Umsögn um njósnafrumvarpið

Ég hef verið beðin um að gefa umsögn um þingsályktunartillögu um að unnið skuli frumvarp til laga um forvirkar rannsóknarheimilidir.

Með forvirkum rannsóknarheimildum er átt við að lögreglunni verði heimilað að safna upplýsingum um grunsamlegt fólk og rannsaka glæpi sem ekki hafa verið framdir en eru hugsanlega í bígerð. Sennilega kemur það fáum sem kannast við mig á óvart að ég lýsi mig alfarið andvíga öllum hugmyndum um forvirkar rannsóknarheimildir eða aðrar heimildir til innrásar í einkalíf borgaranna.

Ég hef leitað til vina og vandamanna og fengið ýmsar góðar ábendingar, bæði um rök sem skipta máli og lesefni og kann ég þeim öllum bestu þakkir fyrir. Ég hef nú skrifað 15 bls. greinargerð og ætla ekki að birta hana alla hér og nú en í örstuttu máli eru helstu niðurstöður mínar þessar:

-Í þingsályktunartillögunni eru engin dæmi nefnd til stuðnings þeirri kenningu að skipulögð glæpastarfsemi sé nýr veruleiki á Íslandi eða að á afbrotum hafi orðið einhverjar þær breytingar sem geri það að verkum að venjuleg sakamálarannsókn dugi ekki lengur. Forsendurnar sjálfar eru því vafasamar.

-Áhrifamáttur forvirkra rannsóknaheimilda er í skársta falli umdeilanlegur. Dæmi um glæpi eða hryðjuverk sem yfirvöld eiga að hafa afstýrt líta helst út fyrir að vera úr lausu lofti gripin og engar vísbendingar eru um að dregið hafi úr skipulagðri glæpastarfsemi í öðrum löndum eftir að yfirvöld tryggðu sjálfum sér heimildir til njósna.

-Hingað til hefur lítið sem ekkert eftirlit verið haft með eftirgrennslan og upplýsingasöfnun og yfirmenn lögreglunnar hafa unnið gegn því að þolendum slíkra aðgerða séu tryggð réttindi. Rétt væri að koma á almennilegu eftirliti með því sem þegar viðgengst áður en menn fara að íhuga möguleikann á því að rýmka valdheimildir lögreglu.

-Valdníðsla á vegum lögreglunnar tíðkast nú þegar. Innrás í einkalíf fólks og jafnvel gróft ofbeldi af hálfu lögreglunnar er umborið og nánast útilokað að fá upplýsingar um misnotkun valdheimilda. Það væri því fráleitt að ætla að njósnaheimildir yrðu ekki misnotaðar.

-Reynsla annarra þjóða sýnir að forvirkar rannsóknarheimildir eru iðulega nýttar til þess að hafa mikið og stöðugt eftirlit með starfi pólitískra hreyfinga, einkum vinstri hreyfingum, en sjaldgæft að þær leiði í ljós nokkuð glæpsamlegt. Hinn duldi tilgangur þeirra er þannig að verja ríkjandi samfélagsskipan en ekki að uppræta glæpi.

-Ólöglegar persónunjósnir hafa verið stundaðar á vegum íslenskra yfirvalda og hefur þeim m.a. verið beint gegn vinstrisinnuðum stjórnmálamönnum og grasrótarhreyfingum, það er því engin ástæða til að ætla að framkvæmd slíkra valdheimilda verði önnur á Íslandi en í öðrum löndum.

Ég hvet alla sem vilja sporna gegn því að þær njósnir sem þegar viðgangast verði samþykktar sem eðlilegur hluti af starfsemi yfirvalda, til að senda inn álit sitt. Netfangið er nefndasvid@althingi.is Vilji einhver gauka að mér rökum sem eiga heima í umsögninni en mér kunna að hafa yfirsést, þá endilega sendið mér tölvupóst á eva@norn.is, fyrir kl 20 í kvöld.

Uppfært: Hér er tengill á umsögnina

Share to Facebook

One thought on “Umsögn um njósnafrumvarpið

  1. ———————

    Þetta er einmitt eitt af þeim málum sem Ögmundur Fyrirstjórn var svo mikið á móti en keyrir nú áfram sem Ögmundur Ístjórn.Allir verða þeir Davíð og BjörnBjarna þegar í stjórn er komið. Hinn frjálsi vilji virðist bara hverfa..

    Posted by: Einar Guðjónsson | 19.11.2011 | 9:23:30

Lokað er á athugasemdir.