Þá þótti mér mannrán góð hugmynd

Það hefur líklega verið árið 1990 sem ég frétti af dvalarstað þekkts barnaníðings og hugmynd kom upp í mínum vinahópi. Hefði hún náð fram að ganga hefði ég sent þáverandi dómsmálaráðherra nafnlaust bréf sem hefði verið á þessa leið:

Þar sem réttarkerfið býður ekki upp á nein ráð til þess að takast á við barnaníðinga önnur en að loka þá inni og hleypa þeim svo út aftur jafn hættulegum og þeir komu inn í fangelsið, og þar sem enginn áhugi virðist vera fyrir því hjá ráðuneytinu að bæta úr því, ætlum við að þvinga þig til þess.

 

Við höfum handtekið Steingrím Njálsson og flutt hann á öruggan stað þar sem hann getur ekki orðið neinum að meini. Hann er vandlega hlekkjaður, hefur hjá sér vikuskammt af matvælum og vatni, fötu undir úrgang, dýnu og teppi, auk þess krosssgátur og tímarit sér til afþreyingar.

 

Þú hefur nú viku til þess að sjá til þess að sett verði lög um að „viðeigandi stofnun“ verði tekin í gagnið innan 6 mánaða og/eða aðrar lausnir sem tryggja að barnaníðingum og öðrum ofbeldismönnum verði ekki hleypt út á meðan ekkert hefur komið fram sem gefur ástæðu til að ætla að þeir muni láta af háttalagi sínu. Verði slík lausn ekki fundin innan viku er það á þína ábyrgð ef maðurinn þarf að svelta því við munum ekki vitja um hann. Við munum koma upplýsingum um dvalarstað hans til lögreglu um leið og lögin hafa verið staðfest.

Þessi hugmynd varð til í litlum hópi sem hafði ekki döngun í sér til þess að fremja mannrán í þágu málstaðarins. Þótt mér þyki mannrán ekki lengur sérlega góð hugmynd og þótt mikið þyrfti til þess að ég fengist til að skilja mann eftir bjargarlausan, án möguleika á að leita sér hjálpar ef hann skyldi veikjast, hugsa ég stundum um það hvort svona aðgerð hefði getað bjargað einhverju barni frá því að lenda í klóm nauðgara. Það er nefnilega svo ömurlegt að á meira en tveimur áratugum hefur sáralítið breyst í þessum málaflokki nema það að með netvæðingunni er orðið auðveldara að ofsækja kynferðisbrotamenn. Hvort þær ofsóknir hafa komið í veg fyrir glæpi veit ég ekki en ég er viss um að þeir dómar sem felldir eru yfir slíkum mönnum í netheimum hafa allavega ekki auðveldað þeim að leita sér hjálpar áður en skaðinn er skeður.

Ragnar Þór Pétursson birti í gær stórgóða grein sem ég hvet alla til að lesa. Auðvitað þykjast einhverjir geta lesið úr orðum Ragnars Þórs uppástungu um að barnanauðganir verði lögleiddar og níðingum boðin vinna á leikskólum. Ég hef fengið samskonar dóma þegar ég hef bent á að útskúfun geri kynferðisofbeldismönnum í raun ómögulegt að horfast í augu við hneigðir sínar og gjörðir. Þröngsýnt fólk telur víst að sá sem finnur til meðúðar með úrhrakinu hljóti þar með að samþykkja hegðun þess.

Þess væri óskandi að hinn forvarnaglaði innanríkisráðherra landins beitti sér fyrir því að koma á „forvirkum meðferðarúrræðum“ fyrir þá sem eru haldir barnagirnd (og helst alla sem finna fyrir ofbeldishneigð af einhverju tagi). Markviss meðferð er ekki í boði og væntanlega þurfa þeir sem leita sér aðstoðar að greiða fyrir lyf og sálfræðimeðferð. Að sjálfsögðu þarf einnig að koma á „viðeigandi meðferð“ fyrir dæmda barnaníðinga. Það hefur ekki leyst neinn vanda að geyma þá í tiltekinn tíma í fangelsi og hleypa þeim svo út í heim þar sem enginn vill neitt með þá hafa.

Ögmundur ætti að drífa í því sem fyrst að koma þessum málum í viðunandi horf. Það gæti nefnilega komið að því að almennir borgarar grípi til sinna ráða og þeir eru hreint ekki fáir sem telja ofsóknir, pyntingar og jafnvel dauðarefsingar, jafngóða hugmynd og mér þótti mannrán fyrir meira en tuttugu og þremur árum. Og það er heldur ekki tryggt að næsti hópur sem fær þá grillu í höfuðið að taka lögin í sínar hendur verði ung móðir, reynslulaus, bílprófslaus og tilheyrandi vinahóp þar sem enginn er fær um að beita ofbeldi.

 

 

Share to Facebook