Pólitísk réttarhöld — skömm Alþingis

Á morgun hefst aðalmeðferð í Nímenningamálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þetta eru einhver umfangsmestu, og alvarlegustu, pólitísku réttarhöld á Íslandi í áratugi, og þau verða lengi í minnum höfð sem svívirðileg árás á tjáningarfrelsið, og sem heiftarleg viðbrögð óttasleginna valdhafa sem vita upp á sig skömmina, en geta ekki brugðist við með öðrum hætti en valdbeitingu.

Þáttur Alþingis í málinu er stór, mun stærri en forsvarsmenn þess vilja vera láta, og þeim mun verri sem Alþingi ætti að vera í fararbroddi við að verja lýðréttindi, en ekki að ráðast gegn fólki sem neytir þeirra.

Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, hefur ítrekað sagt (og látið skrifstofustjóra Alþingis segja fyrir sig) að hún geti ekkert aðhafst í málinu, það sé í höndum dómstóla og Alþingi megi ekki grípa inn í það. Staðreyndin er að hún hefur gefið yfirlýsingar um málið, þar sem hún hefur þar að auki farið með rangt mál (sjá póst hennar til Jóns Ólafssonar, sem birtist hér). Það er nógu slæmt, en sýnu verra að þykjast nú ekki geta tjáð sig um málið, þegar hún ætti að leiðrétta rangfærslurnar, og biðja afsökunar á að hafa haft saklaust fólk fyrir rangri sök, enda er það gífurlega alvarlegt mál þegar forseti þingsins misbeitir stöðu sinni með þessum hætti gegn almennum borgurum. Hér er góð grein eftir Ólaf Arnarson þar sem fram kemur að hún fer með rangt mál (sem hún hefur ekki leiðrétt) þegar hún segir í bréfi sínu til Jóns Ólafssonar „hópur fólks […] slasar starfsfólk þingsins.
Atburðir þessir koma greinilega fram á upptöku í öryggismyndavél.“

En skömm Alþingis í málinu er ekki einskorðuð við þá staðreynd að forseti þess hefur farið með staðlausa stafi um alvarlegt mál. Settur saksóknari í málinu, Lára V. Júlíusdóttir, er innanbúðarmaður í Samfylkingunni. Hún var varaþingmaður fyrir Alþýðuflokkinn, fyrirrennara Samfylkingarinnar, og sat á þingi sem slíkur nokkrum sinnum á árunum 1987-90. Hún var líka aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi félagsmálaráðherra, 1987-88. Hún er nú formaður bankaráðs Seðlabankans, kjörin af Alþingi, auðvitað fyrir tilstilli Samfylkingarinnar. Það er ljóst að hún er náinn kunningi ýmissa forystumanna Samfylkingarinnar á þingi, og það eitt hefði átt að nægja til að hún tæki ekki að sér mál af þessu tagi, þar sem Alþingi er annar málsaðili, og forseti Alþingis einn af þessum forystumönnum.

Það styrkir ekki heldur stöðu Láru sem saksóknara í þessu máli að hún sat í stjórn Stúdentaráðs þegar formaður þess, Össur Skarphéðinsson, las yfir þingheimi af þingpöllum, varinn af félögum sínum svo þingverðir gætu ekki stöðvað hann. Í samtali við fréttamann RÚV í fyrra sagðist Lára ekki muna hvort hún hefði verið á pöllunum í umrætt sinn. Þótt sá viðburður hafi ekki verið nógu merkilegur til að festast í minni hennar vill hún nú láta dæma níu manns til langrar fangelsisvistar fyrir svipaðar „sakir“.

Skrifstofustjóri Alþingis hefur heldur ekki hreinan skjöld í málinu. Það var hann sem nefndi 100. grein hegningarlaga í bréfi sínu til lögreglunnar, greinina sem Nímenningarnir eru ákærðir fyrir að brjóta, og sem fjallar um valdaránstilraunir. Skrifstofustjórinn, Helgi Bernódusson, var „ekki lítið undrandi“ þegar hann las þessa grein í Fréttablaðinu, og krafðist þess að ég birti leiðréttingu á staðhæfingu minni þar (auk afsökunarbeiðni sem honum fannst ég skulda sér). Að dæma af tölvupóstum hans og Láru, sem eru birtir hér, er ekki annað að sjá en að einmitt hafi verið um að ræða það samráð sem hann þvertekur fyrir, og sem þau neituðu bæði að hefði átt sér stað. Enda vildi hvorugt ræða við fréttamenn um málið þegar tölvupóstarnir höfðu verið birtir, og mætti þó vænta þess að Helgi hefði tekið slíku tækifæri fegins hendi til að útskýra í hverju meintar rangfærslur væru fólgnar.

Ásta hringdi líka í mig daginn sem fyrsta grein mín um Nímenningamálið birtist í Fréttablaðinu. Henni var mikið niðri fyrir, og vildi leiðrétta þann „misskilning“ að hún bæri einhverja ábyrgð á málinu, því hún hefði ekki verið orðin þingforseti þegar málið kom upp. Ég var of auðtrúa, og fékk birta athugasemd í blaðinu skömmu síðar þar sem ég sagði að e.t.v. hefði ég verið of harðorður þegar ég lagði til að Ásta yrði sett af sem þingforseti. Það var greinilega misskilningur.

Framkoma Ástu og Láru í þessu máli er sorglegt dæmi um verstu hliðarnar á því íslenska valdakerfi fúsks og kunningjaspillingar sem lék stórt hlutverk í hruninu. Þessir handhafar ríkisvaldsins gera það sem þeim sýnist, nota valdið blygðunarlaust til að berja á þeim sem voga sér að mótmæla spillingunni, og treysta á meðvirkni samherja sinna.

Því endurtek ég áskorun mína: Ástu R. Jóhannesdóttur hafa orðið á svo alvarleg afglöp í starfi að hún ætti að segja af sér sem forseti Alþingis. Geri hún það ekki ætti þingið að setja hana af. Alveg sérstaklega ætti þingflokkur Samfylkingarinnar að beita sér fyrir því, þar sem hann ber ábyrgð á stöðu hennar sem þingforseta.

PS. Skylt er að geta þess að níu alþingismenn fluttu þingsályktunartillögu þar sem sagt er „ekki eðlilegt að líta þannig á atvikin í Alþingishúsinu 8. desember 2008 að þar hafi fólk ráðist á Alþingi svo að því eða sjálfræði þess hafi verið hætta búin svo sem áskilið er í 100. gr. almennra hegningarlaga.“ Fyrsti flutningsmaður var Mörður Árnason, en hann hefur a.m.k. tvívegis bloggað um málið, hér og hér.

Deildu færslunni