Öldungurinn

Myndin er eftir Emily Balivet

Einn morguninn meðan þú sefur
gengur grænklæddur drengur á fund Öldungsins.

Hann hefur sáð frjókornum
numið fræði Töframannsins
og hlýtt á Véfréttina við Urðarbrunn.
Þótt hann sitji ekki langtímum við fætur móður sinnar
á hann þar skjól
en gengur nú erinda Keisarans.
Vegvísi hefur hann víst
og Keisarans blessun
en er það Satýr sæmandi
að ræna arnarhreiður?

Öldungurinn skríður undan feldinum
og lítur hann djúpbláum augum.
Hvað óttastu mest? spyr hann drenginn.

Óttast hann hefnd arnarins?
Hann hefur safnað í ker
nokkrum ómstríðum kvæðum.
Mun ekki örninn tæma kerið
ef hann reiðist?
Og hvað með myndina sem speglast
í brunni Urðar?
Hvernig kemst hann þangað
ef glysgjörn örn rænir hann kristalsklukkunum
sem hofgyðjan hengdi á horn hans?
Getur hann snúið aftur í lund Keisaraynjunnar
ef hann rænir arnarmóður eggi sínu?
Og hver verður refsingin
ef hann bregst skyldu sinni við Keisarann?

Þegar hjartað segir eitt og höfuðið annað
er ráðlegt að leita til Öldungsins.
Og Vegfarandinn sem stendur álengdar
sér Öldunginn ljá honum leiðarhnoða;
aðeins eitt heilræði:
– Svo skal böl bæta að bíða aðeins.

Share to Facebook