Til hvers að aðlagast menningunni?

Ég ólst upp á Íslandi, er kennd við föður minn og þekki Hallgrímskirkju og Geysi á myndum. Ég er ljós yfirlitum, hef prjónað lopapeysur og mér finnst saltkjöt gott. Tala íslensku betur en önnur mál. Það eru þessi atriði ásamt langfeðgatali og íslensku vegabréfi sem ég hef í huga þegar ég segist vera Íslendingur. Hvort ég hef nokkurntíma verið vel aðlögðuð íslensku samfélagi er hinsvegar umdeilanlegt og hvað merkir það í raun? Hvernig hegðar vel „aðlagaður“ Íslendingur sér? Hver er munurinn á þeim sem er almennt frekar  andfélagslegur og þeim sem er ekki Íslendingslegur í hátterni og hugsun?

Í Danmörku tölum við dönsku

Ég bjó í Danmörku í ríflega tvö ár. Við systurnar unnum á sama vinnustað um tíma. Okkur var bannað að tala íslensku okkar í milli. Við höfðum reyndar aldrei talað annað en dönsku inni á deild en einhverntíma varð okkur það á að skiptast á nokkrum orðum á íslensku í kaffitímanum (um garðskála ef ég man rétt) og það varð bara allt vitlaust. Rökin voru þau að ef við töluðum íslensku gætum við talað um samstarfsfólk okkar án þess að það áttaði sig á því. Ekki fékk ég neina skýringu á því hvað væri svo áhugavert við þessar kerlingar að hætta væri á að við gætum ekki stillt okkur um að ræða þær fyrr en við kæmum heim, enda hefðum við þá getað dregið hvor aðra útfyrir og farið á trúnó þar, ef eitthvert gagghænsið hefði verið með bólu á nefinu eða hvað það nú annars var sem taldist verðugt umræðuefni.

Reyndar er ég á því að þessi krafa hafi ekkert snúist um tungumálið heldur einfaldlega um útlendingahatur. Það er alltaf ágætt að geta gripið í frasann „þetta vill bara ekkert aðlagast menningunni“, ef maður finnur enga persónubresti til að setja út á, en þótt ég geti bjargað mér á dönsku aðlagaðist ég ekkert menningunni og gerði enga tilraun til þess.

Hvað káfar það upp á aðra?

Til hvers hefði ég átt að aðlagast danskri menningu? Mér leið prýðilega heima hjá mér með minni fjölskyldu og vinum. Ég átti ágæt samskipti við nágrannana en myndaði ekki djúp vinatengsl við þá og fann enga þörf fyrir það. Það hefði ekkert aukið mín lífsgæði að borða rúgbrauð með kartöflum daglega eða lesa alla auglýsingabæklinga sem bárust inn um lúguna hjá mér eins og flestir nágranna minna gerðu. Ég hélt áfram að fjarlægja hárin úr handarkrikunum á mér þótt samstarfskonur mínar hafi flaggað brúskunum, ég notaði reiðhjól í mesta hófi og það hefði aldrei komið til greina af minni hálfu að flagga Dannebrog á afmæli drottningarinnar. Ég varð mjög glöð þegar pabbi kom í heimsókn með saltkjöt og harðfisk og vikulega hittum við systur frænku okkar og nokkra aðra Íslendinga og prjónuðum með þeim, aðallega úr íslenskum lopa. Það hefur eflaust verið einhverjum innfæddum mjög þungbær reynsla að vita af okkur sjóðandi saltkjöt, prjónandi lopapeysur og baknagandi samtarfskonurnar á elliheimilinu á íslensku í stað dönsku en mér var eiginlega bara fokk sama.

Af hverju er aðlögun nauðsynleg?

