Páll stóðst einkavinavæðingarprófið

Stjórn Bankasýslu ríkisins hefur nú skilað fjármálaráðherra skýringum á því af hverju hún valdi Pál Magnússon í stöðu forstjóra Bankasýslunnar.  Í bréfinu segir meðal annars, um próf sem „sérfræðingarnir“ í Capacent létu leggja fyrir umsækjendur til að mæla „persónulega hæfileika“ og „hugræna hæfni“:

Forspárgildi beggja prófana [sic] um árangur í starfi hefur verið staðfestur í fjölda rannsókna.

Látum liggja á milli hluta hvernig svona próf geti spáð fyrir um árangur í starfi (sem er afar erfitt að meta fyrir háar stjórnunarstöður.  Hvernig var árangur bankastjóra á Vesturlöndum metinn síðustu tíu árin?).  En, trúir því nokkur maður að próf af þessu tagi séu líkleg til að skera úr um hvort Páll sé líklegur til að selja (fyrrum?) pólitískum samherjum sínum Landsbankann með kunningjaafslætti?

Við þessu sá stjórn Bankasýslunnar reyndar því hún virðist sjálf hafa fundið upp á að leggja próf af nákvæmlega því  tagi fyrir Pál, eins og segir í ofannefndu svari:

Raunhæft verkefni – leggur mat á hversu vel umsækjandi leysir dæmigert verkefni úr komandi   starfsumhverfi.  Aðferðin þykir sýna vel hæfileika og getu umsækjenda til að fást við daglega þætti í starfinu. Verkefnið var útbúið af Bankasýslunni og fólst annarsvegar í að rita bréf frá Bankasýslunni til Fjármálaráðuneytisins varðandi sölu á eignarhlut ríkisins í ákveðnum sparisjóði og hins vegar minnisblað til starfsmanna varðandi sama efni.

Sem sagt, Páll veldur því að skrifa bréf til fjármálaráðherra, og til undirmanna sinna, þegar hann þarf að útskýra að nú hafi hann selt einhverjum flokksgæðingnum Landsbankann.

Það er engin furða að Páll skuli hafa staðist þetta erfiða próf með sóma; hann var jú aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttur þegar hún gerði nákvæmlega þetta.

Annað sem vekur athygli í svarinu er þetta:

Ítarleg sérhæfð viðtöl um starfið voru tekin við alla fjóra umsækjendur, þar sem allir fengu sömu spurningar. Tók hvert viðtal um klukkustund.

Í upphafi viðtals var verkefni lagt fyrir umsækjendur þar sem nauðsynlegt var að vinna hratt og örugglega en verkefninu var meðal annars ætlað að sýna hvernig viðkomandi ynni undir álagi.

Er það heillamerki að stjórn Bankasýslunnar geri ráð fyrir að forstjóri hennar þurfi að leysa mikilvæg verkefni á nokkrum mínútum?

Deildu færslunni