Dómstólar sniðganga stjórnarskrána

Eitt mikilvægasta einkenni réttarrríkis er að dómstólar dæma eftir lögum, og þar er stjórnarskrá æðri öllum öðrum lögum.  Á Íslandi hefur það gerst oftar en einu sinni síðustu árin að dómstólar sniðganga stjórnarskrána í málum sem augljóslega varða hana.

Í gær var vísað frá frávísunarkröfu í máli  ákæruvaldsins gegn Lárusi Páli Birgissyni, sem er ákærður fyrir að hafa staðið með skilti fyrir framan Bandaríska sendiráðið á Laufásvegi.  Lárus var reyndar sakfelldur fyrir sams konar „brot“ í sumar, og þann dóm má lesa hér.   Sá dómur er afar athyglisverður, svo ekki sé meira sagt.

Í stuttu máli var Lárus kærður fyrir að neita að hlýðnast lögreglu, sem vildi færa hann frá gangstéttinni við sendiráðið, þar sem hann stóð með mótmælaskilti, yfir á gangstéttina hinum megin við götuna.  Í dómnum er sagt að lögregla hafi ráðfært sig við (ótilgreinda) starfsmenn sendiráðsins, sem hafi farið fram á að Lárus yrði fjarlægður, og kemst rétturinn að þeirri niðurstöðu að það hafi verið „hófleg beiðni“, og er vísað í lög um skyldu íslenskra stjórnvalda til að verja sendiráð erlendra ríkja, en ekki útskýrt gegn hverju þurfti að verjast.

Það sem gerir þennan dóm sérkennilegan, og ámælisverðan, er að í honum er ekki vikið að stjórnarskrárbundnum rétti til skoðana- og tjáningarfrelsis, sem málið snýst þó augljóslega um, heldur er haldið til streitu þeim praxís að borgurunum beri skýlaust að hlýða boðum lögreglu, jafnvel þegar hún brýtur gegn stjórnarskrárvörðum réttindum.  Því er varla hægt að komast að annarri niðurstöðu en að dómurinn hafi viljandi sniðgengið stjórnarskrána.  Slíkt gera ekki dómstólar sem bera nokkra virðingu fyrir réttarríkinu.

Þessi endurteknu málaferli gegn Lárusi eru því miður ekki einsdæmi.  Skemmst er að minnast Nímenningamálsins, þar sem níu manns sættu glórulausum ákærum um valdarán, fyrir að hafa neytt réttar síns til að mótmæla.  Í þeim dómi voru fjórir sakfelldir, en einungis fyrir að óhlýðnast fyrirmælum valdstjórnarinnar.  Þar gaf rétturinn stjórnarskránni líka langt nef, og setti rétt valdsmanna ofar henni, þótt sakborningar væru sýknaðir af öllum öðrum ákærum.

Dómstólar sem endurtekið hunsa ákvæði stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi eiga ekki skilið þá virðingu sem dómstólar i réttarríki þurfa að njóta.  Hins vegar er við fleiri að sakast, því mál af þessu tagi ættu aldrei að koma til kasta dómstólanna.  Ákæruvaldinu virðist þykja það nauðsynlegt að ofsækja fólk sem leyfir sér að hafa skoðanir sem eru yfirvöldum ekki þóknanlegar.  Það eru nefnilega ofsóknir að draga fólk gegnum réttarkerfið, með ærnum tilkostnaði og tímatapi, svo ekki sé minnst á þá árás á eðlilega sálarró sem það er að þurfa að verja sig gegn upplognum sökum fyrir dómstólum.

Á bak við þessar ofsóknir ákæruvaldsins, og þetta löglausa framferði dómstólanna, er fólk, því svona hlutir gerast ekki sjálfkrafa, heldur er það fólk af holdi og blóði sem tekur ákvarðanirnar.  Þetta fólk ætti að hugsa sinn gang, því það gerir sig að verkfærum fyrir kúgun sem ekki ætti að þekkjast í lýðræðisríki.

Mikilvægara er þó að uppræta þennan praxís, bæði hjá ákæruvaldinu, og dómstólunum.  Hvernig það verður gert er ekki einfalt mál, því það á að vera innbyggt í réttarkerfið að þessir aðilar fari að þeim lögum sem þeir eiga að vinna eftir, en brjóti ekki gegn þeim.  Þegar ákæru- og dómsvaldið leyfir sér að ganga endurtekið gegn stjórnarskránni er úr vöndu að ráða.