Hér að neðan er útdráttur úr frétt í DV. Fyrir þrjátíu árum varð til hugtakið „löglegt en siðlaust“. Það var Vilmundur Gylfason sem sagði þessi fleygu orð um þá spillingu sem hafði þá þegar gegnsýrt íslenska stjórnsýslu í áratugi. Ætla hefði mátt að þessi afhjúpun á eðli íslenska valdakerfisins yrði til að gera spillingaröflunum erfiðara fyrir, og þá varkárari sem gert hafa út á hana. Raunin hefur orðið allt önnur. Kjötkatlamennirnir hafa eflst að allri dáð, og eru nú sannkallaðir spillingarsnillingar.
Páll Guðfinnur Harðarson, eigandi Ökugerðis Íslands, í gegnum félögin Nesbyggð ehf. og Nesbyggð eignarhaldsfélag, er með að minnsta kosti átta gjaldþrot á bakinu.
Byggðastofnun hefur gefið Ökugerði Íslands lánsloforð að andvirði 200 milljóna króna, samkvæmt heimildum DV, en það er hámarkslán frá stofnuninni.
Samkvæmt eigin lánareglum ber Byggðastofnun að skoða viðskiptasögu fyrirtækja og eigenda þeirra. Heimildir DV herma að lánsloforðið til Ökugerðis Íslands standi þrátt fyrir fjölmörg gjaldþrot fyrirtækja í eigu sama aðila.
Sturla Böðvarsson, fyrrverandi samgönguráðherra, er stjórnarformaður Ökugerðis Íslands og einn af tveimur stofnendum fyrirtæksins.
Forstöðumaður rekstrarsvið Byggðastofnunar segist ekki geta tjáð sig um einstök mál, en tekur fram að ekkert óeðlilegt sé við náin tengsl Sturlu við fyrirtæki sem hefur fengið lánsloforð frá stofnuninni.
Sem samgönguráðherra barðist Sturla fyrir því að sett yrðu lög sem skylduðu ökunema til þess að læra í ökugerði. Árið 2010 tóku slík lög gildi.
Auk þess að hafa verið með í stofnun Ökugerðis Íslands var Sturla Böðvarsson fyrsti framkvæmdastjóri félagsins og eini prókúruhafinn þegar það var stofnað í júlí í fyrra.
Sturla var skipaður í stjórn Byggðastofnunar rétt rúmum mánuði áður en Ökugerði Íslands var stofnað og situr ennþá í stjórn.
Þá hefur Sturla nýlega setið í nefnd sem skipuð var af iðnaðarráðuneytinu og var falið að endurskoða lánastarfsemi stofnunarinnar.