Sigurvegarinn er sá sem vinnur

Vinstri græn eru ekki sigurvegarar kosninganna. Það er auðvitað gaman fyrir stjórnmálaflokk að bæta við sig fylgi en eini sigurvegari kosninganna er sá sem fær að ráða. Sjálfstæðisflokkurinn.

Í pólitík skiptir ekki öllu máli hvernig maður kemst í mark. Akandi, ríðandi eða skríðandi, þetta virkar allt. Aðalmálið er að fá að ráða þegar upp er staðið. Sjálfstæðismenn unnu af því að stór hluti þjóðarinnar (að vísu ekki meiri hlutinn en nógu stór til að íhaldið heldur velli) lýsti því yfir að hann vilji:
-áframhaldandi þátttöku Íslands í stríði á hendur fólki sem hefur ekki gert okkur neitt
-mylja undir þá sem síst þurfa á því að halda
-eyðileggja hverja einustu náttúruperlu landsins í örvæntingarfullri von ríka mannsins um skjótfenginn gróða

Við hin kunnum að vera ósátt við þetta val. Okkur finnst kannski óréttlátt að menn geti myndað ríkisstjórn sem hefur ekki meirihlutafylgi. En þetta er bara það lýðræði sem við búum við. Engin lög verða brotin þegar Íhaldið réttir rassgatið að trýni Framsóknarrakkans.

Við ættum nú í rauninni bara að leyfa þeim að njóta sigursins í stað þess að blása út fylgi VG eins og það sé eitthvað merkilegt við að 18% þjóðarinnar telji sig jafnréttis-, friðar- og umhverfissinna. Ef við værum í alvöru ósátt við þetta myndum við auðvitað fremja byltingu. En það mun aldrei verða. Ekki á meðan lýðurinn hefur greiðan aðgang að skyndibitastöðum, fréttamenn sjá okkur reglulega fyrir einhverju hneykslismáli til að klæmast á og nóg framboð er af raunveruleikaþáttum og annarri afþreyingu.

Lýðurinn VILL nefnilega ekki umgangast náttúruna af virðingu. Hann VILL ekki útrýma kynbundnum launamun eða biðlistum hjúkrunarheimila og sjúkrahúsa. Okkur þætti svosem alveg ágætt að hafa betra heilbrigðis- og velferðarkerfi, svo framarlega sem við þyrftum ekki að fórna neinu til þess en það er enginn raunverulegur vilji á bak við þá ósk. Það sem lýðurinn raunverulega vill er aðeins tvennt. Brauð og leikar.

Share to Facebook

One thought on “Sigurvegarinn er sá sem vinnur

  1. ————————————

    þetta er sárara en tárum taki…

    Posted by: hildigunnur | 14.05.2007 | 13:39:54

    ————————————————————–

    Virkaði fyrir keisarann í Róm 🙂

    Posted by: Guðjón Viðar | 14.05.2007 | 14:23:30

    ————————————————————–

    Og það var ekki 18% heldur 14,3% hjá VG. Það þýðir væntanlega að 86.7% af þjóðinni sé EKKI jafnréttis,friðar og umhverfissinna 🙂 Þar að auki heyrist mér á málflutningi þíns „great beloved leader“ að hann sé ólmur í að „rétta sitt rassgat að trýni Framsóknarrakkans“. Skrítin tík þessi pólitík.

    Posted by: Guðjón Viðar | 14.05.2007 | 15:21:16

    ————————————————————–

    ég hef miklar áhyggjur, nú verður haldið áfram með helv. stóriðjustefnuna.

    er annars bara dofin og dauf í dálkinn og eitthvað vonlaus í dag.

    Posted by: baun | 14.05.2007 | 15:30:46

    ————————————————————–

    Þeir sem kusu Íslandshreyfinguna telja sig líka jafnréttis- og umhverfissinna. Afstaða þeirrar hreyfingar til friðarmála er reyndar ekki alveg eins ljós.

    Æ Baun, það er alveg tilgangslaust að vera að ergja sig á þessu. Það eina sem virkar er að safna liði sem er til í að taka þátt í beinum aðgerðum.

    Posted by: Eva | 14.05.2007 | 16:13:06

    ————————————————————–

    Já nú erum við „lýðurinn“ í góðum málum. Lausir við skelfinn Skallagrím.

    Posted by: Sveinn | 14.05.2007 | 19:38:06

    ————————————————————–

    Eva, ég skal taka þátt í beinum aðgerðum! Klárt.

    Posted by: hildigunnur | 14.05.2007 | 21:28:47

    ————————————————————–

    Langar til að smella á þig vinkona tengli á kollega minn Jakob. Ég er verulega sammála honum varðandi „beinar aðgerðir“ http://jakobsmagg.blog.is/blog/jakobsmagg/entry/212037/

    Posted by: JÓN Kjartan Ingólfsson | 16.05.2007 | 21:46:33

    ————————————————————–

    Elsku JK. Það er margbúið að sanna sig að sú aðferð að „ræða málin eins og fullorðið fólk“ hefur ekkert að segja. Þeir sem valdið hafa valta yfir þá valdalausu og eina leiðin til að sporna gegn því er að taka sér vald. Samningar og málamiðlanir virka aðeins þar sem deiluaðilar hafa jafna stöðu.

    Posted by: Eva | 17.05.2007 | 15:56:37

    ————————————————————–

    Jú – en það er jú þannig að þeir sem valdið hafa ráða. Þeir hafa verið kosnir lýðræðislega til þess. Það einhver minnihluti reyni með ofbeldi að fá sínum skoðunum framgengt er svona einhversstaðar á skalanum frá frekju yfir í hermdaverkastarfsemi. Þú hlýtur, fjandinn hafi það, að vera sammála þessu – svona heilt yfir. Ekki gengum að fara alltaf að óskum minnihlutans – meirihlutinn hlýtur að eiga að ráða. Annað er bara asnalegt.

    Posted by: Jón Kjartan | 18.05.2007 | 11:11:54

    ————————————————————–

    Ég kannast nú reyndar ekki við að aktivistar á Íslandi hafi nokkru sinni beitt ofbeldi í sínum aðgerðum.

    Ég er sammála því að meirihlutinn eigi alla jafna að ráða. Það er einfaldlega þægilegast. Hitt er svo annað mál að þetta svokallaða lýðræði sem við búum við tryggir meirihlutanum ekki nein völd. Auk þess er það deginum ljósara að meirihlutinn hefur ekki alltaf rétt fyrir sér. Það var ekki meirihlutinn sem barðist fyrir því að konur fengju kosningarétt og það var ekki meirihlutinn sem beitti sér fyrir afnámi þrælahalds. Afstaða meirihlutans í þeim efnum var ekkert réttari þótt margir fylktu sér um hana.

    Íslensk stjórnvöld hafa tekið stórar ákvarðanir sem varða ekki bara okkur heldur líka komandi kynslóðir án þess að spyrja þjóðina álits. Í umhverfismálum og hernaðarmálum hafa þau gengið fram með valdníðslu. Meirihlutinn virðist algerlega dofinn fyrir þeirri staðreynd og þegar minnihlutanum ofbýður getur hann aðeins gripið til borgaralegrar óhlýðni eða beinna aðgerða. Sú aðferð „að ræða málin“ er fullreynd, a.m.k. hér á landi.

    Posted by: Eva | 18.05.2007 | 14:28:47

Lokað er á athugasemdir.