Reykjavíkurborg með klám á heilanum?

Nýlega gaf Reykjavíkurborg út bækling með titlinum „Klámvæðing er kynferðisleg áreitni“. (Reyndar stóð „ofbeldi“ í stað „áreitni“ á tenglinum þegar bæklingurinn var fyrst settur á netið, og þannig er tengillinn enn í dag neðst á þessari síðu.) Sú „rannsókn“ sem bæklingurinn grundvallast á leiðir alls ekki ljós að klám og kynferðisleg áreitni séu algeng á vinnustöðum borgarinnar, en höfundurinn veifar þrátt fyrir það ákaft stimpli klámvæðingar- og kynferðisáreitni, þótt einu „gögn“ hans séu viðtöl við fimm handvalda starfsmenn.

Höfundur bæklingsins er Thomas Brorsen Smidt, (fyrrverandi?) ráðskona í Femínistafélaginu, en í ritnefnd sátu tveir kynjafræðingar úr Háskóla Íslands ásamt starfsmanni á Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, sem er útgefandi. Á ofangreindri vefsíðu er m.a. sagt:

Bæklingurinn varpar ljósi á það hvernig konur upplifa klám á vinnustöðum og umræðu um útlit sitt í stað frammistöðu.

Í bæklingnum er sýnt hvernig umræða um útlit ásamt niðurlægjandi myndbirtingum er beitt til þess að grafa undan trúverðugleika kvenna og styrk.

Bæklingurinn er byggður á „rannsókn“ sem höfundur hans gerði síðasta sumar, og sem hann fjallar um í þessari grein. Skemmst er frá því að segja að hér er tæplega um rannsókn að ræða, heldur túlkanir höfundar á viðtölum við fimm handvalda starfsmenn borgarinnar, en hjá borginni skilst mér að starfi um tíu þúsund manns, þar af fjögur þúsund í fullu starfi. Þetta er rétt að hafa í huga, þótt í bæklingnum séu nefnd örfá dæmi um ósæmilega hegðun (sem við heyrum þó aðeins aðra hliðina á). Þegar ég spurði þann starfsmann Mannréttindaskrifstofunnar sem sat í ritnefnd bæklingsins um hvað vitað væri um algengi kláms á vinnustöðum borgarinnar fékk ég þetta svar:

Eftir að bæklingurinn kom út hafa fjölmargar konur starfandi hjá Reykjavíkurborg rætt atvik sem þær hafa orðið fyrir og tengjast klámvæddri orðræðu. Vonandi svarar það spurningu þinni um algengi.

Sumar af þeim túlkunum sem gerðar eru í umræddum bæklingi eru greinilegar rangfærslur, og aðrar snúast upp í langar „fræðilegar“ útskýringar á því sem viðmælendurnir hafi orðið fyrir. Á bls. 7 er til dæmis viðtal við konu sem talar um yfirmann sem greinilega ætti að fá tiltal fyrir ósæmilega framkomu (ef við gefum okkur að rétt sé frá sagt; við fáum hér bara aðra hliðina á málinu). Höfundur heldur svo fram í næstu setningu að þessi yfirmaður komist upp með „kynferðislega mismunun“ (sexually discriminatory), þótt viðmælandinn hafi ekki sagt orð um það varðandi yfirmanninn í viðtalinu.

Karlkyns viðmælandi segir frá því á bls. 6 að hann passi sig að segja ekki hluti sem hann telur að gætu sært (offended) tiltekna konu, af því að hann beri svo gríðarlega virðingu fyrir henni sem samstarfsmanni og fagmanneskju, en að hann tali stundum um slíkt við karlkyns vinnufélaga sína. Í þessu viðtali er ekki minnst einu orði á klám eða neitt kynferðislegt, bara talað um grófa brandara (offensive jokes). Samt leggur höfundur svo út af þessu að með því sé verið að kynjaaðgreina vinnustaðinn, og að slikt geti haft hrikalegar afleiðingar. Ekki er samt vikið orði að því hvort kvenkyns starfsmenn á „trúnó“ gætu skapað slíka hættu.

Þegar höfundur ræðir við kvenkyns starfsmann slökkviliðsins og segir henni að hann sé að rannsaka klámvæðingu á vinnustöðum borgarinnar (bls. 16) sækir hún strax dagatal með myndum af hálfberum slökkviliðskörlum. Næstu fjórar blaðsíðurnar fara í að útskýra af hverju þetta sé allt annað en nektarmyndir af konum, af því að karlmenn séu alltaf sýndir sem sterkir og drottnandi, en konur sem undirsettar.

Bæklingurinn er fullur af staðhæfingum um að klámtal „geti“ haft alvarlegar afleiðingar, en í næstu setningu er svo fullyrt að afleiðingarnar séu slæmar. Hann er líka fullur af tali um vinnuumhverfi sem sé „gegnsýrt af klámfenginni orðræðu“ (permeated by pornographic discourse), og gefið í skyn að svo sé um vinnustaði borgarinnar.

