Drekahreiðrið

Það er drekahreiður á svölunum mínum. Auðvitað eru það ekki alvöru drekar. Ég þyrfti að búa í risastórri höll til þess að alvöru dreki kæmist þar fyrir og ég bý bara í venjulegri blokk í Kópavoginum. Mínir drekar eru ofursmáir, bara á stærð við ketti. Samt eru þeir drekar. Það er vond fýla af þeim og þeir spúa eldi ef þeir verða hræddir eða reiðir. Þessvegna verðum við að forðast öll hvell hljóð og snöggar hreyfingar og geyma handslökkvitækið við svaladyrnar. Þeir hafa tvisvar sinnum kveikt í svalahandriðinu og ég reyni ekki einu sinni að hengja þvott út á snúrur. Það má heldur í rauninni ekki hengja út þvott og svo myndi lyktin af þeim setjast í hann og ekki vil ég hafa dekaþef af hreinu rúmfötunum mínum.

Ég veit ekki hvaðan þeir eru upprunnir. Karlinn er rauðleitur, dálítið stærri en kerlingin og með glæsilega gadda á halanum. Kerlingin er bara grá. Þeir komu fljúgandi einn daginn, tveir smádrekar, með allskyns drasl í klónum. Bút úr trosnuðu fiskineti, illa þefjandi ullarlagð og líka hart rusl á borð við álpappír og rafmagnsvíra. Líklega eru þeir glysgjarnir og þeir hafa harða skel svo ekki meiða þeir sig þótt þeir liggi á hörðu. Þeir gerðu sér hreiður á svölunum og nokkrum dögum síðar var egg í hreiðrinu.

Það er vel hægt að lifa með drekum. Maður verður bara að hafa stöðugar gætur á þeim og þá er allt í lagi. Ég hef hænt þá að mér með því að færa þeim matarleifar og þeir eru mun gæfari en fyrstu dagana sem þeir voru hér. Nágrannarnir eru reyndar ekki sérlega hrifnir af hreiðrinu. Þeir heimta að ég fái meindýraeyði til að uppræta það en ég trúi því að allar verur eigi tilverurétt nema kannski njálgurinn og lúsin. Ég býst líka við því að sumir myndu segja að það ógni dýraflóru landsins ef þessi nýja tegund fjölgar sér að ráði. Ég hef ekki verulegar áhyggjur af því, þeir éta aðallega rottur og mýs og það er enginn tilfinnanlegur skortur á þeim hérlendis.

Maðurinn minn hefur stöðugar áhyggjur af því að smádrekarnir okkar kveiki í blokkinni en ég hef bent honum á að eldur sé undirstaða alls lífs á jörðinni. Ef allt fer til andskotans; ef hitaveitan lokar fyrir heita vatnið og rafveitan fyrir rafmagnið, höfum við samt sem áður bæði ljós og hita. Og við þurfum heldur ekki að hafa áhyggjur af því að þeir geri okkur mein. Ef þeim fjölgar óhóflega og þeir éta allar mýs og rottur í landinu, getum við alltaf flutt inn fleiri rottur frá Kína. Mér skilst að sé yfirdrifið nóg af þeim þar.