Stjórnarskrártillagan er ónothæf

„Konur og karlar skulu njóta jafnréttis í hvívetna, með þeim takmörkunum sem settar eru með lögum.“

Hvernig ætli landanum litist á þetta ákvæði í stjórnarskrá ríkis sem fylgir Sharía lögunum?

26. gr. frumvarps til stjórnarskrár fjallar um dvalarrétt og ferðafrelsi. Hún hljóðar svo

„Allir skulu ráða búsetu sinni og vera frjálsir ferða sinna með þeim takmörkunum sem eru settar með lögum.

Engum verður meinað að hverfa úr landi nema með ákvörðun dómstóla. Stöðva má þó brottför manns úr landi með lögmætri handtöku.

Með lögum skal kveða á um rétt flóttamanna og hælisleitenda til réttlátrar og skjótrar málsmeðferðar.“

Þau lög sem nú gilda um meðferð flóttamanna eru í hróplegu ósamræmi við alþjóðlega mannréttindasáttmála. Þegar flóttamaður kemur til landsins er hann umsvifalaust hnepptur í gæsluvarðhald, sem er í raun fangavist án sannana um sekt og á einungis að nota sem neyðarúrræði ef maður er annað hvort umhverfi sínu hættulegur eða líklegur til að spilla rannsókn máls, gangi hann laus.

Þótt sé út af fyrir sig fagnaðarefni að aðrir en alþingismenn hafi komið að gerð nýrrar stjórnarskrár, eru allt of mörg ákvæði í henni sem setja valdið í hendur löggjafans. Það er allt eins hægt að vera án stjórnarskrár eins og að hafa stjórnarskrá sem kveður á um að alþingi geti hvort sem er haft hlutina eftir sínu höfði.

Ég er ósátt við 19. greinina en sennilega myndi ég ekki láta hana eina hindra mig í því að styðja nýja stórnarskrá. Það eru hinsvegar of mörg dæmi í þessari stjórnarskrártillögu um að sjálfsögð réttindi megi takmarka ef yfirvaldinu hentar. Tilgangur stjórnarskrár er sá að leggja línurnar fyrir löggjafann en ekki að færa honum völd, allra síst völd til að misvirða mannréttindi eins og 26. greinin gerir. Þessvegna segi ég nei.

Share to Facebook