Stjórnlagaráð, persónukjör og flokksræði

Í Stjórnlagaráði er nú tekist á um hvaða ákvæði eigi að vera í stjórnarskrá um kosningafyrirkomulag.  Líklega er óhætt að segja að sú krafa eigi mikinn hljómgrunn meðal almennings að opnað verði fyrir persónukjör, enda margir búnir að fá nóg af flokksræðinu sem hefur tröllriðið valdakerfinu í áratugi, og á eflaust sinn þátt í að Alþingi hefur sjálft rúið sig öllu trausti.

Gegn þessari kröfu standa auðvitað þeir stjórnmálaflokkar sem hér hafa ráðið lögum og lofum, og sem ekki mega til þess hugsa að það valdakerfi riðlist sem þeir hafa gert út á.

Gegn þessum hugmyndum hefur líka verið teflt fram staðhæfingum um að flokkar, og flokkskjör, séu nauðsynlegir til að kjósendur viti hvers konar meginstefnu þeir séu að kjósa og það sé ógerlegt í hreinu persónukjöri, eins og í kosningunni til Stjórnlagaþings.  Við þetta er margt að athuga.

  1. Í fyrsta lagi er ekkert sem kemur í veg fyrir að flokkar dreifi listum yfir þá frambjóðendur sem þeir vilja koma á þing.  Slíkan lista gæti kjósandi sem vill bara kjósa frambjóðendur eins flokks tekið með sér á kjörstað.
  2. Í öðru lagi hefur sú málamiðlunarhugmynd verið sett fram að frambjóðandi mætti tilgreina stjórnmálasamtök sem hann tilheyrði á kjörseðlinum, þannig að þeir flokkshollu þyrftu ekki einu sinni að vera með tossalista með sér.
  3. Í þriðja lagi er engin ástæða til að ætla að hinn almenni kjósandi sé svo illa gefinn að hann sé ófær um að raða saman á lista fólki með skoðanir sem eru samhljóma hans í grundvallaratriðum.
  4. í fjórða lagi er persónukjör, þar sem kjósendur mega kjósa frambjóðendur af mörgum listum, notað víða í Þýskalandi (og e.t.v. víðar) og engar fréttir hafa borist þaðan um upplausnarástand eða einu sinni að hin fræga þýska reglusemi hafi riðlast fyrir vikið.
  5. Í fimmta lagi er vafasamt að halda fram að flokkar á Íslandi bjóði upp á skýra grundvallarstefnu, þannig að kjósendur viti hvað þeir kjósa yfir sig.  Þetta er ekki bara vegna þeirra málamiðlana sem óhjákvæmilegar eru við myndun samsteypustjórna, heldur líka af því að íslenskir stjórnmálaflokkar hafa yfirleitt  enga stefnu.  Að þeir eigi sér stefnuskrár, og jafnvel yfirlýsingar um stefnu í tilteknum málum er ekki nóg; stefna án aðgerðaáætlunar, að ekki sé nú talað um að fylgja stefnunni, er óskhyggja, ekki stefna.

Um síðastnefnda atriðið mætti nefna mýmörg dæmi.  Hér eru tvö:

  • Það var stefna bæði VG og Samfylkingar að endurheimta kvótann og koma á kerfi þar sem kvótinn væri ótvírætt eign þjóðarinnar, og hún nyti arðsins af auðlindinni.  Nú hafa þessir flokkar setið einir í ríkisstjórn í tvö og hálft ár, en ekkert bólar á niðurstöðu í þessa veru.  Þvert á móti lítur út fyrir að málið verði svæft, og ef til vill er þegar búið að byrla því ólyfjan, af manni sem einn virðist fara með völdin í því, sjávarútvegsráðherra.
  • Menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) ákvað 2007 að auka bein framlög ríkisins til rannsókna við HÍ um 3 milljarða á ári (þreföldun á framlaginu).  Aðeins hluti af þessu kom til framkvæmda, vegna hrunsins, en þótt telja megi HÍ vel að þessu kominn fer ekki á milli mála að  þetta fór þvert á yfirlýsta stefnu (Landsfundar) flokksins, um að efla samkeppnissjóði í stað þess að veita rannsóknafé beint til stofnana.  Ráðherra kom af fjöllum þegar henni var bent á stefnu flokksins, og það virðist fremur  regla en undantekning að íslenskir ráðherrar fari sínu fram, hvað sem líður yfirlýstri stefnu.

Af ofangreindri upptalningu ætti að vera ljóst að andstaðan við persónukjör á sér ekki rætur í rökréttum ótta við einhvers konar upplausnarástand.  Hún er sprottin af ótta flokkanna við að missa kverkatakið sem þeir hafa á völdunum í landinu.

Því hefur verið haldið fram að rannsóknir sýni að persónukjör sé ekki til þess fallið að ná fram þeim markmiðum sem flestir telji rétt að stefna að í lýðræðisþjóðfélagi.  Þetta er ef til vill ekki einfalt mál, en hér verður ekki farið nánar út í þá sálma (sjá þó PS hér að neðan).  Hins vegar er óhætt að segja að afdráttarlausar staðhæfingar í þessa veru séu rangar.  Það er vegna þess að stjórnmálafræðingar eru alls ekki á einu máli um þetta, og því er ljóst að hér er ekki um að ræða áreiðanlega þekkingu af því tagi sem hægt er að kalla traust fræði.

Í Stjórnlagaráði er nú tekist á um eitthvert mikilvægasta atriði stjórnarskrárinnar, kosningafyrirkomulagið.  Það er ekki sjálfgefið að hreint persónukjör leiði til betri stjórnarhátta, en svo virðist sem starf Stjórnlagaráðs, sem þannig var kjörið, hafi gengið nokkuð vel, öfugt við þann forarpytt sem Alþingi hefst við í.  Það er slæmt ef ráðið gefst upp gegn þeirri sameiginlegu flokksmaskínu sem ekki má til þess hugsa að missa völdin yfir því spillingarkerfi sem hún hefur komið  upp.  Þá er borin von að við fáum að sjá umtalsvert betri stjórnarhætti en þá sem ríkt hafa hér, og sem almenningi ætti varla að vera eftirsjá í.

PS.  Ég hef rætt örlítið um kosningakerfi í tölvupósti við einn stjórnmálafræðing sem hefur ákveðnar skoðanir á málunum, og sem benti á ýmis gögn máli sínu til stuðnings (þótt ég sé eftir sem áður ósannfærður um áreiðanleika staðhæfinga hans).  Gott væri að efna til opinberrar umræðu um þessi mál, með þátttöku þeirra stjórnmálafræðinga sem telja sig búa yfir mikilvægri þekkingu á þessu sviði.  Þar ættu þeir að tjá sig í skýru máli, svo almenningur geti myndað sér skoðun á afstöðu þeirra.