Pólitísk ritskoðun á RÚV. Fyrir LÍÚ.

Eins og flestir hafa tekið eftir sem hlusta á Ríkisútvarpið hefur undanfarið birst urmull auglýsinga í nafni „íslenskra útvegsmanna“, þar sem haldið er fram að stjórnvöld séu að „lama fjárfestingar“ í sjávarútvegi, og að tugir þúsunda starfa séu í hættu vegna stefnu ríkisstjórnarinnar, svo fátt eitt sé nefnt.

Þótt ég sé enginn vinur núverandi ríkisstjórnar blöskraði mér svo þessi  áróður að ég ákvað að setja auglýsingu á móti.  Hún birtist síðastliðinn miðvikudag og hljóðaði svo:

Íslenskir útvegsmenn vilja lama þjóðfélagið með kröfum sínum.  Borgari.

Mér skilst að daginn eftir hafi komið svohljóðandi auglýsing sem annar borgari setti inn:

Í krafti peninga ætlar útgerðaraðallinn líka að kaupa almenningsálitið. Er það sæmandi? Borgari.

Í gær bað ég svo um að eftirfarandi auglýsing yrði lesin:

Er herferð útgerðaraðals gegn almenningi siðleg?  Borgari.

Þá kom babb í bátinn og ég fékk eftirfarandi svar frá Auglýsingadeild RÚV:

Ég þarf að biðja þig um að setja undirskrift undir auglýsinguna, það verður alltaf að vera ljóst hver er að auglýsa. „Borgari“ er of allmennt.

Mér var líka sagt að það yrði að vera einstaklingur eða samtök eða fyrirtæki sem undirrituðu, en eitthvað var þetta samt óljóst, því ekki var á hreinu hvort slík samtök þyrftu að vera formlega skráð einhvers staðar.

Mér var líka sagt að þetta væri „almenn vinnuregla sem á sér stoð í lögum um auglýsingar.“  Þegar ég benti á að „íslenskir útvegsmenn“ væru alls engin opinber samtök var mér sagt að það hefðu verið mistök að leyfa það og það yrði leiðrétt.  Þetta var í gær.  Í morgun, rétt fyrir klukkan 11 kom svo auglýsing af sama toga og þær fyrri, undirrituð „íslenskir útvegsmenn punktur is“.  Það er til vefsíða á slóðinni http://islenskirutvegsmenn.is.  Þar kemur hins vegar ekki fram, eða gerði a.m.k. ekki á hádegi í dag, hver ætti hana.

Auglýsingadeild RÚV virðist því hafa ákveðið að það sé í lagi að reka harðorðan áróður gegn stjórnvöldum þar sem haldið er fram að þau séu að „lama“ sjávarútveginn með aðgerðum sínum, og að undir slíkar auglýsingar þurfi ekki að skrifa nein samtök eða einstaklingar. Almennir borgarar mega hins vegar ekki svara í sömu mynt.  RÚV virðist sem sagt telja að það eigi að þjóna hagsmunum voldugra hagsmunasamtaka, en alls ekki almennra borgara.

Hitt er svo annað mál, en ekki síður athyglisvert að hvorki í reglum RÚV um auglýsingar, né heldur lögum sem þær vísa í, er að finna stafkrók um að yfirleitt þurfi að koma nokkuð fram um hver stendur fyrir tiltekinni auglýsingu.  Hins vegar stendur þetta í 3. grein auglýsingareglna RÚV:

3.  Þess skal gætt að auglýsingar séu látlaust orðaðar, lausar við skrum og hæpnar fullyrðingar, en segi það eitt sem er satt og rétt.

4. Auglýsing skal ekki fela í sér ádeilu eða hlutdræga umsögn um einstaka menn, stofnanir, félög, félagasamtök, stefnur í almennum málum eða stjórnmálaflokk.

Það er augljóst að auglýsingar „íslenskra útvegsmanna“ segja ekki „það eitt sem er satt og rétt“, að minnsta kosti virðist ótrúlegt að RÚV hafi komist að þeirri niðurstöðu að pólitískur áróður LÍÚ sé hinn eini sannleikur í þessum málum.  Augljóst er líka að þessar auglýsingar „fela í sér ádeilu eða hlutdræga umsögn um […] stefnur í almennum málum“.

Auglýsingadeild RÚV hefur sem sagt ákveðið að sniðganga eigin reglur til að leyfa LÍÚ að halda uppi hatrömmum áróðri án þess að samtökin þurfi einu sinni að gangast við að liggja að baki honum.  Og að banna almennum borgurum að tjá sig um sama mál, með sams konar hætti.

Deildu færslunni