Verðtrygging í sjúku fjármálakerfi

Verðtrygging lána á að tryggja að verðmæti sem fengin eru að láni  rýrni ekki þegar þau eru endurgreidd.  Þetta er þó ekki alveg einfalt mál, því ef við mælum verðmæti í því hvað fæst fyrir eina vinnustund hefur það ekki alltaf haldist í hendur við vísitöluna sem ákvarðar verðbætur lána.  Þannig missti fjöldi fólks heimili sín í byrjun níunda áratugarins, þegar lánskjaravísitalan „hvarf út við sjóndeildarhring“ séð frá þeim sem fengu laun samkvæmt annarri vísitölu.  Sama gerðist þegar verðtryggð lán hækkuðu um 40% eða svo eftir hrun, en laun stóðu í stað eða lækkuðu. Það er því rangt að halda fram að það sé einfalt réttlætismál og einfaldur útreikningur þegar sagt er að verðtrygging sé til þess að fólk endurgreiði það sem það fékk lánað.

Enda verður maður að spyrja sig af hverju verðtrygging lána er svo sjaldgæf í heiminum.  Svarið við því er a.m.k. tvíþætt (þótt auðvitað dytti fæstum útlendingum í hug að reyna að svara fyrir að þar skuli ekki farið eins að og á Íslandi):  Annars vegar búa flest lönd sem við berum okkur saman við við slíkan stöðugleika í peningamálum að það er engin sérstök þörf á verðtryggingu.  Og svo þætti flestum utan Íslands líklega óeðlilegt að neytendur bæru alla áhættu við lántöku, en lánveitendur, þ.e.a.s. bankar og aðrar fjármálastofnanir, enga.  Alveg sérstaklega er hætt við að fáum þætti eðlilegt að hagsmunir fjármálastofnana væru gulltryggðir í hamförum af því tagi sem þær hafa sjálfar kallað yfir landið, en einstakir lántakendur píndir til hins ítrasta og margir sviptir heimilum sínum og ævisparnaði.

Í nýlegri frétt kemur fram að af rúmum 500 milljörðum sem afskrifaðir hafa verið frá hruni eru um 96% til fyrirtækja, sem sum eru eða voru í eigu fólks sem enn er milljarðamæringar, og enn makar krókinn.  Aðeins fjögur prósent voru afskriftir vegna einstaklinga.  Samtímis hafa skuldir vegna fasteignalána einstaklinga líklega hækkað um hundrað milljarða eða meira, vegna verðtryggingar.  Ástæða þess að sú stökkbreyting hefur ekki verið leiðrétt er að ætlun fjármálastofnana er að sjúga allt sem hægt er út úr einstaklingum, í skjóli aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar,  Þá skiptir engu máli þótt fjöldi saklauss fólks tapi aleigunni.

Það er auðvitað engin trygging fyrir því að hagstjórnin á Íslandi fari upp af bananalýðveldisstiginu þótt verðtrygging verði bönnuð.  Hins vegar virðist algerlega víst að ekkert muni breytast til hins betra svo lengi sem fjármálastofnanirnar geta velt allri áhættu yfir á almenning.  Því ætti að afnema verðtrygginguna strax.  Það ætti líka að niðurfæra lánin sem stökkbreyttust eftir hrun.  Hvort tveggja má hvetja stjórnvöld til að gera með því að undirrita áskorun Hagsmunasamtaka Heimilanna.