Fíflið

Myndin er eftir Emily Balivet

Og einn daginn þegar þú vaknar
situr grænklæddur piltur á rúmstokknum.
Dálitlir hornhnýflar vekja grun um hvolpavit
en skegglaus er hann með öllu.

Vaknaðu! segir hann, vaknaðu!
og sáldrar frjókornum yfir svefndrungann.
Ég er með fullan poka af frækornum sem þarf að dreifa.

Þú snýrð þér á hina hliðina
og hnerrar.
Segist hafa ofnæmi fyrir vorinu.
Farðu út og stangastu á við unghafra
og leyfðu þreyttum að sofa segir þú.

Og drengurinn tekur pokann sinn
og brokkar syngjandi út.
Þú heyrir klauftak hans dynja á steinbrúnni yfir lækinn.

Eitt andartak veltirðu því fyrir þér
hvort tröll muni taka hann
og eins þótt hann komist yfir, bíða hans hundrað hættur.
Þeir kunna vart fótum sínum forráð,
eiga það til að æða fyrir björg
þessir kiðlingar sem sífellt horfa til sólar.

Hefði hann bara notað þessa nýsprottnu hnúfa
til að stugga við þér
hefðir þú eflaust fylgt honum, hugsar þú.
Bara svona til að gæta hans.

Svo sofnarðu aftur
þrátt fyrir frjókorn á koddanum.
Enda var það ekki ofnæmi sem raskaði ró þinni
og vafalaust er einhver vegfarandi þarna úti.
Einhver vegfarandi
sem hefur tíma til að taka í taumana
og kannski dreifa nokkrum fræjum,
svona í framhjáhlaupi.

En Vegfarandinn
sem sér drenginn standa á fjallsgnípu
og horfa til sólar
hugsar það sama:
Einhver annar mun sjá um hann.
Áreiðanlega.

Share to Facebook