Í framhaldi af þeim viðskiptum mínum við Auglýsingadeild RÚV sem lýst er í síðustu bloggfærslu minni, sendi ég Auglýsingadeild RÚV í gær póst þar sem ég fór fram á að fá lesna í útvarp auglýsingu um framferði LÍÚ og RÚV (sjá tölvupóst hér neðst á síðunni). Þeirri beiðni var hafnað, og mér var jafnframt tjáð að RÚV hefði ákveðið að hætta að birta auglýsingar LÍÚ, sem dunið hafa á landsmönnum síðustu vikurnar. Þar sem þessi skilaboð voru frekar óljós, sendi ég áðan eftirfarandi póst til útvarpsstjóra RÚV.
Það er góðra gjalda vert ef RÚV er hætt að birta þann ósmekklega áróður sem LÍÚ hefur ausið yfir landsmenn, en það er umhugsunarefni að það skuli ekki gerast fyrr en óbreyttir borgarar vilja fá að svara í sömu mynt, og þá af því að RÚV telur að auglýsingar þessara borgara séu ekki í lagi, en ekki af því að RÚV virðist hafa haft neitt að athuga við auglýsingar LÍÚ.
Reyndar hringdi Markaðsstjóri RÚV, sem er yfir Auglýsingadeildinni, í mig í gærkvöldi og sagði meðal annars að það væri ófært að auglýsingatímar RÚV yrðu að vettvangi fyrir svona átök. Erfitt er að skilja viðbrögðin öðru vísi en svo að í fínu lagi sé að LÍÚ herji á landsmenn með áróðri sínum í auglýsingatímum RÚV, en að ekki sé ætlast til að almenningur blandi sér í þann slag.
—————————————————————————–
Til útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins
Í gær sendi ég beiðni til Auglýsingadeildar RÚV um að tiltekin auglýsing yrði lesin í útvarpi þá um kvöldið. Póstur minn um þetta fylgir með hér í lokin. Beiðni minni var hafnað. Áður, s.l. föstudag, var beiðni minni hafnað um að eftirfarandi auglýsing yrði lesin:
„Er herferð útgerðaraðals gegn almenningi siðleg? Borgari“
Uppgefin ástæða var að „Borgari“ væri of „almenn“ undirskrift. Eins og ég hef bent á í bloggfærslu (http://blog.eyjan.is/einar/2011/11/19/politisk-ritskodun-a-ruv-fyrir-liu/) er hér um mismunun að ræða þar sem Landssamband Íslenskra Útvegsmanna hefur fengið birtan fjölda auglýsinga með undirskriftinni „íslenskir útvegsmenn“. Engin samtök með því nafni eru til, auk þess sem LÍÚ hefur ekki alla íslenska útvegsmenn innan sinna vébanda.
Ég benti líka á að auglýsingar LÍÚ fara greinilega í bága við reglur RÚV um auglýsingar eins og þær birtast hér, nánar tiltekið við 3. og 4. mgr. 3. greinar: www.auglysendur.is/Forsida/Gjaldskra/Reglurumauglysingar/. Augljóslega er ekki hægt að halda fram að auglýsingar LÍÚ innihaldi „það eitt sem er satt og rétt“, auk þess sem þær fólu margar í sér „ádeilu eða hlutdræga umsögn um […] stefnur í almennum málum.“
Ég fer hér með fram á eftirfarandi:
1. Að neðangreind auglýsing mín verði birt einhvern virkan dag í þessari viku, annað hvort milli kvöldfrétta og Spegils eða milli fréttayfirlits á hádegi og hádegisfrétta. Sé því hafnað vil ég fá skýringar á því hverjar forsendur höfnunarinnar séu.
2. Sé það rétt skilið að RÚV hafi ákveðið að stöðva frekari birtingar á auglýsingum LÍÚ í sama anda og þeim sem einkennir auglýsingar sambandsins síðustu vikurnar, þá gefi útvarpsstjóri ótvíræða yfirlýsingu um það.
3. Skilji ég rétt að RÚV telji að auglýsingar LÍÚ hafi brotið gegn auglýsingareglum RÚV fer ég fram á að útvarpsstjóri gefi út yfirlýsingu þess efnis, tiltaki hvaða greinar reglnanna hafi verið brotnar, og biðji afsökunar á að RÚV hafi gert þessi mistök, og því að hafa mismunað þeim einstaklingum sem vildu auglýsa í sama stíl og LÍÚ.
4. Ég fer fram á að fá formlegt svar frá útvarpsstjóra við þessu erindi mínu.
Kveðjur,
Einar Steingrímsson
———- Forwarded message ———-
From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2011/11/21
Subject: Lesin auglýsing milli kvöldfrétta og Spegils
To: auglysingar@ruv.is
Sælt veri fólkið
Ég vil láta lesa eftirfarandi auglýsingu mill kvöldfrétta og Spegils í kvöld:
„LÍÚ auglýsti undir fölsku flaggi og braut auglýsingareglur Ríkisútvarpsins. Borgari“
Ég vek athygli á að þetta eru sannar og réttar staðhæfingar, eins og sjá má af eftirfarandi úr reglum RÚV um auglýsingar:
3. Þess skal gætt að auglýsingar séu látlaust orðaðar, lausar við skrum og hæpnar fullyrðingar, en segi það eitt sem er satt og rétt.
4.. Auglýsing skal ekki fela í sér ádeilu eða hlutdræga umsögn um einstaka menn, stofnanir, félög, félagasamtök, stefnur í almennum málum eða stjórnmálaflokk.
Ýmsar staðhæfingar í auglýsingum LÍU hafa ekki innihaldið „það eitt sem er satt og rétt“, þvi augljóst er að um þær má deila. Auk þess fólu margar þeirra í sér „ádeilu eða hlutdræga umsögn um […] stefnur í almennum málum.“
Þessar auglýsingar brutu því í bága við reglur RÚV. LÍÚ sigldi líka undir fölsku flaggi í þessum auglýsingum, því LÍÚ er ekki opinber fulltrúi „íslenskra útvegsmanna“, enda eru þeir alls ekki allir í samtökunum.
Auglýsingin hér að ofan sem ég fer fram á að fá lesna er því augljóslega sönn og rétt.
Ég fer fram á að auglýsingin verði birt með undirskriftinni „Borgari“, enda er ekkert að finna í reglum RÚV eða lögum um auglýsingar sem þær vísa í sem kemur í veg fyrir það. Ef þið hyggist gera það að frágangssök er ég til í að fallast á að hún verði undirrituð „Einar Steingrímsson“, en þá mun ég hugsanlega leita réttar míns gagnvart ykkur fyrir að gera kröfur sem ykkur er ekki heimilt að gera, auk augljósrar og grófrar mismununar.
Ég geri svo ráð fyrir að þið sendið mér reikning í tölvupósti og að ég leggi inn á bankareikning ykkar eins og ég gerði í síðustu viku.
Bestu kveðjur,
Einar Steingrímsson