„Það var búið að lofa henni ráðherrastól“

Katrín Júlíusdóttir búin með barneignafríið og nú þarf að stokka upp ríkisstjórnina af því að „það var búið að lofa henni ráðherrastól“. Fyrirgefið en hver er þessi „það“ sem lofaði henni ráðherrastól og með hvaða rétti?

Nú sé ég margra halda því fram að hún eigi eins og aðrir launamenn rétt á því að halda starfinu sínu þótt hún fari í barneignafrí. Þeir hinir sömu virðast líta fram hjá tvennu:
a) Ráðherra er ekki almennur launamaður.
b) Almennir launamenn búa við þann veruleika að þegar störf þeirra eru lögð niður þá er þeim sagt upp.

Ráðherraembætti er valdastaða. Enginn á tilkall til slíkrar stöðu, sem sést best á því að flokkarnir versla með ráðherrastóla sín á milli og braska jafnvel með þá á miðju kjörtímabili án þess að þeir sem í þeim sitja hafi nokkuð um það að segja. Þessi staðreynd vekur svo aftur spurningar um það hversu miklvægt starf ráðherra er eiginlega. Ef það er ekki meira mál að setja sig inn í starfið en svo að það sé hægt að hringla með þessi embætti eftir því hvernig stendur í bólið hjá stjórnmálaflokkunum, eða jafnvel bara af því að „það var búið að lofa“ einhverri manneskju embætti, er þá yfirhöfuð ástæða til að halda þessum embættum í núverandi mynd?

Einnig er umhugsunarvert að forsætisráðherra ætli að leysa málið innan Samfylkingarinnar. Í þingræðisríki væri eðlilegast að það yrði leyst á Alþingi. Á Íslandi ríkir hinsvegar flokksræði.

 

Share to Facebook

1 thought on “„Það var búið að lofa henni ráðherrastól“

Lokað er á athugasemdir.