Ungdómurinn nú til dags

Lazy_man_2704346b

Allt frá tímum Sókratesar hefur ungdómurinn verið uppivöðslusamur og áhrifagjarn, hrokafullur, kærulaus, latur, illa upplýstur, eltandi hverja tískusveiflu eins og hvolpur skottið á sér, óalandi og óferjandi, gott ef ekki óverjandi.

Uppreisnargirni æskunnar gegn gömlum gildum hefur jafnan verið álitin einna stærstur ljóður á ráði hennar en nú ber nýrra við. Í dag snúa áhyggjur öldunganna helst að því hve íhaldssamur ungdómurinn sé.

Í gær loguðu netheimar af vandlætingu yfir skólaballsauglýsingu. Stúlka krýpur fyrir framan pilt og áhorfandinn ályktar að hún sé að veita honum munngælur. Þetta þykir bera vott um óskaplega kvenfyrirlitningu og af umræðunni helst að sjá að þeir hneyksluðu greini engan eðlismun á þessu og því „gonzoklámi“ sem klámpostulinn Gail Dines heldur fram að sé ríkjandi.

Heimsósómarausið snýr þó ekki aðeins að því hversu forhertir syndaselir standi á bak við þessa auglýsingu; einn ágætur bloggari sér það helst athugavert að skólaklám sé svo gamaldags og hallærislegt að það nái ekki að ögra neinum.  Nema náttúrulega þessum 30.000 sem supu hveljur í netheimum.

Ég mátti hreinlega til að skrifa smávegis heimsósómaraus handa Gamla sorrý Grána og öðrum sem hafa áhyggjur af því hvert æska vors lands stefni. Þegar allt kemur til alls munu þessir klámdrengir taka við af þeim andans mönnum sem nú sitja á Alþingi, í stjórn Orkuveitunnar og slitastjórnum bankanna.

Ungdómurinn okkar
er ósvífinn, frekur
alinn við dekur
agalaus og sljór.

Hann er athyglisjúkur
en oftast sem kúkur
til afreka mjúkur og hyskinn.
Hann er  brekinn og villtur
og brjálaður, trylltur
og  baldinn, hve spillt er vor æska.

Ungdómurinn okkar
er andlega dauður
ástríðusnauður
engum ögra kann.

Hann er netheimum náinn
og negldur við skjáinn
og duglaus og dáinn úr æðum.
Hann er kjaftfor að vonum
og klæmist á konum
ó hvað verður honum til ráða?

Æskublóminn okkar
af fordómafullum
fávísum bullum
samanstendur enn.

Hann er gagnslaus og geldur
í hugsun, og heldur
á lofti svo gamaldags gildum.
Hann er kapítölsk veila
með kynlíf á heila
og kann ekki að deila með tveimur.

Share to Facebook