Táknhyggja 101

Auðvitað ertu trúuð. Allir hafa einhverja trú og mér er nokk sama hvort það er trú á Gvuð eða rúnir, það er trú samt, sagði hann og þetta er hvorki í fyrsta sinn né það hundraðasta sem ég heyri þessa kenningu.

Hér með tilkynnist; táknhyggja er ekki trú. Það er skiljanlegt að fólk haldi það því táknhyggja og galdur gegnir mikilvægu hlutverki innan trúarbragðanna. Það gerin listin líka en engu að síður þarf ekki trú til að skrifa tónlist eða bókmenntir eða mála myndir.

Flestir, ef ekki allir nota tákn á einhvern hátt, trúaðir sem trúlausir. Þegar karlmaður gefur konunni sinni rósir er hann að segja; þú ert falleg og ég elska þig. Hann gæti sagt það með orðum og vonandi gerir hann það líka en þessi táknræni gjörningur, að gefa blóm, skiptir hann máli. Eða þá að hann telur (réttilega) að það skipti hana máli. Að gefa konu rósir er þó ekkert merki um að maðurinn sé í neinum tengslum við gvuðdóminn.

Ég hef knýjandi þörf fyrir að skrifa. Stundum vakna ég til þess á næturnar. Ég hef haft þessa þörf frá því að ég fór að valda penna. Strax á þriðja ári hafði ég meiri áhuga á að teikna bókstafi en hausfætlur. Ég veit hvar skáldskapurinn býr. Hann býr eins og allar aðrar hugmyndir í höfðum manna. Engu að síður þarf ég hjálpartæki til að skrifa ljóð. Ég á voðalega erfitt með að skrifa ljóð nema ég haldi á penna. Lyklaborð gerir ekki sama gagn. Stundum finnst mér ég vera með skáldskaparlegt harðlífi. Ég er með ljóð í maganum en kem því ekki í orð. Þegar það gerist sæki ég mér ‘innblástur’ í félagsskap ákveðins fólks, með því að heimsækja ákveðna staði eða neyta ákveðinnar fæðu. Þetta er voða klikkað og hreint ekki vísindalegt en ég hef þetta nú svona samt.

Ég geri mér grein fyrir því að ljóðið er ekki í pennanum. Elías hefur aldrei sagt mér hvað ég ætti að skrifa og ég held ekki að hann sé gvuðdómleg vera en engu að síður hefur návist hans orðið mér uppspretta ágætra texta. Ég held ekki að skáldgyðjan búi í Heiðmörk eða að þar séu englar á sveimi. Ég hef heldur enga trú á því að það séu skáldskaparörvandi efni í túnfiski. Af einhverjum ‘dularfullum’ ástæðum virka þessir hlutir samt fyrir mig og það er Gvuði alls óviðkomandi. Það er heldur ekkert vísindalegt við það. Menn geta tautað eitthvað um sálfræði í þessu sambandi en sálfræðin, þrátt fyrir sitt vísindalega yfirbragð er á köflum álíka áreiðanleg og trúin. Það sem virkar, fyrir mig, stenst ekki vísindalega rannsókn. Ef hundrað skáld yrðu send upp í Heiðmörk, með Elías, penna og túnfiskdós, er næsta víst að nákvæmlega ekkert kæmi í ljós sem staðfesti tengsl þessara fyrirbæra við ljóðagerð. Tengsl minna skrifa við þessar aðstæður eru hvorki vísindaleg né trúarleg, hér er enginn Gvuð í spilinu, heldur á þetta meira skylt við táknhyggju eða galdur.

Töfragripir gegna í mínum huga samskonar hlutverki og penninn. Verndargripur er hlutgerð hugmynd. Venjulega sú hugmynd að maður hafi ekkert að óttast eða að maður bjargist ef maður lendir í vandræðum. Slíkir gripir geta verið trúartákn en þurfa alls ekki að vera það. Krossinn er trúartákn. Hann stendur fyrir þá hugmynd að Gvuð muni ekki yfirgefa manninn á ögurstundu. Reyndar mjög flippuð niðurstaða, þar sem gaurinn var altso krossfestur og dó, en ég er löngu hætt að reyna að botna í rökvísi kristindómsins. Ægishjálmur er einnig verndartákn en hann táknar þá hugmynd að hugrekki mannsins og hæfileiki hans til að hræða óvini sína, verði honum til bjargar. Enginn Gvuð þar. Auðvitað er engin vernd í tákninu sem slíku. Ekki fremur en ljóð í pennanum. Verndagripur gefur manni þannig ekki leyfi til að sleppa því að spenna öryggisbeltið. Hann gæti hinsvegar þjónað því hlutverki að minna mann á það.

Á sama hátt býr maðurinn sér til heillagripi af ýmsu tagi. Hann verður sér úti um hlut og tengir við hann hugmyndir um velgengni og viljastyrk. Stundum er árangurinn enginn, stundum nánast dularfullur. Niðurstaðan er þó alltaf sú að tákið GERIR EKKERT. Maðurinn gerir, gripurinn er aðeins hjálpartæki. Sumum finnst gott að handleika slípaðan stein þegar þeir þurfa að beita sjálfa sig aga til þess að neita sér um að graðga í sig hálfu kílói af súkkulaði. Fínt ef það virkar, skaðlaust ef það virkar ekki. Það er hinsvegar ekki til neinn steinn sem ‘hreinsar orkuna í kringum mann og losar mann við sælgætisfíkn’ eins og þekktur steinasafnari komst einhverntíma að orði. Ef steinar sem slíkir losuðu mann við löngun í sætindi, væru þeir sem bera slíka steina grannir og það getur verið skaðlegt að trúa því að steinar geri eitthvað óháð manninum.