Núna bý ég í Skotlandi. Mér finnst „Wild Mountain Thyme“ fallegt lag en ég flutti ekki hingað til að aðlagast skoskri menningu. Ég flutti hingað af því að ég vil vera hjá manninum mínum og hann flutti hingað af því að hér hefur hann vinnu sem gerir hann hamingjusaman, auk þess sem kjörin eru góð. Það hentar okkur að búa hér, við erum ekki hér af því að við þráum að verða Skotar og við lifum engu félagslífi með innfæddum, það eru aðallega aðrir útlendingar sem við eigum félagsleg samskipti við. Ég fylgist ekki einu sinni með fréttum sem varða borgina sem ég bý í, ég skoða hinsvegar íslensku netmiðlana daglega. Íslenskar fréttir vekja bara frekar áhuga minn því ég þekki söguna og umhverfið betur.

Þegar innflytjendamál eru rædd á Íslandi heyrir maður undantekningalaust möntruna „það er nauðsynlegt að fólk læri íslensku og aðlagist menningunni“. Þegar maður spyr hversvegna það sé nauðsynlegt ef innflytjandinn sjálfur telur sig komast vel af án þess, kemur venjulega eitthvert kjaftæði um virðingu fyrir landi og þjóð. Halló! hvernig er það virðingarleysi við Dani að borða saltkjöt og prjóna lopapeysur? Hvernig er það vanvirðing við Glasgowbúa að taka ekki upp þessa sérhljóðaafbökun sem einkennir mállýskuna?

Fyrir hvern er þessi krafa sett fram?

Það er þægilegt að búa í landi þar sem maður skilur tungumálið og þar sem kurteisisvenjur, skopskyn og fleiri menningaratriði eru nógu lík til þess að maður geti flesta daga forðast meiriháttar misskilning. Ég get alveg mælt með því að fólk læri það tungumál sem flestir í kringum það nota því það gerir lífið auðveldara að geta átt samskipti við sem flesta ef maður kýs það. Það er líka eðlilegt að sum fyrirtæki geri kröfu um tungumálakunnáttu svo atvinnumöguleikar eru augljóslega meiri fyrir þann sem talar málið. Það hvort innflytjandi talar málið eða ekki snertir samt fyrst og fremst hann sjálfan og það er gjörsamlega fáránlegt að Íslendingar telji sig eiga einhvern rétt á því að innflytjendur tali íslensku.

Þeir sem halda uppi þessu eilífa tuði um að útlendingar þurfi að „aðlagast“ hafa sjaldan hugsað mikið út í hvað það eiginlega merkir, hvað þá að þeir geti rökstutt það hversvegna það er svona nauðsynlegt og fyrir hvern. Innflytjendur eru alveg einfærir um að meta nauðsyn þess fyrir sjálfa sig og þurfa ekkert á því að halda að heimamenn segi þeim til. Oftar en ekki er þessi krafa um aðlögun heldur ekkert annað en bæði innistæðulaus og illa dulbúin þjóðremba.

Share to Facebook

11 thoughts on “Til hvers að aðlagast menningunni?

 1. Það er fáránlegt að gera sér ekki far um það að læra tungumál gestgjafa í landi þar sem maður býr í meira en ár og klappa fyrir þannig öfugum þjóðrembingi. Það segir sig eiginlega sjálft, og sérstaklega varð ég t.d. var við það í Noregi þar sem ég lærði tungumálið nokkurnveginn til fullnustu á rúmu ári og lenti ítrekað í að reyna (í gegnum vinnu mína þar) að þjónusta fólk sem hafði búið jafnvel allt að 20 árum í Noregi, talaði ekki stakt orð í norsku og var stanslaust að reyna að láta Norðmennina hoppa í gegnum logandi hringi til að reyna að koma þeim í skilning um hvers þau þörfnuðust. Það er fáránleg tilætlunarsem og tillitsleysi og eins og ég segi – Öfug þjóðremba. Svipað má segja um bandaríkjamenn almennt í öðrum löndum. Guð gaf manninum ensku og þeim sem tala hana guðlegan rétt til að hafa forskot á alla aðra í samræðum og sömuleiðis rétt á að kvarta (eins og ég varð fyrir í US) þegar aðrir tala saman t.d. á íslensku en líkt og þú lentir í í Danmörku, þá olli það tortryggni. Annars dekkarðu þessa höfn reyndar og gerir fyrirvara við þetta í pistlinum en maður verður að bauna einhverju á þig, þetta er svo eldfimt mál 🙂 Annars deili ég þessum skoðunum með þér að öðru leyti, fólk þarf bæði að líta í eigin barm hér heima og þegar það dvelst langdvölum erlendis og sýna tillitsemi á báða bóga..

