Var Tobba búin að kúka?

Ég hef stundum kvartað yfir því að blaðamennska á Íslandi sé á lágu plani. Að engu sé fylgt eftir, að hlutverk fréttamanna sé aðallega það að halda á hljóðnema og þeir þurfi í raun ekki að kunna neitt nema nota copy-paste skipunina og renna erlendum fréttum í gegnum þýðingarvél.

Á einu sviði frétta hefur ástandið þó verið ögn skárra. Þá á ég við fréttir af fræga fólkinu. Við erum sem betur fer reglulega upplýst um það hver heldur fram hjá hverjum í Hollýwood, hversu mikið dóp tilteknar poppstjörnur nota og hvort sést hafi glitta í nærbuxur Parísar Hilton. Nákvæmni innlendra frétta af frægum er líka farin að skána og það á ekkert bara við dægurmenningarstjörnur heldur einnig pólitíkusa. Við erum til allrar hamingju upplýst um merkilega hluti eins og skilnaðardrama Sivjar Friðleifsdóttur og megrunarkúr Sigmundar Davíðs. Þannig að þetta er allt í áttina.

En betur má ef duga skal. Fréttir af fræga fólkinu eru gjarnan flokkaðar sem slúður enda sjaldan svo nákvæmar að hægt sé að tala um eiginlega rannsóknarblaðamennsku. Auk þess vantar mikilvæga þætti inn í. Maður sér t.d. mjög sjaldan fjallað um það hversu oft fræga fólkið kúkar, hvernig áferðin á kúknum er eða lyktin. Það er náttúrulega ekki nóg að vita allt um neysluvenjur, klæðaburð, kynlíf, fjölskyldurifrildi, uppeldi og heilsufar fólks ef maður fær engar upplýsingar um þennan mikilvæga þátt lífsins.

Mér skilst þó að þetta standi til bóta og menn séu að fikra sig inn á rétta braut. Þetta er kannski ekki beinlínis rannsóknarblaðamennska en allavega í áttina. Auk þess höfum við nú blessunarlega fengið það upplýst að Tobba Marinós er 79,3 kg og léttist um 1,7 kg á tveimur dögum. Nú sá ég ekki umræddan þátt en samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið vantaði mikilvægar upplýsingar inn í þáttinn, þ.e.a.s. hvort hægðalosun á þátt í þessu þyngdartapi. Svona hlutir þurfa að vera á hreinu.

Eins og ég segi, blaðamenn þurfa að standa sig betur. Það eru margir dagar síðan ég hef rekist á fréttir af því hvernig Sigmundi Davíð gengur að grenna sig og ef svona grundvallarmál eins og brækur eða brókarleysi leikara og tónlistarmanna hefur verið almennilega rannsakað upp á síðkastið þá hefur það allavega ekki fengið verðskuldaða kynningu á forsíðu.

Ég er nú samt ósköp fegin að sjá að fjölmiðlar séu að fikra sig í átt til þess að gera skítamálunum skil og út af fyrir sig huggulegt hjá þeim að byrja innanbúðar. Nú ríður á að við fáum að vita allt um það hvenær og hversu mikið fræga fólkið kúkar og þá stjórnmálamennirnir. Fyrr en það er komið á hreint er varla hægt að tala um að fréttamennska sé stunduð á Íslandi.

 

Share to Facebook

1 thought on “Var Tobba búin að kúka?

 1. ———————————

  Þetta er ferskt hjá þér að venju. Í áratugi hef ég velt fyrir mér hvort frægt fólk kúki. Því miður heggur þessi grein á hinn mikla og óleysanlega hnút sem líf mitt er í vegna þessa efa.

  Posted by: Kristján Sig. Kristjánsson | 30.09.2011 | 12:14:39

  ———————————

  Ætli þetta hafi ekki átt að vera fyndið. Andri Freyr er einn þeirra sem skilur ekki muninn á því að vera hress og ósmekklegur.

  Posted by: Lilja | 30.09.2011 | 12:30:38

  ———————————

  Ég er nú stundum ósammála þér en ég er líka komin með upp í kok af slúðurblaðamennsku. Það er fréttnæmt ef einhver með offituvandamál losar sig við 40 kg en það er ekki fréttnæmt ef celeb léttist um 1-2 kg og heldur ekki ef útvarpsstjarna fær magapest. Þetta er ömurleg blaðamennska og svo eru bara endalausar rannsóknir á hruninu án þess að neitt skýrist.

  Posted by: Guðrún G | 30.09.2011 | 13:54:43

  ———————————

  Mér finnst allt í lagi að Tobba ræði þyngd sína opinberlega. Kannski hefur hún líka bara verið að benda á eðlileg vikmörk. En að þetta skuli svo vera orðin frétt sem aðrir fjölmiðlar pikka upp…

  Posted by: Eva | 30.09.2011 | 14:38:43

  ———————————

  Ég hef lést um rúm 500 gr. bara við það að kasta af mér vatni.

  Posted by: Geirmundur Orri Sigurðsson | 5.10.2011 | 18:54:56

Lokað er á athugasemdir.