Karl Th. Birgisson, ritstjóri Eyjunnar, skrifaði bloggpistil í dag. Þar les hann DV lexíuna vegna nýlegra frétta um persónulegan harmleik. Það er rétt hjá Karli að þetta var illa gert, því um var að ræða, að því er virðist, sjúka manneskju, og þótt nafn hennar væri ekki nefnt voru upplýsingarnar sem gefnar voru nægar til þess að auðvelt var, að sögn Karls, að þrengja hringinn niður í tvær manneskjur.
Þetta var sem sagt góð ábending hjá Karli. Hins vegar var stíllinn á þessari lexíu í mörgum atriðum óþarflega hrokafullur, sérstaklega í ljósi þess að Eyjan hefur, undir ritstjórn Karls, birt ýmsar fréttir sem eru jafn vondar. Þetta er ekkert nýtt; Karl skrifar sjaldan bloggpistla, en þeir eru oft löðrandi í hroka og fyrirlitningu á þeim sem um er rætt.
Annað sem gerir þetta ekki síður sláandi er að Eyjan birti fyrir tveim vikum fréttir af nafngreindu fólki (þar sem annar aðilinn er landsþekktur en hinn ekki) þar sem sagt var frá persónulegum harmleik sem kemur almenningi nákvæmlega ekkert við, þ.e.a.s. ekki þannig að eðlilegt sé að birta nöfn viðkomandi. Í vor birti Eyjan líka skráningarnúmer bíls sem komið var með lík konu í á Landspítalann. Nýlega hefur komið fram að banamaðurinn sá er ósakhæfur vegna geðveiki, sem er eitt af því sem Karl segir réttilega að geri áðurnefndan fréttaflutning DV ósiðlegan. Karl hefur reynt að réttlæta fréttaflutning Eyjunnar af þessu tagi, en mér finnst ómögulegt að sjá að hér sé annað en siðlaus æsifréttamennska og tvískinnungur á ferðinni. Útleggingar Karls um það hvað megi og megi ekki birta eru ekki sá stóridómur sem hann virðist halda sjálfur.
Ofan á hroka Karls bætist sem sagt slæm hræsni.
Síðan Karl tók við ritstjórastarfi á Eyjunni er ekki að sjá þar neinar breytingar til hins betra. Hins vegar hefur hlutur slúðurblaðamennsku aukist til muna. Það er ekkert athugavert við slíka blaðamennsku í sjálfri sér, en ég tel að Eyjuna hafi sett niður við þetta, því hún var áður vettvangur áhugaverðara efnis. Það virðist líka vera skoðun margra (fyrrum) lesenda, því samkvæmt tölum Modernus hefur Eyjan fallið úr 8. sæti í það 12. í ritstjórnartíð Karls. Einnig hafa margir bloggarar yfirgefið Eyjuna síðan Karl tók við vegna þess að þeim líkaði ekki við nýja eigendur og ritstjóra.
Karl hefur heldur ekki orðið við tilmælum um að skýra frá hagsmunatengslum „útgefanda“ og eins helsta eiganda Eyjunnar, Björns Inga Hrafnssonar. Það væri þó við hæfi, því ýmsar fréttir hafa birst um brask hans fyrir hrun, og það væri eðlilegt að lesendur Eyjunnar fengju að vita hvaða hagsmunir það eru sem hæstráðandi hennar hefur helst að verja, þegar umfjöllun Eyjunnar um þessi mál er lesin.