 2. Ég held að hluti af þessu hugarfari hjá Íslendingum sé að tungumálið er afar tengt íslenskri menningu. Flestum finnst fólk ekki vera raunverulega „íslenskt“ nema að það kunni íslensku. Ég held þetta stafi helst af því hversu fámennir Íslendingar eru og hversu einsleitt tungumálið er (það eru svo gott sem engar mállýskur í íslensku). Hins vegar er vel hægt að lifa í sátt og samlyndi við þjóðfélagið án þess að kunna tungumál þess. Óneitanlega er það samt erfiðara, t.d. þegar þarf að eiga samskipti við opinberar stofnanir og þannig.

  Ég sá gífurlegan mun á Svisslendingum og Íslendingum hvað viðhorf til tungumála varðar þegar ég flutti til Sviss. Í Sviss eru töluð 4 tungumál; franska, þýska, ítalska og romansh. Kennd er þýska og franska í öllum svissneskum skólum (ítalska sem valfag held ég). Þýskumælandi Svisslendingar eru einna færastir í öðrum tungumálum og eru oftast slarkfærir í frönsku og ensku. Romansh svæðin í Sviss tala oftast reiprennandi þýsku líka, enda er romansh að verða smám saman útdautt tungumál. Frönsku- og ítölskumælandi svæðin í Sviss eru hins vegar afar léleg í öðrum tungumálum og eru varla nema lesfærir í þýsku.

  Af þessu leiðir að mögulegt er að hafa fjóra Svisslendinga saman í herbergi og enginn þeirra skilur hvern annan. Samt telja þeir sig jafn mikla Svisslendinga og hafa sína þjóðerniskennd (stærsti flokkur Sviss er t.d. með afar umdeilda og harða innflytjendastefnu). Svisslendingum er nokkurn veginn sama þótt þú talir með skrítnum hreim og hafir lítinn orðaforða, á meðan margir Íslendingar sveia útlendingum fyrir að kunna ekki að tala „rétt“. Fyrir Svisslendingum er tungumálið ekki fastbundið menningunni en hjá Íslendingum er íslenska órjúfanlegur hluti menningarinnar.

 3. Mér finnst reyndar gríðarlega mikilvægt að manneskja sem flyst til annars lands geti gert sig skiljanlega og skilið það helsta í tungumáli þess lands, ekki síst til að geta þekkt lög og reglur og eins réttindi sín og hvert á að leita. Að vera í landi þar sem maður talar ekki stakt orð í tungumálinu eykur á einangrun fólks og hættuna á að það verði undir og verði misnotað. Auk þess tek ég ágætlega eftir gallanum á þessu þegar fólk þarf að leita sér læknisaðstoðar og talar ekki tungumálið. Þá verður strax hætta á misskilningi og að fólk fái ekki þann forgang sem það þarf. Og vissulega á fólk rétt á túlki, en hann er náttúrulega ekki til staðar á deildinni að staðaldri, heldur þarf að kalla hann út… og þetta allt kostar fullt af pening.

  Hins vegar finnst mér ekkert nauðsynlegt að fólk taki upp okkar menningu eða sé neitt athugavert við það að það haldi í sínar hefðir og tali sitt tungumál sín á milli, að sjálfsögðu ekki. En hins vegar má það samt ekki brjóta í bága við íslensk lög.

