Eftirfarandi hugleiðingar hafa, þótt þær séu ekki nýjar, vissulega sprottið upp nú vegna kaupa Huangs Nubo á Grímsstöðum á Fjöllum. Það ætti að vera eðlilegt, í ljósi þess að maðurinn er fyrrum háttsettur starfsmaður ógnarstjórnarinnar í Kína, að hann efnaðist illskiljanlega á örskömmum tíma og þess að kínversk stjórnvöld hafa hönd í bagga með þessum kaupum, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.
Hitt er mikilvægara, og alvarlegra, að afstaða íslenskra stjórnvalda til Kína er vægast sagt ógeðfelld.
Það er nógu slæmt hvernig forseti Íslands leggur nótt við dag til að efla viðskiptatengslin við Kína, án nokkurra bakþanka um stjórnarfarið í landinu. Og það væri hlálegt, ef það væri ekki svona sorglegt, þegar hann þykist þess umkominn að lýsa Huang Nobu heiðarlegan mann. Reyndar má ætla, miðað við hvaða auðjöfra forsetinn hefur álitið heiðarlega síðustu árin, og götu hverra hann hefur greitt í viðskiptum, að Huang væri lítill greiði gerður með þessu heiðarleikavottorði frá forsetanum, sem gefið hefur út slík vottorð fyrir flesta verstu fjármálaglæpamenn landsins.
Hitt er verra, hvernig forysta Samfylkingarinnar (eða a.m.k. hluti hennar) hefur komið fram í þessu máli. Það er skiljanlegt og eðlilegt að vinur og fyrrum skólabróðir Huangs sé honum hliðhollur, og þvæli um að hér sé um að ræða mjög „græna “ ferðamennsku (öfugt við það sem hingað til hefur verið talið um að fljúga fólki yfir hálfan hnöttinn). Það er auðvitað bara tilviljun að þessi vinur er eiginmaður fyrrum utanríkisráðherra og mágur núverandi utanríkisráðherra. En það skiptir hins vegar máli, því hvar sem er í heiminum, og ekki síst á Íslandi, hafa slík fjölskyldutengsl áhrif á gerðir fólks, og þykir óeðlilegt annað en að draga þau fram í dagsljósið.
Það sem er hins vegar verst við þetta, bæði hvað varðar forystu Samfylkingarinnar og forsetann, er sú afstaða sem þetta fólk, í krafti embætta sinna, og fyrir hönd íslenska ríkisins, sýnir til kínverskra stjórnvalda. Forsetinn hefur lagt sig fram um að efla tengslin við Kína, og segir varla styggðaryrði um stjórnarfarið í landinu. Utanríkisráðherrar Samfylkingarinnar hafa gengið skrefi lengra. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lýsti því yfir árið 2008 að Ísland styddi stefnuna um „Eitt Kína“. Í því felst, í stuttu máli, að Ísland viðurkenni að Kína eigi löglegt tilkall til yfirráða yfir Tævan, sem er nógu slæmt, enda vandséð af hverju Ísland ætti að styðja það að ógnarstjórnin í Kína fái að kúga líka borgara 36 þúsund ferkílómetra eyju, meira en hundrað kílómetra frá meginlandinu, með 23 milljónir íbúa, sem augljóslega vilja fá að ráða sér sjálfir og hafa gert það vandræðalítið í mörg ár.
Hitt dylst fæstum, að með því að lýsa yfir stuðningi við „Eitt Kína“ (sem minnir óþægilega, en eðlilega, á hollustuyfirlýsingar við forystu Þriðja ríkisins), samtímis því sem ekki er annað gert en að lýsa „áhyggjum“ vegna ástandisns í Tíbet, var Ingibjörg að lýsa yfir afskiptaleysi gagnvart því sem þar fer fram, sem og gagnvart allri kúgun annars staðar í Kína. Núverandi utanríkisráðherra, Samfylkingarmaðurinn Össur Skarphéðinsson, hefur ekki dregið þessar eindregnu stuðningsyfirlýsingar við kínversk stjórnvöld tilbaka.
Það er misjafnt hversu strangar skilgreiningar fólk notar á fasisma. Hitt er ljóst, að kúgunaraðferðir Kínastjórnar eru nákvæmlega þær sem beitt er í fasistaríkjum. Kínastjórn hikar ekki við að fangelsa, pynta og myrða þá sem leyfa sér að viðra aðrar skoðanir en þær sem eru stjórnvöldum þóknanlegar, og þetta er gert í stórum stíl. Þetta er það sem Ingibjörg Sólrún, Össur og forysta Samfylkingarinnar, að miklu leyti, veitir siðferðilegan stuðning með yfirlýsingunni um stuðning við „Eitt Kína“. Það er sama fólkið og gagnrýndi, réttilega, gerræðislega ákvörðun fyrri valdhafa um stuðning Íslands við innrásina í Írak.
Asinn á forsetanum og forystu Samfylkingarinnar, þar sem margir eru með peningaglampann í augum, er ógeðfelldur, og ekki annað að sjá en þetta fólk sé búið að gleyma því sem gerðist á Íslandi síðustu árin, þegar þeir voru kallaðir úrtölumenn, eða eitthvað þaðan af verra, sem vildu fara varlega í „uppbyggingunni“.
Hitt er sýnu verra, en trúlega tengt ofangreindum peningahagsmunum, hvernig þetta forystufólk gengst, í æði sínu, undir það siðferðilega ok sem það er að lýsa yfir óbeinum stuðningi við hina hryllilegu kúgunarstjórn í Kína. Það bætir ekki úr skák að þær yfirlýsingar voru gerðar að almenningi forspurðum, þótt þær væru gefnar í nafni hans.