Bleikt

Bleikt 01

Hart er í heimi,
hórdómur mikill
nú eru legókubbarnir komnir með brjóst.

Á öskudaginn flögra átta ára telpur um bæinn
í hórubúningum.
Þær syngja „fljúga hvítu firðrildin“
og fleiri amorsvísur
og dónakallar í hverfissjoppum
gefa þeim píkubleikan ís.

Við hvern dísætan sleik
skrika þeim hórblik á augnslímum.

Það má hún eiga blessuð klámvæðingin
að hún er sjálfbær.

 

 

Bleikt 02

Í þá daga
vorum við vanar að baða okkur upp úr karamelluglassúr
sem við skófum af hálfétnum kleinuhringjum
áður en við tróðum afgangum af þeim í eyrun.
Það var vissulega dálítið klístrað á köflum
en kvað vera gott fyrir húðina.

Svo kom bleika skrímslið
og sleikti hann af okkur
byrjaði við hælana og sleikti hringinn
allt upp að eyrum.
Þar dró ég mörkin, ég hef aldrei þolað að láta sleikja á mér eyrun.

Those were the days my friend,
the days of wine and donots.
Í dag göngum við bara með hrökkbrauð í eyrunum.
Það gerir harðlífið.

Bleikt 03

„Þú ert varla meira en skugginn af sjálfri þér“
sagðir þú.

Hugsaðir líklega ekki út í það
að skuggi minn er stærri en ég sjálf.
Og smýgur undir.

Og birti til
mun hann vafalaust hnipra sig að fótum mér.

En auðvitað sagði ég það ekki.
Spurði bara hvort skuggi væri nokkuð verri
en spegilmynd.

Þegar þú varst farinn
horfði ég á yfirgnæfandi skuggann af sjálfri mér
og ákvað að kaupa handa honum þráðlausan síma.

„Vinsamlegast hafið samband við skugga minn
ef þér viljið koma á framfæri kvörtun
eða annarskonar ástarjátningu.“

Það hljómar bara ekki eins kurteislega
og „þér eruð leggöng ungfrú Sóley“
og ekki vill maður vera dónalegur
við viðmælendur sína.

Var ég Sóley, sólufegri,
þar sem ég sat í skugganum?
Og beið.

Eða hnipraði ég mig
að fótum hennar,
í skugga búsáhaldarbyltingar
sem hefði getað orðið eitthvað,
eitthvað meira en skugginn af sjálfri sér
svona gulur og glaðlegur skuggi.
Sóleyjarskuggi.

Bleikt 04

Það er þessi klanvæðing, hvert sem litið er.

Ekki svo að skilja að ég hafi neitt á móti því
að gefa börnum ís.
Eða að það sé neitt athugavert við það í sjálfu sér
að setja andlit á ísinn.
Það er bara eitthvað svo kukluxlegt við ís með augu.

Reyndar minna jólasveinar á þá líka ef að er gætt
og hvað er smokkklæddur reður
annað en tákn klanarans?

Bleikt 05

Elskan, þú verður að átta þig á því
að uppþvottaburstar ganga ekki á háhælaskóm.
Fjaðrakústar, vissulega og tannburstar
en ekki uppþvottaburstar, bara ekki,
þeim gæti skrikað fótur í sápunni.

Bleikt 06

Mér skilst að lífið sé draumur í dós.
Niðursoðinn og geymist lengi
svo fremi sem maður stillir sig um að opna.

Svo kemur að því einn daginn að hungrið ágerist
og þar sem allir hlutir eiga sér síðasta söludag
er ekki seinna vænna að kanna innihaldið.
Ég átti hérna einhversstaðar dósahníf var það ekki?