Sá sem notar galdra og töfragripi er sannfærður um að það hjálpi honum. Þegar galdramaðurinn veit nákvæmlega hvað hann vill, býr hann sér til einhverskonar athöfn eða nær sér í töfragripi. Hann upplifir undarlegar tilviljanir og hann sannfærist um einhverskonar samhengi þar á milli. Hann getur ekki sannað það og auðvitað ætti honum að standa hjartanlega á sama hvort aðrir sjá þetta samhengi eða ekki. Hann fékk það sem hann vildi. Þar með er tilgangnum náð.

Sá sem trúir á galdra verður upptekinn af táknum og tilviljunum. Hann fer að trúa því að hann geti með táknum og táknrænum athöfnum haft stjórn á aðstæðum sem fólk hefur venjulega ekki stjórn á. Hann getur jafnvel sannfærst um hæfni sína til leggja bölvun á annað fólk. Þegar einhver leikur hann virkilega grátt og engar iðrunar og yfirbótar er að vænta, þá getur galdramaðurinn tekið upp á því að óska honum ills, t.d. dauða, offitu, andstyggilegs maka eða samviskubits. Hann getur ákallað Gvuð, Satan eða aðra ára sem hann kann að trúa á eða hann getur ‘sent honum illa strauma’ (sem hefur t.d. gagnast mér prýðilega). Þannig afgreiðir hann reiðina og þjáninguna og getur snúið sér að því að gera eitthvað uppbyggilegra. Mér að sársaukalausu má alveg eins kalla þetta sækóþerapíu, ef einhverjum líður betur með að klína vísindaheiti á athöfnina.

Þetta hljómar allt saman ósköp kjánalega, sérstaklega sú trú að reiði manns hafi áhrif á einhvern sem hvorki sér mann né heyrir í manni en þegar fórnarlambið, nokkrum vikum eða mánuðum síðar, fær nákvæmlega það sem galdramaðurinn óskaði eftir, brosir hann í kampinn. Hann er ekkert endilega að tíunda árangurinn við Pétur og Pál, enda hentar það honum prýðilega að fólk telji hann vera meinlausan. Kannski gerist ekkert og þá það. Ef maður er ennþá reiður er alltaf hægt að verða sér úti um góðan haglara síðar. Það kemur líka oft fyrir mig að sitja með penna í hönd án þess að stórvirkin flæði út úr honum en mér hefur aldrei dottið í hug að það merki að ég hafi enga skáldskaparhæfileika.

Ég hef ekki hundsvit á stjarneðlisfræði. Ég er nokkuð sátt við að hafa enga þekkingu á stjarneðlisfræði og finn ekki hjá mér neina hvöt til að útskýra gang himintungla með vilja Gvuðs eða öðrum andlegheitum. Ég veit að stjörnurnar hanga einhvernveginn þarna uppi og munu líklega ekki detta ofan á mig. Það er mér nóg. Ég veit líka að galdrar virka. Fyrir þá sem nota þá. Allavega stundum. Og töfragripir. Áreiðanlega bænir líka. Að einhverju leyti. Þetta eru náttúrulega ekki vísindi og það er alveg sama hversu margir internetloddarar reyna að selja þér ‘quantum-mind- power-effortless-spiritual-money-in-one-month-super-mighty-mega-system, scientifically-proven-facts, just-read-these- hundreds-of-success-stories’, ekkert slíkt er á nokkurn hátt vísindalegt, jafnvel þótt eitthvað af því kunni í einhverjum tilvikum að hafa virkað fyrir einhvern.

Það að ekki sé hægt að sanna galdur vísindalega þýðir SAMT EKKI að við séum til neydd að skýra töfra með inngripi Gvuðs eða annarra goðmagna. Hvaða fokkans þráhyggja er það eiginlega að allt sem við skiljum ekki hljóti að vera yfirnáttúrulegt, dulrænt, andlegt eða gvuðdómlegt? Hvað er að því að viðurkenna að sumt bara vitum við ekki? Við sem höfum reynslu af galdri erum sannfærð um að hugsanir og tilfinningar hafi áhrif sem ekki hafa verið skýrð með venjulegu orsakasamhengi. Við vitum líka að töfragripir, galdrathafnir og bænir, gera nákvæmlega ekkert nema maður rífi sig upp af rassgatinu og geri eitthvað sjálfur en við trúum því að undarlegar tilviljanir séu oft eitthvað meira en tilviljanir. Við vitum ekki hvað meira. Margir reyna að skýra það en engum hefur tekist að setja fram vísindalega skýringu enn. Sjálf hef ég enga trú á að gvuðir, djöflar eða andar hinna framliðnu eigi þar hlut að máli. Ég trúi því ekki einu sinni að það sem gerist sé á nokkurn hátt yfirnáttúrulegt. Ég trúi því að ástæðan fyrir því að rósir, pennar, töfragripir og galdraþulur virka fyrir mig, sé ósköp einfaldlega eitthvað sem vísindin eigi eftir að skýra og ég hef ekki rassgats meiri áhyggjur af vanhæfni minni til að skýra það en þekkingarskorti mínum á stjarneðlisfræði.

Share to Facebook

1 thought on “Táknhyggja 101

 1. ———————–

  Töfrar virka.
  Allir galdrarnir sem þú hefur gefið mínum guttum svínvirka -fyrir þá-

  Kveðja Amma Hulla og Hulla litla 🙂

  Posted by: Hulla | 26.03.2008 | 10:55:17

  —   —   —

  Mér finnst munur á því að trúa á eitthvað og að tilbiðja eitthvað

  Posted by: baun | 26.03.2008 | 13:44:56

Lokað er á athugasemdir.