Verkamannaheilkennið

Ég var að vinna 1. maí. Verkamannavinnu. Hef reyndar ekki fengið fríhelgi rosalega lengi og var svona að velta því fyrir mér hvort væri ekki meira viðeigandi að vera niðri í bæ að syngja nallann. Kveikti á útvarpinu á leiðinni heim og ómægod hvað ég varð fegin að hafa frekar verið að vinna. Sami söngurinn ár eftir ár um að NÚ sé nóg komið. Og svo Ragnar Reykás og Geir og Grani með einhvern neðanbeltishúmor og pöpullinn flissandi þótt þeir væru ekki einu sini fyndnir.

Kynni mín af verkamannavinnu hafa leitt mig að þeirri niðurstöðu að hún sé forheimskandi og eyðileggi sjálfsvirðingu fólks gjörsamlega. Ég greini m.a.s. ákveðið verkamannaheilkenni og viðurkenni að eftir nokkrar vikur í senn finn ég fyrir því að ég er að sýkjast af því sjálf. Er búin að útbúa tékklista. Ef ég svara þremur spurningum eða fleiri játandi er ég í verulegri hættu. Einu rökréttu viðbrögðin við því eru að pilla mig burt hið snarasta og finna mér verkefni sem krefjast sjálfstæðis og hugsunar.

Hér er allavega listinn:
-Finnst þér sjálfsagt að taka að þér yfirvinnu (þótt þú hafir eiginlega verið búinn að ákveða að nota tímann til annars) af því að vinnuveitandinn gæti lent í vandræðum ef hann fær ekki fólk?

-Tekur þú að þér verkefni sem enginn sérstakur er ábyrgur fyrir án þess að fara fram á að fá greitt fyrir það sérstaklega?

-Notarðu rangar vinnustellingar eða sættir þig við óþolandi vinnuaðstæður án þess að velta því fyrir þér hver eigi að sjá fyrir þér þegar þú ert kominn í göngugrind fyrir aldur fram?

-Reykirðu?

-Treðurðu matnum í andlitið á þér og gleypir án þess að tyggja?

-Finnurðu tíma til að horfa á gelt afþreyingarefni í sjónvarpi þótt þú hafir ekki tíma til að fara í leikhús, á tónleika eða eitthvað annað sem þú hefur í rauninni gaman af en krefst þess að þú pantir miða?

-Pantarðu pizzu og kaupir nömm handa krökkunum til að firra þig samviskubiti yfir því að hafa ekki efni á því að vera heima hjá þeim?

-Lendirðu í því að skilja ekki húmor ef hann felur ekki í sér eitthvað tengt prumpi eða riðliríi eða detta ekkert sniðugt í hug nema það sé á þessu stigi?

-Álítur þú að “kjarasamningur” merki að þú megir ekki undir neinum kringumstæður fara fram á hærri laun en samningurinn keveður á um en jafnframt að réttindi þín samkvæmt samningnum séu bara sniðugar tillögur sem atvinnurekandi getur tekið til athugunar ef það hentar honum?

-Gengurðu með þá grillu í höfðinu að það þurfi einhverjar sérstakar gáfur eða hæfileika til að reka fyrirtæki og að þar með hljóti þeir sem greiða þér laun að vera eitthvað merkilegra fólk en þú sjálfur?

Þessi listi er alltaf að lengjast og tillögur lesenda verða teknar til athugunar.

Share to Facebook