Þessvegna les ég Moggann

Sumir vina minna og kunningja tala um það eins og svik við heilagan málstað að lesa Moggann. Ég skil reyndar vel þá sem ekki kaupa blaðið því ekki vill maður nú mylja undir Davíð. Mér finnst hinsvegar bara bjánalegt að sniðganga netmiðil.

Í fyrsta lagi; þekktu óvin þinn. Ef það er rétt að Mogginn sé svona hliðhollur íhaldinu, þá er full ástæða fyrir vinstri menn að lesa hann, nema náttúrulega fyrir þá sem eru sáttir við gagnrýnislausan vísdómsaustur úr einni átt. Væri það virkilega svo voðalega hættulegt að komast að því ef andstæðingurinn slysaðist til að hafa rétt fyrir sér? Væri slæmt að komast að því að hann hefði áttað sig á einhverju sem maður var ekki meðvitaður um?

Í öðru lagi; Jafnvel þótt Mogginn leggi upp laupana þá þýðir það ekki að viðhorfin sem hann birtir breytist. Fjölmiðill er ekkert annað en þeir sem stýra honum og vinna fyrir hann. Þótt ritstjóri og allir blaðamenn Moggans missi vinnuna, þá munu þeir ekki hætta að tjá sig. Það er hvorki skynsamlegt né gerlegt að skapa gott og réttlátt samfélag með því að þagga niður í þeim sem hafa ‘rangar’ skoðanir.

Og þessvegna les ég stundum mbl.is. Ekki á hverjum degi samt. Mogginn er nefnilega jafn drullulélegur og leiðinlegur og dv og visir.

Mest lesnu ‘fréttir’ dv.is í augnablikinu eru þessar:

1. Brúðhjónin geisluðu af gleði
2. Fréttamaðurinn þykir áþekkur eftirlýstum glæpamanni
3. „Dó“ í fimm mínútur á Lady Gaga tónleikum
4. Vill gefa ríkisstjórninni páskaegg
5. Æskulýðsfulltrúi á elliheimilinu Grund
6. Karlpúngaflokkurinn
7. Fjör á Torfastöðum um páskana

Það eina af þessu sem vakti áhuga minn var æskulýðsfulltrúinn á Grund. Gat verið að ungmenni væru að gera góða hluti? Nei, þetta var auglýsing eða í skársta falli gagnrýnislaus umfjöllun um trúboð Óháða safnaðarins á hjúkrunarheimili.

Það nýjasta á visi.is er eftirfarandi:

-Þriggja bíla árekstur á Hellisheiði
-Áfram verður hvasst
-Bestu kaupin í spænska boltanum
-Iceland Food Centre á Stöð 2
-Justin Bieber óttast um öryggið

Ég nennti ekki einu sinni að skoða þessar fréttir.

Helst í fréttum mbl.is

* Nóttin róleg víða um land
* Búist við hviðum strax í kvöld
* Enginn á götum úti í Damaskus
* Varað við stormi á páskadag
* Á lúxusjeppa með stolin blóm

Jæja.

Maður gæti haldið að það sé einfaldlega ekkert áhugavert í fréttum en svo opnar maður ruv.is og þá blasir þetta við:

Ekkert að gera hjá lögreglu
Andstaða Dana við kjarnorku eykst
Ísraeli felldur í Nablus
Líbía: Segjast hættir í Misrata
Ásmundur Einar hverfi af þingi
Tóku leigubíl frá New York til LA
Spánn: Messi setti markamett
Vín: Minnisvarði um liðhlaupa

Það er semsagt ýmislegt fréttnæmt að ske í heiminum og jafnvel á Íslandi eftir allt saman.

Rúv og Smugan eru sennilega einu netmiðlarnir sem er uppfærðir daglega þar sem maður þarf ekki beinlínis að leita til að finna fréttir sem eiga erindi við almenning. Ég lít á þessa miðla samt, les það sem ég finn af fréttum og stöku sinnum skoða ég jafnvel eitthvað þessum bleikaklámshroða sem jafnan er mest lesinn. Maður þarf nefnilega að þekkja óvin sinn, hvort sem það er Mogginn eða bleikt.is. Ég les nú samt Moggann mun oftar en lífsstílsfréttir (hvað varð annars um hið ágæta orð líferni?) og frægafólksklám. Jamm í alvöru, ég les Moggann enda þótt hann sé svo ósmekklegur að birta frétt um að palesínska lögreglan hafi skotið Ísraelsmann í Nablus, án þess að taka það fram að í hverjum einasta mánuði ræðst ísraelski herinn inn í Nablus, rífur fólk upp úr rúmum til að gera ‘húsleit’ (sem merkir oftast að leggja heimilið í rúst og ógna lífi fjölskyldunnar) handtekur menn án þess að gefa ástæðu (og margir þeirra eru dæmdir til margra ára fangavistar án þess að fá nokkru sinni að vita fyrir hvað þeir eru ákærðir) og drepur af og til einhvern saklausan borgara, bara svona af því að þeir geta það.

Já ég les þennan sóðasnepil, til þess að vita hverju þarf að svara. Mogginn hefur það þó fram yfir DV og Vísi að bjóða manni allavega upp á almennilegan óvin. Fréttir sem þessar hafa nefnilega alvarlegri afleiðingar en hugleiðingar um ‘það nýjasta í naglalökkum’ eða typpastærð eftir landakortum. Nógu alvarlegar til að ég nenni að lesa þær.

 

Share to Facebook

1 thought on “Þessvegna les ég Moggann

 1. ———————-

  Minningagreinarnar mín kæra

  Minningagreinarnar eru það líflegasta í Mogga

  Posted by: Guðmundur Ólafsson hagfræðingur | 24.04.2011 | 17:51:34

  ———————-

  Mogginn kemur til dyranna eins og það er klætt, og pirrar mig fyrir vikið ekki á sama hátt og t.d. Fréttablaðið gerir. Það þýðir hins vegar ekki að ég nenni að skoða vefinn þeirra nema sjaldan. Frekar mæli ég með tímaritinu „Þjóðmál“ ef menn vilja sjá hvað alvöru hægrimenn eru að spá. Það er ekki pakkað í neytendavænar umbúðir heldur ómengað.

  Posted by: Vésteinn Valgarðsson | 25.04.2011 | 0:50:54

Lokað er á athugasemdir.