Priyanka, Jussanam og Ögmundur

Það er gleðilegt að sjá viðbrögðin í fjölmiðlum (og á Facebook) við ákallinu um stuðning til handa Priyanka Thapa, ungri nepalskri stúlku sem búið hefur á Íslandi síðastliðið ár, en á yfir höfði sér brottvísun, samkvæmt ákvörðun Útlendngastofnunar, og síðan að verða gift manni gegn vilja sínum í heimalandinu. Þessi miklu og almennu viðbrögð gera að verkum að maður skammast sín aðeins minna fyrir að vera Íslendingur, þótt hryllilegt sé að horfa upp á mannúðarleysið sem einkennir ákvarðanir þessarar stofnunar.

Þetta er því miður langt frá því að vera einsdæmi, og reyndar eru þeir fjölmargir sem vísað hefur verið úr landi síðustu árin, á forsendum sem eru í besta falli grimmdarlegar, en í sumum tilfellum hreint brot á þeim alþjóðasáttmálum sem Ísland er þó aðili að. Eiit slíkt mál var brottvísun ungs írasks manns til Grikklands (þaðan sem hann kom til Íslands), Sú ákvörðun var á endanum staðfest af þáverandi dómsmálaráðherra, Rögnu Árnadóttur, sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum fékk á sig geislabaug í starfi, þrátt fyrir ógeðfelldar ákvarðanir af þessu tagi. Mannréttindadómstóllinn í Strasbourg hefur úrskurðað að það brjóti á rétti hælisleitenda að senda þá aftur til Grikklands, vegna illrar meðferðar á þeim þar.

Annað mál sem verið hefur í fréttum af og til síðasta árið er mál Jussanam Dejah frá Brasílíu. Hún var svipt landvistar- og atvinnuleyfi í maí í fyrra, af því hún skildi við eiginmann sinn að borði og sæng, þótt lögskilnaður hafi enn ekki orðið. Þar með missti hún starf sitt á leikskóla, þar sem allt bendir til að hún hafi staðið sig afar vel. Þetta er smánarleg framkoma við konu sem hefur það eitt til saka unnið að vilja skilja við íslenskan eiginmann.

Það er eitthvað mikið að á Útlendingastofnun sem sífellt brýtur gegn siðferðisvitund stórs hluta landsmanna. Það er líka mikið að í Innanríkisráðuneyti Ögmundar Jónassonar, sem tók við af Rögnu Árnadóttur, að hafa ekkert gert í þessum málum þau tvö ár sem ríkisstjórnin hefur setið, því mál af þessu tagi hafa sífellt verið í fréttum, í mörg ár. Ráðherra á auðvitað helst ekki að (þurfa að) skipta sér beinlínis af málum af þessu tagi, nema þegar þeim er áfrýjað til hans, sem gerist reyndar. Hins vegar er það ófyrirgefanlegt af ríkisstjórninni, og þá sérstaklega ráðherra þessara mála, að horfa aðgerðalaus á þær ljótu ákvarðanir sem þessi stofnun tekur æ ofan í æ.

Deildu færslunni