Stjórnmálaáhugi gerir mann ekki að pabbadreng

Lengi skildi ég orðið pabbadrengur um fullorðna menn á þann hátt að átt væri við mann sem hefði fengið auð og völd upp í hendurnar fyrirhafnarlaust vegna sterkrar stöðu föður síns. Nú heyrir maður þetta orð notað um börn stjórnmálamanna sama hversu sjálfstæð þau eru. Ef einhver styður sama flokk og faðir hans, hlýtur hann að vera „pabbadrengur“. Jafnvel þeir sem styðja einhverja allt aðra flokka eða stofna jafnvel sína eigin, eru sagðir „pabbadrengir“. Ég sé t.d. netverja tala um Guðmund Steingrímsson sem „pabbadreng“ enda þótt skoðanir hans í veigamiklum málum séu verulega á skjön við stefnu Framsóknarflokksins og hann hafi aldrei náð að fóta sig innan hans.

Fólk verður alltaf fyrir áhrifum af þeim skoðunum og lífsgildum sem það elst upp við og það er líka algengt að fólk tileinki sér áhugasvið foreldra sinna. Það bendir ekki til þess að fólk sé ósjálfstætt heldur til þess að það hafi haft samskipti við aðra á heimilinu. Vonandi endurskoða sem flestir hugmyndir foreldra sinna en jafnvel þótt þeir komist að nokkurnveginn sömu niðurstöðu, getur hún vel byggst á gagnrýninni athugun. Börn stjórnmálamanna hafa aukinheldur alveg sama rétt og aðrir á því að hafa áhuga á stjórnmálum og velja sér þau sem starfsvettvang.

Það er fremur svona ómerkilegt að gera lítið úr fólki og stjórnmálaþátttöku þess með því að vísa til ættarsögunnar. Það er yfirleitt auðvelt að gagnrýna stjórnmálamenn á merkilegri forsendum.

Share to Facebook

One thought on “Stjórnmálaáhugi gerir mann ekki að pabbadreng

Lokað er á athugasemdir.