Að eyðileggja samfélag

Í nýlegri grein á Vísi segir Ólöf Guðný Valdimarsdóttir frá húsnæðislánasögu sinni, m.a. þetta:

‎“Ég leiddi hugann því ekkert sérstaklega að því hvað lánin sem ég borgaði innihéldu og hvort þau væru sanngjörn eða réttlát, en lagði allan metnað minn í að borga lánin.“

„Þegar greiðsluvandi blasti við var það því mitt fyrsta verk að fara í bankann. Láta vita að ég væri að komast í vanda og óska eftir viðræðum um hvernig ég gæti staðið í skilum. Þetta var forgangsatriðið. Og líklega hefði ég verið tilbúin til að selja ömmu mína til að geta staðið í skilum við bankann. Og jafnvel ganga lengra hefðu þeir farið fram á það. Óttinn við að geta ekki staðið í skilum yfirtók allt.“

Þannig hugsuðu ansi margir, líklega flestir. Á endanum var mörgum gert ókleift að vera áfram „heiðarlegir“. Það er hryllileg meðferð á saklausu fólki. Það er líka mjög vont fyrir þjóðfélag sem vill vera samheldið.

Fjármálastofnanir landsins skirrast margar ekki við svipta fólk heimilum sínum, fólk sem hefur allt sitt líf staðið í skilum, þar til það varð því um megn, af því að lánin stökkbreyttust.  Sú stökkbreyting stafaði af því að lánin eru tryggð með þeim hætti að lánveitandinn tekur enga áhættu, en lántakandinn fær einn yfir sig holskefluna sem hrunið setti af stað.

Þessar fjármálastofnanir eru að eyðileggja það samfélag sem flestir Íslendingar vilja búa í.  Það þarf að stöðva, og þar þarf ríkisstjórnin að sýna að hún beri hag almennings fyrir brjósti.  Hvetjum stjórnina til þess með því að skrifa undir hér.