Sundstofa?

hí

Vísindin efla alla dáð, segja þeir. Það gladdi mig því ósegjanlega að sjá þessa frétt (Fréttablaðið, 25. okt. 2013, bls. 6) af nýrri vísindastofnun; Sundstofu.

Vilja skilja sund í samfélaginu

Þjóðminjasafn Íslands í samvinnu við Háskóla Íslands sendir þessa dagana út spurningaskrá um sundlaugamenningu, sem er hluti af stærri rannsókn sem meistaranemar og kennarar úr þremur deildum Háskólans taka þátt í.
Rannsóknin er á vegum Sundstofu og er áætlað er allmargar meistararitgerðir verði unnar í tengslum við hana.
Tilgangurinn er að safna almennum upplýsingum um sundlaugaferðir, sundkennslu, samskipti og hegðun á sundstöðum og líðan fólks í sundlauginni og heita pottinum.

Hvert er hlutverk Sundstofu?

Stofnun Sundstofu og auglýsing um forstöðumann hennar fóru fram hjá mér. Reyndar hafði ég aldrei heyrt um „Sundstofu“ fyrr en ég sá þessa frétt.

Ég veit ekki hvaða vandamál hafa skapað þörfina á Sundstofu, eða hvert hlutverk hennar er, fyrir utan það að sinna rannsóknum, en mig langar að vita það.  Mig langar að vita hvort Sundstofustjóri sé hugsaður sem nokkurskonar „umboðsmaður syndara“ eins og einhver orðaði það á fésinu í gær, eða hvort honum er ætlað að vera talsmaður  borgaryfirvalda, Félagsvísindastofnunar eða hvað.   Mig langar að ná tali af Sundstofustjóra en ég finn Sundstofu ekki með leitarvélinni á vefsíðu Félagsvísindastofnunar og Gúggull vinur minn kannast ekki við hana heldur. Sundstofa mun þó vera staðreynd því einnig er sagt frá henni og þessari rannsókn ávef Þjóðminjasafnsins.

Hvað er verið að rannsaka?

Spurningalistinn á vef Þjóðminjasafnsins mun vera hluti af þverfaglegri rannsókn þriggja háskóladeilda en ekki kemur fram hvaða deildir það eru. Tilgangurinn með henni er sá að safna ýmsum upplýsingum um sundferðir þar sem þörf sé á því að „skilja sund í samfélaginu“.  Ég hlakka til að sjá hverjar rannsóknarspurningarnar eru og komast að því hvort uppi eru einhverjar tilgátur um hegðun og viðhorf sundlaugagesta.

Niðurstöðurnar heilla mig síður enda finnst mér sú aðferð sem lýst er á vef Þjóðminjasafnsins ekki gefa tilefni til að ætla að hún muni leiða neitt í ljós um almenn viðhorf eða hegðun sundgesta. Nú er auðvitað hugsanlegt að ætlunin sé að velja úrtak samkvæmt vísindalegum aðferðum en af textanum á vef Þjóðminjasafnsins má helst skilja að úrtakið sé einfaldlega þeir sem hafa nógu mikinn áhuga á málinu til að fara að eigin frumkvæði inn á vef Þjóðminjasafnsins og svara mörgum og löngum ritgerðarspurningum. Svo virðist vera sem búist sé við mikilli þátttöku þar sem „vönduð svör“ fara í sérstakan lukkupott og glæsileg verðlaun eru í boði.

Spurt er um ýmislegt varðandi hegðun og viðhorf sundlaugagesta. Þetta eru um 30 verkefni, flest frekar opin og bjóða upp á persónuleg svör. Hér eru dæmi:

Segðu frá dæmigerðri heimsókn á sundstað og lýstu því hvað þú gerir á hverju svæði fyrir sig (anddyrinu, klefanum, sturtunni, sundlauginni, djúpu lauginni, barnalauginni, heitu pottunum, gufunni o.s.frv.).

Hvaða áhrif hefur það á líðan þína eða samskipti við aðra sundgesti hvað allir eru lítið klæddir? Hagar þú þér öðruvísi en þú myndir gera fullklædd(ur) úti á meðal fólks? Hvernig? Hvaða dæmi þekkir þú um að þetta hafi áhrif á líðan og hegðun annarra sundgesta?

