Blóð handa hrægömmum, kökur handa fólkinu

(Það er búið að segja þetta mörg hundruð sinnum, en það virðist ekki nægja …)

Eftir því sem ég best veit hefur eftirfarandi margendurteknu staðhæfingum ekki verið mótmælt:

  • Núverandi eigendur Arionbanka og Íslandsbanka (sem leynd hvílir yfir hverjir eru) fengu þá upp í kröfur sem þeir áttu á bankana fyrir hrun.
  • Þessir bankar (og Landsbankinn líka, sem er að mestu í ríkiseigu) yfirtóku lán í eigu gömlu bankanna, þar á meðal mikið af húsnæðislánum, með gríðarlegum afslætti.
  • Bankarnir geta engu að síður innheimt þessi lán að fullu, og af hörku, sem þeir gera í mjög mörgum tilfellum.
  • Bankarnir hafa grætt hátt í tvö hundruð milljarða frá hruni.
  • Þar sem ríkið yfirtók bankana í hruninu var það ríkið sem bar ábyrgð á hvernig staðið var að samningum við kröfuhafana sem nú eiga þá.

Í stuttu máli starfa hrægammarnir sem eiga bankana í skjóli ríkisins, sem fyrst seldi þeim húsnæðislán á brunaútsölu, og nú horfir aðgerðalaust á hvernig þeir mergsjúga skuldara, meðal annars í krafti mikillar verðbólgu frá hruni, og verðtryggingar sem ríkisstjórnin neitar að hrófla við.

Augljóst virðist að hér hafi eitthvað farið illilega úrskeiðis.  Hver ber ábyrgð á því, og af hverju er ekkert gert í málinu?

Mikill fjöldi þeirra sem skulda þessi húsnæðislán er að kikna undan þeim, eða hefur að minnsta kosti tapað ævisparnaðinum og sér fram á að eyða áratugum í að borga niður stórhækkaðan höfuðstól.

Á þetta hefur ríkisstjórnin horft í bráðum þrjú ár, og þrátt fyrir gríðarlega óánægju meðal almennings heldur hún áfram að svara út í hött.  Nú síðast var það Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sem rakti allt það sem ríkisstjórnin væri að gera, án þess að nefna neitt sem  ástæða er til að ætla að leysi nema örlítinn hluta vandans, hvað þá að það fjarlægi sjálft meinið.

Eins og systurflokkurinn í ríkisstjórn, VG, hefur þetta fólk lært sína lexíu, en hjá vitlausum lærimeistara.  Nefnilega hjá Maríu Antoinette, sem ráðlagði fólkinu að borða bara kökur úr því að það ætti ekki brauð.