Þótt bæklingurinn hafi verið kynntur m.a. þannig að í honum sé sýnt hvernig „niðurlægjandi myndbirtingum er beitt til þess að grafa undan trúverðugleika kvenna og styrk“ eru þó einungis tvö dæmi um slíkar myndbirtingar, bæði úr Háskóla Íslands. Fyrra dæmið er af auglýsingu, með nektarmynd, um líkamsrækt, sem óþekktur aðili hefur hengt upp í skólanum. Hitt dæmið eru tvær auglýsingar, frá nemendafélagi, um sloppasölu, þar sem karl og kona eru sýnd, konan á ansi kynferðislegan hátt. Út frá þessum þrem dæmum (þar sem ómögulegt er að vita hvernig það fyrsta tengist nokkrum starfsmanni eða nemanda skólans) er síðan gerð ítarleg „greining“ á þeim hugsunarhætti sem liggi að baki slíkum myndum, án þess að séð verði að þetta komi nokkuð við vinnustaðamenningu Reykjavíkurborgar (né heldur segir þetta mikið um ástandið meðal þeirra fimmtán þúsund nemenda og starfsmanna sem HÍ hýsir).

Það er sem sagt ekki sagt frá einni einustu mynd af klámi sem höfundur hafi séð á vinnustöðum Reykjavíkurborgar, en einu sinni segir viðmælandi frá því að hún hafi komið inn á skrifstofu þar sem var nakin kona á tölvuskjá og dagatöl með nöktum konum á veggnum.

Þrátt fyrir að í þessari grein séu ekki lögð fram nein gögn eða rök sem sýni að klám og klámvæðing sé algengt fyrirbæri hjá borginni leyfir höfundur sér að draga þá ályktun í lokin (bls. 31) að hann hafi sýnt fram á að „rætur feðraveldisins hafi enn sterk tök og haldi áfram að næra klámvæðingu menningarinnar sem vex upp úr því“ (the roots of patriarchy still have a very firm hold and continue to nurture the pornification of the culture that grows above it.)

Eins og fyrr sagði er það Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar sem gaf út umræddan klámvæðingarbækling. Á henni starfa fimm manns. Sé útgáfuefni skrifstofunnar einhver vísbending um áherslurnar í starfi hennar kemur í ljós sérkennileg afstaða. Nánast allt útgáfuefni síðasta árið fjallar um klám eða „jafnréttis“mál, en í síðarnefnda flokknum er t.d. samsafn af tölum um kynjaskiptingu, þ.á.m. í styrkjaveitingum til rithöfunda og myndlistarmanna á Íslandi, án þess nokkuð sé fjallað um kynjahlutföll þeirra sem virkir eru í slíku starfi, eða styrkjahlutföll miðað við fjölda umsókna.  Ekki er að sjá af þessu að önnur mannréttindamál fái mikla umfjöllun.

Engar tölur virðast sem sagt vera til um algengi kláms eða kynferðislegrar áreitni hjá borginni, samkvæmt þeim starfsmanni Mannréttindaskrifstofu sem sat í ritnefnd bæklingsins. Á Landspítalanum var hins vegar nýlega gerð starfsmannakönnun. Ég veit ekki hvernig staðið var að henni (nema hvað hér er sagt að 70% starfsmanna hafi tekið þátt), og get því ekki metið áreiðanleika hennar, en það vekur athygli að sjö prósent starfsmanna segjast hafa orðið fyrir einelti, en einungis eitt prósent segjast hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni yfir- eða samstarfsmanna. Sláandi er að engin slík könnun skuli hafa verið gerð hjá borginni, þrátt fyrir fullyrðingar í bæklingnum um alvarleika þeirra mála.

Eins og sagt var frá hér að ofan verður ekki séð að staðhæfingarnar um að vinnustaðamenningin í Reykjavíkurborg sé gegnsýrð af klámvæðingu eigi við nein rök eða gögn að styðjast; bæklingurinn byggist eingöngu á túlkunum höfundar á viðtölum við örfáa handvalda starfsmenn, túlkunum sem sums staðar eru hreinar rangfærslur, auk þess sem höfundur gengur augljóslega til leiks með fyrirfram gefnar skoðanir á eðli og afleiðingum þess sem hann kallar klám, og treður með valdi lýsingum viðmælenda inn í þær kenningar.

Það virðist sem sagt engin ástæða til að ætla að starfsmenn borgarinnar séu með hausinn fullan af ljótum klámhugsunum. Getur verið að það sé fyrst og fremst starfslið Mannréttindaskrifstofunnar sem er með klám á heilanum?