Fyrirsögnin á þessari frétt er röng. Gunnar Birgisson ER holdgervingur spillingar og valdhroka í augum mjög margra. En, það er refsivert að segja það, samkvæmt nýlegum dómi.
Ég efast reyndar um að Hæstiréttur muni staðfesta þetta, hvað þá Mannréttindadómstóll Evrópu, ef þetta fer svo langt. Ekki bara af því að fólk í valdastöðum á ekki að njóta verndar réttarkerfisins gagnvart svona ummælum — það fer í bága við allar sæmilegar hugmyndir um skoðana- og tjáningarfrelsi — heldur líka vegna þess að það er fráleit hugmynd að dómstólar geti tekið að sér að úrskurða, út frá gögnum, hvaða valdamanneskjur séu holdgervingar spillingar og valdhroka. Ætti þessi dómur að standa hlyti það að leiða til þess að aldrei mætti segja neina valdamanneskju holdgerving spillingar og valdhroka. Það virðist óhugsandi afstaða í lýðræðisríki.