Vilhjálmur Þorsteinsson og Gamla Ísland

Vilhjálmur Þorsteinsson skrifaði bloggpistil í gær um niðurfærslu lána, þar sem hann kemst í aðalatriðum að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að fara í neinar róttækar aðgerðir, en leggur til mildari aðgerðir á lengri tíma. Þetta er ágætis pistill að því leyti að Vilhjálmur færir ítarleg rök og gögn fyrir máli sínu, og því er þetta gott innlegg í málefnalega umræðu (þótt sjálfsagt verði margir til að gera athugasemdir við ýmsar staðhæfingar Vilhjálms).

Ég efast ekki um að Vilhjálmur hafi margt til síns máls, þótt ég ætli ekki fara í saumana á því sem hann segir. Mér finnst hitt nefnilega mikilvægara, að málflutningur Vilhjálms byggir á forsendu sem auðvitað er hægt að aðhyllast, en sem ég tel vera svo meingallaða að tilgangslítið sé að ræða niðurstöður og tillögur Vilhjálms eins og þær standa.

Vilhjálmur gengur nefnilega út frá því að það efnahags- og stjórnmálakerfi sem við búum við sé í aðalatriðum í lagi, eða að minnsta kosti að ekki sé annað í boði en að gera lagfæringar á því til að sníða af verstu vankantana.

Ég tel, þvert á móti, að íslenska valdakerfið sem drottnað hefur yfir efnahagslífi og stjórnmálum landsins í áratugi sé gegnrotið af spillingu, og gersamlega ófært um, og óviljugt, að gera þær grundvallarbreytingar sem gera þarf til að hagsmunir almennings séu ekki endalaust fyrir borð bornir í þágu hinna útvöldu ræningjakapítalista.

Gunnar Tómasson hagfræðingur hefur nýlega lagt til að ríkið yfirtaki húsnæðisskuldirnar sem bankarnir keyptu með miklum afslætti, og greiði aðeins það verð sem bankarnir greiddu fyrir þær, og það notað til að færa þær niður. Miðað við reynsluna af íslensku bönkunum síðustu árin tel ég að það eigi að ganga skrefi lengra og yfirtaka bankana alveg. Segja kröfuhöfum að kröfur þeirra yrðu skoðaðar í rólegheitum, þeir fengju peningana ef til vill til baka, þó aldrei meira en þeir borguðu, og það gæti tekið mörg ár, jafnvel áratugi áður en þeir fengju þá. Alveg sérstaklega myndu engir kröfuhafar sem áttu þátt í að setja Ísland á hliðina fá krónu tilbaka ef þeir hafi verið svo ósvífnir að kaupa kröfur í bankana.

Það vill nefnilega svo vel til, að kostnaðurinn sem Vilhjálmur telur að yrði af niðurfærslu lána í takt við tillögur Hagsmunasamtaka Heimilanna, um 260 milljarðar, er nokkurn veginn það sem bankarnir hafa grætt frá hruni.

Það ætti ekki að þurfa að bera í þann bakkafulla læk sem eru dæmin um brjálæðisleg mistök, lögbrot, yfirgang og stjórnlausa græðgi sem einkennt hefur íslenskt efnahags- og stjórnmálalíf, og sem ekki er að sjá að verið sé að koma í veg fyrir að endurtaki sig. En, það er kannski, þrátt fyrir allt, nauðsynlegt að rifja upp nokkur dæmi:

  • Íslensku bankarnir voru gefnir vildarvinum stjórnmálamanna. Þeir voru ekki bara tæmdir heldur fyrst blásnir svo upp að gjaldþrot þeirra eru þrjú af tíu stærstu gjaldþrotum mannkynssögunnar. Miðað við höfðatölu voru þessi gjaldþrot um tvö hundruð sinnum stærrien samanlögð tvö stærstu gjaldþrotin í sögu Bandaríkjanna (Lehman Brothers og Washington Mutual).
  • Íslensku lífeyrissjóðirnir sem eru undir stjórn samkrulls kapítalista, verkalýðsforystunnar og stjórnmálamanna, tóku þátt í brjálæðinu sem olli hruni hagkerfisins, en þar ber enginn neina ábyrgð, og nánast enginn forkólfa þeirra hefur sagt af sér, hvað þá verið rekinn.
  • Og svo eitt lítið, en talandi dæmi: Fyrirtækið sem rekur Ja.is hefur verið til umfjöllunar vegna þeirrar sérkennilegu ákvörðunar að láta kvenfyrirlitningarpostula „hanna“ símaskrána. Það er að vísu illskiljanlegt af hverju þarf að gera annað við símaskrána en að gefa hana út óskreytta. En verður skiljanlegra að fyrirtækinu detti þvílíkt rugl í hug þegar í ljós kemur að hér er um að ræða þess konar yfirgengilegan einokunarkapítalisma, í skjóli ríkisvaldsins, sem margir héldu að enginn treysti sér lengur til að verja opinberlega. Ofsagróði af því tagi sem þetta fyrirtæki (í eigu fjárfestingasjóðs) hefur rakað saman gerir forsvarsmönnum þess nefnilega kleift að stunda úrkynjað rugl af því tagi sem fyrir hrun fólst helst í því að leggja sér gull til munns, í bókstaflegum skilningi.

Það má vel vera að málflutningur Vilhjálms Þorsteinssonar væri góðra gjalda verður ef við létum okkur nægja að lappa aðeins upp á þetta sjúka valdakerfi, og sættum okkur við að gullæturnar væru skammaðar svolítið öðru hverju. Ef við viljum nýtt Ísland, í stað þess sora sem gegnsýrir allt valdakerfið nú, þá þarf hins vegar annars konar aðgerðir.

Deildu færslunni