Þegar trúleysi verður að trúarbrögðum

atheist-church1-e1380035534136-620x371Í fyrstu hljómar það sem rökleg afstaða til mannsins og heimsins. Maðurinn er dýr, enginn Guð mun koma honum til bjargar eða dæma hann. Eðli hans er að komast sem best af og finna til sín. Heigæjs, greit hugmynd. Sameinumst um hana. Myndum hreyfingu sem boðar þá skoðun að maðurinn sé frjáls, jarðnesk vera, drifin áfram af frumstæðum hvötum, fullkomlega ábyrg fyrir eigin hamingju. Upprætum hindurvitni, hömpum vísindunum.

Og þar sem maðurinn er í eðli sínu hjarðdýr, verður hreyfingin að félagi með fagnaðarerindi, leiðtogum, fylgjendum og kennisetningum. Jábræður verða að söfnuði, trúarbrögð verða til. Þau taka á sig mynd vísindahyggju, húmaískrar einstaklingshyggju, félagslegs Darwinisma, þróast í þjóðernishyggju og þegar þú spyrð hvort það verði ekki að kallast daður við Nasisma er frjáls hugsun ekki lengur hluti af dæminu. Það er allavega stórkostlega varasamt að hafa orð á því. Allar skoðanir trúleysiskirkjunnar eru réttar, þær þarfnast ekki endurskoðunar og munu aldrei þarfnast endurskoðunar. Það stendur í bókinni, leiðtoginn sagði það, sjáðu bara táknin sem segja það líka. Táknhyggja verður að dulhyggju. Dulhyggjan krefst goðmagna. Hjátrú verður til.

Þessvegna getur trúleysi aldrei orðið að trúarbrögðum. Trúarbrögð bæla alltaf sjálfstæða hugsun. Þar sem tveir trúleysingjar koma saman, þar er hætta á hjarðmyndun. Þar sem tveir trúleysingjar heyja bardaga saman, þar er vísir að kirkju. Og þá er ekki lengur hægt að kalla það trúleysi.

Trúlaus maður dæmir því sjálfan sig til hugarfarslegs sjálfstæðis. Það getur verið einmanalegt og þarf töluvert hugrekki til að standa undir því.

 

Share to Facebook