Huang Nubo og bláeygir fjölmiðlar

Íslenskir fjölmiðlar hafa síðustu dagana keppst við að fjalla um Huang Nubo sem er að kaupa Grímsstaði á Fjöllum, land sem nemur 0,3% af öllu Íslandi.  Ekki er laust við að umfjöllunin minni svolítið á það þegar dýrlingurinn Ross Beaty var kynntur í íslenskum fjölmiðlum sem bjargvættur og mannvinur, sem vildi festa fé á Íslandi til langframa, ekki til að græða, heldur hafði hann svo mikinn áhuga á vistvænni orku og langtímaverkefnum á því sviði.  Fæstum fjölmiðlum virtist einu sinni detta í hug að gúgla nafn mannsins, en þeir sem það gerðu sáu á tveim mínútum við hvað þessi maður hafði fengist síðustu árin:  Að braska með ýmiss konar auðlindir víða um heim.  Ekki byggja upp eitt né neitt, heldur braska.

Nú er svipað hljóð í strokknum.  Ross Beaty fékk drottningarviðtal í Kastljósi á sínum tíma.  Huang hefur víst ekki birst sjálfur, en félagi hans Halldór Jóhannsson fékk a.m.k. hirðsveinsviðtal fyrir hönd meistara síns í Sîðdegisútvarpi Rásar 2.  Halldór mátti vart vatni halda yfir mannkostum Huangs, sem er ljóðskáld og náttúruunnandi og óskaplega „þrautseigur“, sem á víst að skýra hvernig hann varð einn ríkasti maður Kína (og heimsins) á tíu árum eftir að hann hætti að vinna fyrir kínversk stjórnvöld, þ.á.m. sem einhvers konar deildarstjóri í Áróðursmálaráðuneytinu, eins og sjá má hér.

Engum íslenskum fjölmiðlum virðist detta í hug að grafast fyrir um fortíð mannsins, annars vegar hvernig hann fór að því að verða svona fokríkur á svo skömmum tíma, hins vegar hversu háttsettur hann var í stjórnsýslunni, og þannig hversu mikla ábyrgð hann ber á þeirri svívirðilegu kúgun sem er daglegt brauð í Kína.

Eins og fyrri daginn eru það fremur bloggarar en fjölmiðlar sem vinna vinnu af þessu tagi.  Hér er ein áhugaverð bloggfærsla um málið.  Þar er því m.a. haldið fram að Huang þessi sé maðurinn sem Hjörleifur Sveinbjörnsson rúntaði með um landið fyrir fáum árum, á  bíl sem Utanríkisráðuneytið lánaði, og einhverjum þótti vera spilling.  Ég hef ekki sannreynt það, svo ég sel það á innkaupsverði, en vona að einhverjir fjölmiðlar gangi úr skugga um sannleiksgildi þessa.

Landsbankanum er uppálagt að athuga fortíð þeirra sem hann hyggur á stórviðskipti við, til að ganga úr skugga um að þar sé á ferð fólk sem ekki á vafasama fortíð.  Er ekki full ástæða til að gera sams konar úttekt á Huang Nubo, sem efnaðist á svo undraverðum hraða að flestir íslenskir viðskiptaglæpamenn síðustu ára blikna við hliðina á honum?  Og, ef það er ástæða til að athuga viðskiptafortíð fólks áður en gerðir eru samningar við það, er nokkuð minni ástæða til að athuga hvort það á að baki störf við stórfelld mannréttindabrot?

Deildu færslunni