Þessvegna eiga fíflin að fá að kjósa

Ég er ekkert ‘forundrandi’ þótt fólk sem fyrir nokkrum mánuðum vildi helst þjóðaratkvæðagreiðslur um sem flest mál, ásaki forsetann nú um ‘einræðistilburði’. Þegar allt kemur til alls er fólk fífl og það er nú það sem menn óttast. Lýðræðið er hættulegt þar sem lýðurinn samanstendur af fíflum. 

Þegar ég, sem venjulegt fífl, fylli út kjörseðil, þá hugsa ég ekki sem svo: Ja, ég er nú svo mikið fífl að það er best að ég velji mér viturra fólk til að ákveða hvað mér er fyrir bestu. Það sem ég hugsa þegar ég fylli út kjörseðil er: það er best að ég velji þetta fólk, af því að skoðanir okkar á mikilvægum málum fara saman. Við kjósum semsagt fulltrúa sem eru álíka mikil fífl og við sjálf og ef einhver efast um það, bendi ég viðkomandi á að líta aðeins yfir þingheim og athuga hvort hann sér ekki eitthvert fífl á meðal þingmanna.

Ef við treystum ekki almenningi til að greiða atkvæði um mál sem snerta þjóðina alla, þá er heldur ekkert vit í því að leyfa þessum fíflum að velja fulltrúa á Alþingi. Á meðan meðalgreind er ekki nema 100 (og reynið bara að breyta því) þá muuuuuun lýðræðið bera þess merki. Við skulum því annaðhvort sætta okkur við það að fórnarkostnaður lýðræðisins er sá að ýmsar heimskulegar ákvarðanir eru teknar, eða þá að hætta þessari lýðræðishræsni og koma á almennilegu einræði.

Tilgangur lýðræðis er ekki sá að finna gáfulegustu útkomuna í öllum málum, heldur sá að tryggja að sem flestar skoðanir fái vægi. Lýðræðissinnar hlusta á fíflið í næsta húsi vegna þess að þeir vita að þeim sjálfum getur (í undantekningartilvikum) skjátlast. Lýðræðissinnnar trúa því að þótt þeir hafi oftast rétt fyrir sér, muni það til langs tíma skila okkur meiri velferð, frelsi og hamingju að leyfa fíflunum að vera með.

Share to Facebook

1 thought on “Þessvegna eiga fíflin að fá að kjósa

 1. Tjásur:
   
  „Það vil eg að þeir ráði sem hyggnari eru því verr þykir mér sem oss muni duga heimskra manna brögð er þau koma fleiri saman“ sagði forfaðir minn, Ólafur pá, um árið.

  Posted by: Harpa Hreinsdóttir | 21.02.2011 | 9:50:04

  Já og það er heilmikið vit í því. En ef við ætlum að hafa þá hugmynd að leiðarljósi, þá skulum við líka gera það og láta hina vitru (hverjir sem það nú annars eru) ráða, en ekki flagga lýðræðinu þegar okkur hentar og krefjast svo fáræðis þegar skoðanir lýðsins reynast heimskra manna ráð.

  Posted by: Eva | 21.02.2011 | 10:14:18

  Fíflin á þingi neyðast þó til þess að fara í gegnum eitthvað ferli áður en þeir kjósa um mál. T.d. þegar mál fara í gegnum nefnd.

  Veit ekki hvort hin fíflin nenna yfir höfuð að kynna sér það sem kjósa á um.

  Posted by: Matti | 21.02.2011 | 10:18:59

  Og varla voru fíflin í tíð Ólafs Pá, sammála honum um það hverjir væru hyggnir.

  Hver á að velja hina hyggnu? Varla eru fíflin fær um það.

  Posted by: Eva | 21.02.2011 | 10:20:36

  Það sem ég á við er að fífl sem neyðast til að kynna sér mál ítarlega eru betur til þess fallin að taka ákvörðun en fífl sem neyðast ekki til að lesa sér til um málið.

  Posted by: Matti | 21.02.2011 | 10:49:24

  Matti treystir þú fíflum til að velja fífl sem taka kannski aðeins færri fíflalegar ákvarðanir af því að þau eru á launum við að kynna sér málin?

  Posted by: Eva | 21.02.2011 | 11:26:58

  Góð athugasemdi, Eva. Því miður var ekki lýðræði á víkingaskipum (tel það a.m.k. fremur ólíklegt) og skipverjar Ólafs pá höfðu ekki atkvæðisrétt þegar á reyndi. Örn stýrimaður fékk að ráða – í andstöðu við skipverja – og reyndist hafa algerlega rétt fyrir sér um það í hvaða átt Írland væri. Meirihlutinn, þ.e. skipverjarnir óbreyttu, höfðu því miður rangt fyrir sér og hefði verið farið að þeirra vilja hefðu menn sjálfsagt endað þessa sjóferð í maðksjó.

  Posted by: Harpa Hreinsdóttir | 21.02.2011 | 20:43:16

  Harpa, ég er viss um að fyrir hverja sögu af vitringi sem tók rétta ákvörðun er til saga af vitringi sem skjátlaðist. Fyrir utan allar sögurnar af þeim sem hafa misnotað vald sitt.

  Hitt er svo annað mál að ég gæti vel trúað því að upplýst einveldi sé skynsamlegasta og skilvirkasta stjórnarformið og sjálfsagt að láta á það reyna. Ég býð þér því hér með að koma með tillögu um það hver ætti að gegna því embætti.

  Posted by: Eva | 22.02.2011 | 6:14:04

Lokað er á athugasemdir.