Vill Stjórnlagaráð flokksræðið áfram?

Á vef Stjórnlagaráðs er sagt frá nýsamþykktum tillögum þess um löggjafarmál og fleira.  Þar segir meðal annars:

Í tillögunum kemur fram að við stjórnarmyndun muni Alþingi nú kjósa forsætisráðherra, en forseti Íslands verði eins konar verkstjóri í viðræðum milli þingflokka, líkt og verið hefur.

Í tillögu ráðsins stendur nákvæmlega þetta:

Eftir að hafa ráðfært sig við þingflokka og þingmenn gerir forseti Íslands tillögu til þingsins um forsætisráðherra.

Þetta er reyndar ekki það eina sem komið hefur frá Stjórnlagaráði sem bendir til að meðlimir þess líti flestir á það sem sjálfsagt mál að við höfum áfram svipað flokkakerfi og við höfum haft.

Það kann að virðast sjálfsagt að hér starfi áfram þingflokkar.  En ef til vill ættum við að staldra við og spyrja hvort ástæða sé til að gera ráð fyrir því í stjórnarskrá.  Eftir því sem ég best veit eru engir sérstakir flokkar starfandi innan stjórnlagaráðs, bara einstaklingar.  Mér sýnist líka að starf stjórnlagaráðs hafi gengið ágætlega, þar hafi farið fram málefnalegar umræður, og niðurstaða fengist úr þeim.  Það þýðir auðvitað ekki að allir séu ánægðir með niðurstöðuna (ég er, eins og fleiri, óánægður með margt), en flest sættum við okkur við að lenda í minnihluta þegar starfað er með gagnsæjum hætti, án baktjaldamakks og hrossakaupa.  Að þessu leyti er ekki annað að sjá en að stjórnlagaráð hafi unnið með þeim hætti  sem Alþingi hefur ekki tekist í áratugi.

Alþingi hefur lengi verið vettvangur fyrir leðjuslag.  Það eigum við að þakka stjórnmálaflokkum sem eru allir að mestu leyti ófærir um að takast á við verkefnin sem þingið á að leysa.  Auk þeirrar ógeðfelldu hagsmunagæslu fyrir ýmis valdaöfl sem ekki ættu að hafa þann aðgang að löggjafarvaldinu sem raun ber vitni, hefur flokkunum sem drottnað hafa yfir Alþingi á sextíu og fimm árum ekki tekist að vinna tíunda hlutann af því verki sem Stjórnlagaráð hefur nú gert á fjórum mánuðum.

Það er ekki náttúrulögmál að stjórnmálaflokkar ráði lögum og lofum á Alþingi.  Það er ekki náttúrulögmál að við þurfum að sætta okkur við þær hörmungar fúsks og spillingar sem stjórnmálaflokkar landsins hafa fært okkur.  Íhaldssemi er skiljanleg pólitísk grundvallarafstaða, þegar hún snýst um tregðu til að breyta hlutum sem virka sæmilega.  Að vera íhaldssamur á núverandi flokksræði á Íslandi er illskiljanlegt, nema hjá þeim sem hafa makað krókinn á því, á kostnað annarra og á kostnað heilbrigðra stjórnarhátta.

Væri ekki nær að Stjórnlagaráð reyndi að endurskapa Alþingi í sinni mynd, fremur en að stuðla að framhaldslífi þessa gerspillta flokkakerfis?

Deildu færslunni