Trúnaðarmál

Ég játa. Mér varð það á að hlæja þegar ég sá þetta.

En þetta er ekki fyndið og glottið breyttist í grettu þegar ég hugsaði um það hverskonar upplýsingar þeir sem ekki kunna á facebook gætu óvart sett á opinn vegg. Ég get hlegið að þessu af því að þarna kom ekkert fram sem hefði rústað lífi neins þótt það færi á flakk en þetta hefði getað verið viðkvæmt einkamál. Upplýsingar sem snerta börn eða aðra sem eru sérlega viðkvæmir. Hjónarifrildi. Erótískir órar. Dánartilkynning.

Internetið er frábært en kunnáttuleysi getur verið stórhættulegt. Þessvegna ætti maður aldrei að segja neitt á netinu sem maður ætlar ekki að segja mömmu sinni, löggunni og skattinum og allra síst ef maður vill ekki að fólk fái fréttirnar í gegnum facebook eða aðra fjölmiðla.

Við getum brosað að þeim sem skilja ekki muninn á einkaskilaboðum og opnum vegg á facebook. Við sem þykjumst kunna á tölvupóst og samskiptamiðla teljum að það hljóti að vera óhætt að ræða trúnaðarmál í einkapósti. Og það ætti líka að vera það. Staðreyndin er þó sú að maður getur aldrei verið fullkomlega viss um að það sem maður gerir á netinu komi ekki fyrir augu annarra en maður ætlast til, sama hversu vel maður treystir viðtakandanum. Þess eru nefnilega dæmi að sjálft yfirvaldið brjótist inn í einkapóst.

Það getur verið neyðarlegt, jafnvel hræðilegt að verða það á að birta trúnaðarmál á opnum vegg. Ennþá hræðilegra þætti mér þó að komast að því að einhver hefði lesið allan minn tölvupóst og einkaskilaboð, skoðað myndirnar mínar og önnur skjöl; ekki af því að ég sjálf hefði farið óvarlega eða ekki vitað hvað ég var að gera, heldur af því að einhver stofnun hefði fengið formlegt leyfi til þess, í nafni almannaöryggis, að rannsaka einkalíf mitt. Við getum tekið ábyrgð á okkar eigin mistökum, hlegið að þeim eða nagað okkur í handabökin, lært af þeim eða stútað okkur. En við getum ekki tryggt okkur gegn njósnum yfirvalda. Ef við viljum vera viss um að trúnaðarmál komi ekki fyrir annarra sjónir en til er ætlast, er eina örugga leiðin sú að hvísla þeim í eyra viðtakandans.

Nú er árið 2013. Við erum ekkert að fara að boða til leynifundar í hvert sinn sem við viljum að eitthvað fari leynt. Við munum, gegn betri vitund, halda áfram að ræða trúnaðarmál í gegnum internetið. Við munum líka um ókomna tíð búa við hættuna á því að það sem við gerum á internetinu sé yfirvöldum sýnilegt. Þessvegna er pírataframboðið nauðsynlegt.

Ég er ekki búin að gera upp við mig hvort ég muni styðja Pírata eða Dögun. Þetta væri ekki vandamál ef einstaklingskjör væri í boði en það hentar víst ekki hagsmunum fjórflokksins svo við sem viljum bæði Dögun og Pírata á þing, neyðumst til að velja á milli. Mér finnst grátlegt að þessir hópar skuli ekki ætla að vinna saman og er enn ekki búin að átta mig á því hvaða málefnaágreiningur stendur í vegi fyrir því. Ég á þó ekki von á því að það sé trúnaðarmál svo getur einhver upplýst mig um það hvaða viðhorf það eru hjá þessum tveimur hópum sem eiga ekki samleið?

 

Share to Facebook