Tala sundgestir um mismunandi hluti á ólíkum svæðum í lauginni? Um hvað?

Getur sundbúnaður eða aðrir þættir í fari sundgestsins gefið vísbendingar um stöðu eða persónuleika viðkomandi? Með hvaða hætti?

Hefur þú skoðanir á líkamsumhirðu annarra sundgesta? Getur þú nefnt dæmi?

Hvað á svo að gera við upplýsingarnar?

Fyrirfram er vitað að svörin við þessum spurningum verða efni í allmargar meistararitgerðir enda bjóða spurningarnar upp á óvænt og áhugaverð svör. Fólk er jú svo misjafnt. Sjálf skipti ég t.d. um föt í búningsklefanum og þvæ mér í sturtunni en væntanlega hafa margir sundlaugagestir annan hátt á, afklæðast t.d. í anddyrinu og þvo hárið í gufunni. Þetta þarf að rannsaka.

Þá má búast við að svör sundlaugagesta um áhrif nektar leiði í ljós mikinn og áhugaverðan mun eftir samfélagsstöðu. Ég er nú þannig gerð að ef ég hitti nána aðstandendur af tilviljun í sundi, þá hika ég við að fljúga upp um hálsinn á þeim og knúsa þá eins og geri á förnum vegi en ætla má að sú fjarlægð sem ég held jafnan við nakið fólk sé bundin stétt minni og stöðu. Það mun eflaust verða samfélaginu til hagsbóta að greina þær félagslegu hömlur sem hindra suma í því að hegða sér eins í sundlaugum og á götum úti.

Tengsl persónuleika og sundbúnaðar er ekki síður rannsóknarefni. Ég tel sýnt að fjólublá sundhetta vísi á slægð og undirferli og að rautt bikini gefi til kynna að sú sem því skrýðist sé hin mesta léttúðardrós. Áhugavert rannsóknarefni fyrir meistaranema.

Einnig dettur mér í hug að ef þátttakendur telja að konur tali oft um hársnyrtivörur í búningsklefanum en sjaldan í barnalauginni, þá gefi það meistaranemum tilefni til þess að rannsaka hvað það sé í aðbúnaði sundgesta sem gerir barnapottinn svo hárvörufjandsamlegan.

Mér finnst erfiðara að giska á hvernig Sundstofa hyggist nýta upplýsingarnar. Ef kemur í ljós að sundgestir hafi skoðanir á líkamsumhirðu annarra sundgesta, finnist t.d. langar táneglur ógeðslegar, mun þá Sundstofa gangast fyrir sjálfstyrkingarnámskeiðum fyrir þá sem finnst tánaglahirða annarra koma sér við en kunna ekki við að gera athugasemdir? Mér finnst það ótrúlegt en hvað veit ég?

Ég hyggst leita svara við þessum spurningum og ýmsum öðrum sem hafa vaknað við lestur þessa frábæra vísindaverkefnis. Ég er búin að senda inn fyrirspurnir um netfang Sundstofu, bæði til Félagsvísindastofnunar og á netfangið sem gefið er upp á vef Þjóðminjasafnsins en hef ekki enn fengið svar. Það er kannski ekki við því að búast þar sem er minna en sólarhringur síðan ég sendi póstinn en vonandi fæ ég svar fljótlega og mun upplýsa lesendur um leið og svör berast.
——
Uppfært:  Ég hef nú fengið svar frá starfsmanni Þjóðminjasafns sem gat gefið mér netfang forsvarsmanns Sundstofu. Ég hef nú sent honum nokkrar spurningar. Ég fékk sjálvirkt svar um hæl, hann er í vinnuferð og mun því hafa takmarkað aðgengi að tölvupósti næstu tvær vikurnar. Sem er auðvitað skiljanlegt ef verkefni hans felst í því að kanna hegðun og búnað sundlaugargesta því ekki getur hann tekið tölvuna með sér í heita pottinn. Ég vonast þó eftir svörum þegar hann snýr til baka.
Share to Facebook