Leyndarhyggja sjálfhverfra stjórnmálamanna

Í frumvarpi að nýjum upplýsingalögum, sem haldið er fram að muni auka aðgengi almennings að upplýsingum í fórum hins opinbera, er meðal annars að finna ákvæði um að sumum opinberum upplýsingum megi halda leyndum í 110 ár.  Vel má vera að hægt sé, með frjóu ímyndunarafl, að láta sér detta í hug opinberar upplýsingar sem slíkt ætti að gilda um.  Hitt er verra, að þetta ákvæði, sem og allur andi laganna, afhjúpar hugsunarhátt sem ætti að vera farinn á öskuhauga sögunnar, ekki síst í ljósi þeirra hörmunga sem hafa dunið yfir stjórnsýslu landsins síðustu árin.

Þótt ekki sé allt til fyrirmyndar í Svíþjóð má þó hrósa sænskum fyrir upplýsingalögin þar í landi.  Þau eru ítarleg og fest í stjórnarskrá.  Grundvallarregla þeirra, og hugsunin á bak við flest sem í þeim býr, er að allar upplýsingar sem opinberir aðilar búa yfir, skuli afhentar hverjum sem er, tafar- og undanbragðalaust.  Tafarlaust þýðir hér ekki að stjórnvöld geti tekið sér tíma til að hugsa málið, enda ekki þeirra að halda slíkum upplýsingum frá almenningi.  Heldur ber að afhenda samstundis upplýsingar þeim sem mætir á opinbera skrifstofu og biður um gögn, og gjarnan er miðað við einn dag ef beiðni berst í pósti.

Hugsunin á bak við sænsku upplýsingalögin er einföld:  Stjórnvöld eiga að vinna fyrir hagsmuni almennings og enga aðra, og mega því ekki láta hagsmuni þeirra sem gegna opinberum stöðum hverju sinni hafa nein áhrif á slíkar ákvarðanir.  Stjórnvöld eiga að þjóna almenningi.  Einfalt, ekki satt?

Á Íslandi er hins vegar enn við lýði viðhorf sem á frekar heima í lénsveldistímanum en nútíma lýðræðisríki:  Upplýsingalög miða ekki að því að takmarka völd opinberra aðila til að leyna upplýsingum sem þeir búa yfir. Heldur að hinu, að gera yfirvöldum kleift að skammta úr hnefa þær upplýsingar sem þeim þykir henta.  Íslenska stjórnmálastéttin lítur enn á ríkisvaldið sem tæki til að viðhalda eigin völdum og telur að  upplýsingalög eigi því að vernda hagsmuni hennar, en ekki almennings.

Hvað var aftur sagt um gagnsæi í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis?