Réttlætið er fyrir hina ranglátu

Stundum vill það gleymast að mannréttindi voru ekki fundin upp fyrir góða fólkið, þá sem verðskulda réttlæti, heldur fyrir þá sem ofbjóða réttlætishugmyndum stjórnvalda og/eða almennings.

Stundum horfa menn fram hjá því að æðsta regla réttaríkissins, hver maður skal teljast saklaus uns sekt hans er sönnuð, var ekki búin til fyrir þá sem við teljum saklausa, heldur hina sem við teljum seka.

Grundvöllur allra mannréttindasáttmála sem og þess réttarkerfis sem við búum við, er ekki réttlæti í þeirri merkingu að enginn skuli sleppa við verðskuldaða refsingu heldur mannúð og mildi. Mannúð sem gerir ráð fyrir að betra sé að hinir verstu þrjótar sleppi við verðskuldaða refsingu en að einum verði refsað að ósekju. Réttlæti Jehóva tilheyrir gamla testamentinu og til mikillar blessunar hefur Þjóðkirkjan að verulegu leyti „túlkað það burt“ eins og séra Baldur Kristjánsson myndi orða það. Burttúlkunarstefnan er auðvitað hræsni en engu að síður töluvert  geðslegri en bókstafstrú.

Góða fólkið, þeir sem líta svo á að réttlætið sé aðeins fyrir hina verðugu en ekki hina sem ekki verðskulda það; það fólk er pólitískir hreintrúarsinnar, ekki endilega guðræknir og jafnvel ekki neinir öfgamenn í þeim skilningi að þeir víki verulega langt frá norminu. Engu að síður stórhættulegar manneskjur, kannski einmitt vegna þess hvað hefndarþorsti og dómharka er almenn.

Share to Facebook

11 thoughts on “Réttlætið er fyrir hina ranglátu

  1. Erum við að tala um fólkið sem segir um kynferðisafbrotamenn að það eigi að myrða þá eða nauðga þeim eða skera undan þeim og svo framvegis?

  2. Ég á t.d. við það fólk já. Ég á við hvern þann sem álítur að refsa megi manni án þess að sekt hans sé sönnuð, hvern þann sem álítur að pyndingar og dauðarefsing sé einhverntíma réttlætanleg í einhverju ríki og hvern þann sem hvetur til þess að mannréttindi séu fyrir borð borin. (Það er alltaf gert í nafni réttlætis.)

    Eins hryllileg og kynferðisbrot eru, þá er hvorki boðlegt að takast á við þau með því að svipta þá mannréttindum sem grunaðir eru um slíka glæpi, né er það líklegt til þess að koma í veg fyrir nauðganir og annan hrylling.

  3. Ef út í það er farið hefur allt réttlæti í heiminum verið reynt. Glæpamennhafa verið flegnir lifandi, stjaksettir, brenndir. Rottum verið hleypt upp í leggöng kvenna sem taldar voru sekar um lauslæti og enn í dag er verið að grýta konur fyrir að hafa boðið upp á að þeim yrði nauðgað. Það er ekkert gert nema vegna þess að yfirvaldið telur sekt þeirra sannaða.

    Ekkert af þessu hefur stöðvað fólk í því að drepa, berja, nauðga, stela, svindla, hórast eða versla með ólöglegar vörur. Það er ekki hægt að stöðva glæpi með grimmd, það er fullreynt.

  4. Rétt áður en leit hingað inn las ég þessa frétt: http://www.dv.is/frettir/2012/2/27/94-osjalfbjarga-madur-i-fangelsi/

    Og kommentið sem nýtur mestu vinsældanna er: „Í guðanna bænum DV, ekki fara að búa til píslarvott úr skrímslinu. Var ekki blessað barnið algerlega ÓSJÁLFBJARGA á meðan að AFI þess misnotaði það kynferðislega á gróflegan hátt. Þannig skepna á ekki skilið notalega vist inn á Kvíbryggju. Það væri nær að hýsa hann í skepnuhúsunum og hýða tvisvar á sólarhring.“

    Refsigleðin virðist vera mikil í kommentakerfi DV.

  5. Vel mæl Eva, það er búið að snúa þessu öllu á hvolf í umræðunni hér á landi þessa dagana.

  6. Og það sem er óróandi er glæpavæðing samfélagsins. Fleiri og fleiri gjörðir sem skulu réttast með því að gera glæp úr því og búa þar með til glæpamenn. T.d aktívistar í USA vilja að læknar sem framkvæma fóstureyðingar verði skilgreindir sem glæpamenn. Börn sem kyssa önnur börn á leikskólum eru orðin glæpamenn. Reykingafólk á Íslandi verður væntanlega brátt skilgreint sem slíkt. Og auðvitað eru vændiskaupendurnir þegar orðnir glæpamenn. Og nú á að koma í gegn lögum þar sem þeir sem hala niður efni og miðla efni á netinu verða stórglæpamenn, ACTA lögin.

  7. Takk fyrir framlagið Egill. Það er einmitt þetta sem ég á við. Mér finnst að fangavist eigi að nota til að taka hættulegt fólk úr umferð, ekki til þess að pína það. Ég veit ekkert dæmi þess úr mannkynssögunni að refsingar hafi breytt viðhorfum afbrotamanna til hins betra.

  8. Ég get alveg tekið undir það að hert löggjöf og strangar refsingar eru ekki æskileg aðferð til að breyta viðhorfum. Engu að síður þarf einhvernveginn að koma því til skila að ofbeldi og önnur hegðun sem skaðar aðra, verði ekki umborin. Ég sé nú sem betur fer ekkert sem bendir til þess að reykingafólk verði skilgreint sem glæpamenn en mér finnst sjálfri að það sé allt í lagi að skilgreina reykingar inni á heimilum barna sem ofbeldi. Vegna þess að þær eru það. Ég vildi hinsvegar ekki taka upp refsingar við þeirri háttsemi, vanþóknun samfélagsins á því að reykja ofan í börn ætti að duga á þá sem á annaðborð eru líklegir til að átta sig.

  9. Og nú eru nokkrir íslenskir glæpamenn komnir á lista yfir karla sem hata konur.

    Tími til kominn.

  10. Ég lít nú svo að það að teljast saklaus uns sekt er sönnuð sé ekkert síður til að verja góðorgara óréttlæti. Það eru ekki bara ranglátir sem sæta ásökunum og kannski einmitt í samfélagi þar sem þú telst sekur frá því að sakir eru á þig bornar.

  11. Rétt er það en umræðan um mannréttindi endurspeglar algert skilningsleysi á hugtakinu. Við viljum mannréttindi handa Bradley Manning. Auðvitað því hann er í okkar liði. Þegar Breivik slátraði unglingum komu aftur á móti fram kröfur um að hann yrði sviptur mannréttindum. Mannréttindi eru til að vernda hetjur gegn yfirvöldum sem kalla þær hryðjuverkamenn og líka til að vernda ógeðskríp sem almenningur hatar. Og alla hina líka. En fólk vill bara svo gjarnan fá að velja þá sem verðskulda réttlætið.

Lokað er á athugasemdir.