Forstjóri Landsvirkjunar er aftur farinn að lofa gulli og grænum skógum, ef hann fær bara að virkja nóg. Síðast var það í sumar sem hann fékk Ásgeir Jónsson (þann sem var forstöðumaður „greiningardeildar“ Kaupþings og taldi allt á blússandi uppleið alveg þangað til spilaborgin hrundi yfir hann) til að skrifa skýrslu um hvernig Landsvirkjun gæti gert Íslendinga jafnríka og Norðmenn urðu af olíunni. Núna er lausnarorðið að flytja út orkuna um sæstreng.
Þetta undirstrikar enn þörfina á því að leggja Landsvirkjun niður í núverandi mynd og koma á fót nýrri stofnun í hennar stað. Það er hrikalegur hagsmunaárekstur þegar Landsvirkjun er komin í áróður fyrir frekari virkjunum. Slíkar ákvarðanir eiga stjórnmálamenn að taka, og bera ábyrgð á gagnvart kjósendum. Landsvirkjun ætti einungis að framkvæma það sem ákveðið er pólitískt að gera, ekki að nota peninga almennings til að reka áróður fyrir því að hún fái að þenjast út á eigin forsendum.