 4. Ég get alveg tekið undir að það sé ókostur fyrir fólk að kunna ekki málið en fyrir mér snýst þetta um rétt fólks til að taka sínar ákvarðanir sjálft, þar með talið vondar ákvarðanir. Ég er þessvegna mótfallin valdboði en hlynnt því að stuðlað sé að tungumálanámi t.d. með ódýrum námskeiðum. Það sem er samt aðalpunkturinn hér er að það er ekkert réttur Íslendinga að aðrir tali málið.

 5. Mér þykir það sjálfsögð kurteisi að reyna að læra tungumál þess lands sem maður kýs að flytja til. Ég flutti sjálf til í lítið þorp í spænskumælandi landi þar sem enskukunnátta var af afar skornum skammti. Ég lagði mig alla fram um að læra tungumálið sem allra fyrst. Hefði ég ekki gert það hefði ég ekki getað tjáð mig við leigusalann minn, verslað án vandræða, sótt um síma og ég tala nú ekki um að ræða við kennara barnanna minna eða læknirinn þegar einhver veiktist. Á meðan ég var ekki fyllilega mælandi á þeirra tungu varð ég að finna og greiða fyrir túlk sjálf til að hjálpa mér að gera mér skiljanlega. Menning nær yfir svo gríðarlega margt. Það er erfitt að aðlagast ekki menningu þess lands sem maður býr í. T.d. voru aðrir hátíðisdagar þar sem ég bjó í kaþólsku landi, matarvenjur og matartímar voru aðrir. Það amaðist enginn við því að ég héldi uppá jólin þann 24, en frídagar barnanna minna voru þó á öðrum tíma en við áttum að venjast vegna menningarmismunar. Það amaðist heldur engin við því að ég borðaði minn kvöldverð kl 7 en ekki 10 líkt og tíkaðist út. Ef ég vildi vera í lífi og fjöri á veitingarstað fór ég seinna vegna mennigarmunar. Ég kaus að leggja mig ekki í siestu en virti það að innfæddir vildu helst ekki vera truflaðir á þessum tíma. Ég nefni þetta bara sem dæmi. Ég held það sé ómögulegt að búa í einhverju landi án þess að aðlagast mennigu lands og þjóðar að einhverju leiti. Ég gat ekki séð að það angraði aðra þorpsbúa að ég borðaði ekki ommilettu með svínsheila og hefði gaman af að prjóna. Ég held ekki að það angri ekki íslendinga þó innflytjendur kjósi að borða annan mat eða hafa önnur hobby. Er ekki frekar átt við að það sé eðlilegt að fólk reyni aðlagast til þess vera eins sjálfbjarga og því er mögulegt. Eiga ekki hættu á einangrun og vita ekki hver réttindi þeirra eru. Ekki að henda öllum sínum siðum í ruslið, en að vera amk. fær um að tjá sig um nauðsynlegustu hluti. Ég upplifði þetta amk þar sem ég bjó. Fólk furðaði sig á útlendingum sem höfðu búið í landinu árum saman en talaði ekki stakt orð í spænsku. Fyrir utan að það var ekki möguleiki á að fá vinnu ef maður talaði ekki tungumálið. Hins vegar var nóg að sýna smá lit og reyna að tjá sig og það voru allir af vilja gerðir til að leiðrétta mann og aðstoða. Ég upplifði þetta aldrei nokkurn tíman sem fordóma eða útlendingahatur. Það er því miður allt of mikið um fordóma hérlendis. En ég er ekki viss um að þetta sé ein birtingarmynd þeirra.

