Í Ákærendafélagi Íslands eru, samkvæmt formanni þess Jóni H. B. Snorrasyni, allir handhafar ákæruvalds í landinu, þ.á.m. saksóknarar, og fulltrúar þeirra. Félagið sendi Allsherjarnefnd Alþingis nýlega umsögn um frumvarp til breytinga á lögum um meðferð sakamála, þar sem lagt er til að rannsóknarheimildir lögreglu verði auknar. Rökin fyrir auknum heimildum eru staðhæfingar greiningardeildar ríkislögreglustjóra um að „alvarleg skipulögð glæpastarfsemi væri að færast í vöxt hérlendis og að alþjóðlegir glæpahringir væru að skjóta hér rótum.“ Ennfremur heldur innanríkisráðherra, sem er upphafsmaður frumvarpsins, því fram að skipulögð glæpastarfsemi „grafi undan grundvallarmannréttindum“, þótt sú furðulega staðhæfing sé ekki skýrð nánar.
Ákærendafélagið segir að margt í frumvarpinu sé óþarfi; heimildirnar séu þegar til staðar. Hins vegar telur félagið brýnt að ganga lengra en lagt er til í þessu frumvarpi, og segir meðal annars:
Forvirkar rannsóknarheimildir þurfa að ná til hvers kyns atferlis sem talið er ógna almenningi, öryggi ríkisins og sjálfstæði þess.
Allir sem hafa kynnt sér njósnastarfsemi lögreglu, jafnvel í „huggulegum“ löndum eins og Svíþjóð og Noregi, vita hvernig fólk í valdastöðum hneigist til að túlka hugtök eins og „ógn gegn öryggi ríkisins og sjálfstæði þess“. Reyndar þarf ekki að fara út fyrir landsteinana, því þekkt er að símhlerunum hefur verið beitt á Íslandi gegn pólitískum andstæðingum stjórnvalda á fáránlegum forsendum. Skemmst er og að minnast þess að níu manns voru ákærðir fyrir tilraun til að „svipta Alþingi sjálfræði þess“, af því að þeir reyndu að neyta stjórnarskrárvarins réttar síns til að fara á þingpalla. Það er dapurlegt að félag saksóknara skuli vilja auka heimildir lögreglu sem yfirvofandi hætta er á að verði notaðar til að brjóta mannréttindi.
Hitt er verra að félagið virðist beinlínis vera með pólitískar ofsóknir í huga, því í framhaldi af ofangreindri tilvitnun í umsögn þess stendur þetta:
Slíkar heimildir þurfa að taka til einstaklings eða hóps manna sem talinn er eða taldir eru ógna öryggi ríkisins eða einstaklinga, svo sem öfgahópa eða einstaklinga sem telja má hættulega vegna sérstaks hugarástands.
Öfgar eru skoðanir sem falla utan þess sem algengast er í samfélaginu hverju sinni. Hugmyndirnar um afnám þrælahalds og kosningarétt kvenna voru öfgahugmyndir á sínum tíma, og einnig langt fram á síðustu öld hugmyndirnar um jafnan rétt kvenna og karla almennt, svo og um mannréttindi samkynhneigðra. Ákvæði um skoðana- og tjáningarfrelsi eru einmitt ætluð til þess að vernda rétt fólks til að hafa og tjá öfgaskoðanir.
Að yfirvöld eigi svo að úrskurða hverjir séu hættulegir „vegna sérstaks hugarástands“ fær mann til að velta fyrir sér hvort höfundar umsagnarinnar hafi lesið bókina 1984, og séu beinlínis að vísa í hana sem lýsingu á fyrirmyndarríki.
Ef hér væru á ferðinni kunnir froðufellandi ofstækismenn kæmi þetta fáum á óvart. En þetta er sem sagt félag saksóknara í landinu, þeirra sem fara með valdið til að ákæra borgarana, og þvæla þeim gegnum réttarkerfið, á forsendum sem þetta fólk ákveður sjálft.
Til varnar þessu fólki má þó segja að í lok umsagnarinnar er fjallað um mikilvægi þess að virkt eftirlit sé með beitingu umræddra heimilda:
Þá þarf að gæta vel að grundvallarreglum um mannréttindi og að lögreglu verði ekki veitt óhóflegt svigrúm í þessum efnum. Þá er lögð rík áhersla á að hugað verði að virku eftirliti með ákvörðunum lögreglu um beitingu slíkra heimilda og þær verði að jafnaði háðar samþykki dómstóla fyrir fram. Þá kemur vel til greina að slíkar rannsóknarheimildir verði háðar sérstöku eftirliti ráðherra og eða Alþingis eða stofnana á vegum Alþingis.
Væri komið á raunverulegu eftirliti, í þágu almennings, með starfsemi lögreglu gæti það bætt starfsemina verulega, og komið í veg fyrir þau mannréttindabrot sem eru allt of algeng, þótt fæst þeirra fari hátt. Slíkt eftirlit þyrfti að stofna með réttu hugarfari, þ.e.a.s. að hlutverk þess þyrfti að vera að vernda rétt almennings. Það þyrfti að vera algerlega óháð lögreglu og ákæruvaldi, og hafa jafn víðtækar heimildir og t.d. Samkeppniseftirlit og Fjármálaeftirlit á sínum sviðum. Það þyrfti að geta yfirheyrt, fyrirvaralaust, alla starfsmenn lögreglu og ákæruvalds, og þeim ætti að vera skylt að svara satt og undanbragðalaust, að viðlögðum hörðum refsingum eða starfsmissi. Eftirlitið ætti bæði að taka fyrir kvartanir almennra borgara og rannsaka mál að eigin frumkvæði, og það ætti að birta niðurstöður sínar reglulega og opinberlega.
Öflugt eftirlit með öllu starfi lögreglu myndi annars vegar hreinsa burt þá sem ekki kunna að fara með vald hennar, og hins vegar efla traust borgaranna á þeim yfirgnæfandi meirihluta lögreglufólks sem er heiðarlegt og raunverulegir þjónar almennings. Vandamálið við núverandi viðhorf yfirvalda er gegnumgangandi vandamál í íslenskri stjórnsýslu: Hún lítur á sig sem guðlegt yfirvald, en ekki þjón almennings.
Það er sorglegt að innanríkisráðherra, sem talar fyrir auknum heimildum lögreglu til að njósna um borgarana, skuli enga viðleitni hafa sýnt til að tryggja að valdstjórnin brjóti ekki á mannréttindum þessara sömu borgara. Næg eru dæmin, og ráðherrann veit um mörg þeirra.