Samtrygging, einelti, Ögmundur og Sigmundur

Það er ekki geðslegt að sjá Ögmund Jónasson taka til varna fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson hér, og ömurlegt að heyra íslenskt valdafólk tala eina ferðina enn um réttmætar spurningar fjölmiðla sem einelti.  Ögmundur gengur reyndar skrefi lengra, og líkir fjölmiðlum við morðingja, sennilega af því honum finnst einelti ekki nógu krassandi lýsing á þeim „ofsóknum“ sem hann og félagar hans verða fyrir.

Hér er samtryggingin, svikamylla íslensku stjórnmálastéttarinnar, ljóslifandi komin.  (Skemmst er að minnast hvernig Katrín Jakobsdóttir og Steingrímur Sigfússon gerðu Baldur Guðlaugsson að ráðuneytisstjóra, Katrín lagði blessun sína yfir áframhaldandi starf Halldórs Ásgrímssonar hjá Norrænu ráðherranefndinni og Össur Skarphéðinsson skrifaði mærðarlegt meðmælabréf handa Árna Mathiesen svo hann gæti fengið feitt djobb hjá Sameinuðu þjóðunum.)

Ögmundi rennur blóðið til skyldunnar, því ekkert er heilagra honum (eins og flestum íslenskum stjórnmálamönnum) en vernd þess valdaklíkukerfis sem hann á allt sitt undir, auk þess sem hann hefur sjálfur nýlega neitað að svara spurningum um afstöðu sína í mikilvægu máli (þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave).  Í því máli reiddist hann líka fjölmiðlum fyrir þann dónaskap að leyfa sér að spyrja um afstöðu hans, og vék sér undan að svara.

Allir sem fylgst hafa með fjölmiðlum í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við (og köllum lýðræðisríki) vita að þar væri Sigmundur nú í miklum vanda, sem flestir væru sammála um að væri sjálfskaparvíti.  Hann hefur talað um menntun sína við fjölmiðla, og sagt misvísandi hluti um hana.  Þetta er smámál í sjálfu sér, enda skiptir skólaganga Sigmundar litlu máli fyrir stöðu hans sem oddvita stjórnmálaflokks.  Stóra málið er hins vegar að Sigmundur hefur neitað að skýra þetta með viðhlítandi hætti, svo enn eru mörg spurningarmerki á lofti.

Það er ekki bara í Bandaríkjunum sem stjórnmálamenn komast ekki upp með að segja ósatt, eða einu sinni að drepa sannleikanum á dreif með loðnum svörum, þegar ljóst er að til eru skýr svör og einfaldur sannleikur í málinu.  Þetta viðhorf er orðið ríkjandi í flestum löndum með óhefta fjölmiðlun og gildir um hvaðeina sem stjórnmálamenn kjósa að tjá sig um, jafnvel þegar um er að ræða hluti sem koma starfi þeirra lítið við.

Ástæðan er einföld:  Skólaganga gerir fólk ekki endilega að betri stjórnmálamönnum.  En sannsögli gerir það.  Á því prófi hafa bæði Sigmundur og Ögmundur fallið, þótt með óbeinum hætti sé.

Deildu færslunni