fortunate enough to find five research participants, who were willing to share their experiences with me.“)

Í tveim tilfellum segja viðmælendurnir sögu sem bendir til að tilteknir yfirmenn hafi hagað sér með ósæmilegum hætti, sem þeir hefðu átt að fá tiltal fyrir. (Hafa ber þó í huga að við (og höfundurinn) fáum bara aðra hliðina á málinu, því ekki var rætt við þá sem voru bornir sökum.) Í einu tilfelli segist viðmælandi hafa séð mynd af naktri konu á tölvuskjá og dagatal með nöktum konum á vegg í herbergi sem hún kom inn í. Þetta eru sem sagt „gögnin“ sem rannsóknin byggir á, en gefið er í skyn að klám gegnsýri vinnustaði borgarinnar, með hræðilegum afleiðingum, enda var sem sagt ráðist í útgáfu bæklings um málið, sem ætlaður er starfsmönnum borgarinnar og Háskóla Íslands (þar sem fundust, samkvæmt greininni, þrjár auglýsingar á vegg með fáklæddum konum, tvær frá nemendafélagi, en ein frá óþekktum aðila og ótengd skólanum).

Það er jafn sérkennilegt að fá ráðskonu í Femínistafélaginu til að gera úttekt á þessum málum eins og það væri að fá biskup til að rannsaka þörfina á trúboði í skólum. En, það er einmitt algengt meðal þeirra femínista sem helst hafa sig í frammi á Íslandi að krefjast þess að hin sérkennilega pólitíska afstaða þeirra — um að samfélagið sé gegnsýrt af klámi sem gegni því hlutverki að kúga konur — sé viðurkennd sem fræðilegur sannleikur, rétt eins og trúarhópar þykjast hafa höndlað hinn eina sannleika um lífið og tilveruna.

Hver var þá tilgangurinn með þessari „rannsókn“? Ljóst er að fólkið sem hrinti henni af stað og gaf út bæklinginn vissi, áður en bæklingurinn kom út, að kynferðisleg áreitni er nánast óþekkt vandamál á vinnustöðum borgarinnar, a.m.k. miðað við þau gögn sem viðkomandi hafa í höndum. Getur verið að tilgangurinn sé eingöngu að skapa vinnu fyrir „kynjafræðinga“ (sem finnst ástæða til að taka fram í opinberum svörum um þessi mál að þeir séu þar að auki femínistar)?

Eða getur verið að tilgangurinn sé langmiðaðri og snúist um að skapa ótta og óvissu, til að tryggja áhrif þeirra sem reka þennan áróður? Það er ekki nýtt, heldur vel þekkt aðferð þeirra sem stunda ýmiss konar „verndunar“bisniss. Öðru nafni heitir þetta að mála skrattann á vegginn og er mikið stundað af þeim sem hafa atvinnu af að særa út djöflana sem þeir skópu sjálfir.

Deildu færslunni