 6. Takk fyrir innleggið Helga. Mér sýnist þú nú einmitt hafa lært málið vegna þess að það gerði þitt líf auðveldara en ekki af einhverri sérstakri þóknun við aðra. Það er góð forsenda sem virkar miklu betur en að neyðast til þess að læra málið eða hvað sem vera skal af því að þess sé krafist á þeirri forsendu að þú eigir að „sýna virðingu“. Þeir sem vilja skikka útlendinga til að læra málið eru ekki að hugsa um velferð þeirra enda eru þeir fullfærir um að hugsa um velferð sína sjálfir. Og jújú, maður heyrir sannarlega hnýtt í fólk fyrir að halda í sína eigin siði, einhver skýrasta birtingarmynd þess er umræðan um höfuðklúta. Hversu oft hefur maður ekki séð þau rök að „þetta fólk“ eigi ekki hylja andlit sitt af því að „við kæmumst ekki upp með að vera eins og við viljum í þeirra löndum.“ Hvílík umhyggja.

 7. Ég held að það sé nokkuð til í því að sá mælikvarði sem fólk lítur almennt til sé tungumálið og hvort hægt sé að eiga tiltölulega vandræðalaus samskipti við viðkomandi. Allavega hjá flestum. Það sem mér þykir mest um vert varðandi fólk sem kýs að flytjast til annars lands til að setjast þar að til frambúðar og ala upp börnin sín þar, er að staðreyndin er sú að börn innflytjenda standa að meðaltali verr að vígi en börn innfæddra, og talið er að einn stærsti þátturinn í því er að þau eru oft sett í þá ábyrgðarstöðu að vera tengiliður á milli foreldris/foreldra og umheimsins. Það er mikil ábyrgð sett á unga manneskju. Rannsóknir hafa jafnvel sýnt fram á áhrif á þriðju kynslóð. Þetta auðvitað á ekki við fólk sem flyst á milli landa til að dveljast í nokkur ár og fara svo, en það er kannski heldur ekkert endilega það fólk sem mest er verið að tala um í þessu samhengi.

 8. Menn rugla of oft saman því sem á útlensku nefnist annars vegar integration (aðlögun) og hins vegar assimilation (alger samlögun). Það ætlast varla neinn hugsandi maður eða kona til þess að innflytjendur samlagist algerlega nýju landi, enda er slíkt ekki mögulegt fyrr en í annarri eða þriðju kynslóð (og ekki endilega æskilegt). Þeir sem setja fram slíka kröfu vilja horfa fram hjá því að innflytjandinn hafi kannski einmitt eitthvað verðmætt fram að færa sem ekki er til í nýja landinu.
  Íslenska ríkið veitir nokkuð ríflega styrki til íslenskukennslu fyrir útlendinga. Slík námskeið eru s.s. rausnarlega niðurgreidd, auk þess sem flestir fá allan kostnað endurgreiddan frá stéttarfélagi (flestir eru jú eða voru í vinnu). Þetta er spurning um réttindi og skyldur. Þeir sem sækjast eftir dvalarleyfi til lengri tíma og jafnvel ríkisborgararétti þurfa að leggja meira á sig og ljúka nokkrum námskeiðum. Í raun er aðeins gerð krafa um ástundun, lokapróf eru mjög létt. Þeir sem ekki hafa áhuga á að setjast að til frambúðar þurfa ekki að sækja nein námskeið. Það eina sem er kannski vafasamt í þessu kerfi er að svo mikill munur skuli vera á kröfum til fólks eftir því hvaðan það kemur (þ.e. engar kröfur ef þú kemur frá EES landi, þeim mun meiri eftir því sem þú ert lengra að komin -n).

 9. Takk fyrir innleggið Sæmundur. Það er rétt að innflytjendur fá íslenskunámskeið niðurgreidd og það er bæði gott og nauðsynlegt. Við ættum svo kannski að reyna að koma á umræðu um annað vandamál sem er tregða Íslendinga til að tala íslensku við innflytjendur. Ég hef kennt íslensku fyrir útlendinga og þeir kvarta mjög oft um að það sé erfitt að fara með lærdóminn út fyrir skólastofuna því þegar þeir reyni að tjá sig á slakri íslensku sé þeim svarað á ensku; jafnvel þótt þeir kunni ekki ensku.

Lokað er á athugasemdir.