Ráðherrann á ruslahaugunum

Fyrir réttri viku átti ég óformlegan og óskipulagðan fund með Innanríkisráðherra. Staðsetning þessa fundar okkar var táknræn; ég hitti ráðherrann af tilviljun á einni af endurvinnslustöðvum Sorpu.

Þegar ég sá ráðherrann á ruslahaugunum rifjaðist upp fyrir mér pistill sem Haukur Már Helgason skrifaði um málefni flóttamanna fyrir rúmu ári nokkrum árum. Heiti pistilsins var „Að fara út með ruslið“ en þar sem Haukur Már er því miður búinn að eyða blogginu sínu er hann ekki lengur aðgengilegur þar. (Athugull lesandi benti hinsvegar á að hann er ennþá aðgengilegur hér og hvet ég fólk til að lesa hann.) Af alkunnri bjartsýni minni vonaði ég þó að Ögmundur væri búinn að átta sig á því hvað persónunjósnir eru vond hugmynd og að erindi ráðherrans á gámastöðina væri það að henda njósnafrumvarpinu en ekki flóttamönnum. Reyndar má  hann svosem alveg eiga það hann Ögmundur að brottvísanir flóttamanna hafa aldrei verið færri en í hans ráðherratíð en hann hefur þó enn ekki skikkað Utlendingastofnun til að fara út með þau ruslviðhorf sem þar eru höfð að leiðarljósi.

Við áttum saman stutt spjall og nei, hann Ögmundur var ekki að henda njósnafrumvarpinu. Hann heldur nefnilega að þessar tillögur hans virki þannig að lögreglan muni bara njósna um ofbeldismenn, dópmangara og mansalshringi en ekki stjórnmálahreyfingar. Að vísu hafa slíkar heimildir einkum verið nýttar til þess að fylgjast með pólitískum öflum og grasrótarhreyfingum allsstaðar annarsstaðar en Ömmi virðist telja að eitthvað í þessu frumvarpi hans hafi svo mannbætandi áhrif að ekki sé ástæða til að óttast að það verði misnotað. Eg sagði ráðherranum að mér fyndist lágmark að komið yrði á ytra eftirliti með löggunni en hans svar var að það hefði nú ekki skilað góðum árangri annarsstaðar. Semsagt, eftirlit virkar ekki annarsstaðar og ályktunin sem ráðherrann dregur af því er ekki sú að forvirkar rannsóknarheimildir séu stórhættulegar, heldur að það sé tilgangslaust að hafa eftirlit með löggunni.

Vissuð þið annars að löggan má villa á sér heimildir, t.d. stofna gerviprófíl á facebook, í því skyni að rannsaka glæpi sem ekki hafa verið framdir? Þetta kemur fram í 27. gr. reglugerðar um sérstakar aðferðir og aðgerðir lögreglu við rannsókn sakamála:

Lögreglu er heimilt að fylgjast með og skrá upplýsingar um það sem birtist á vefsíðum sem opnar eru almenningi að öllu leyti eða hluta, þar með talið vefsíður fyrir samskipti og tengslanet. Í því skyni er lögreglu heimilt að stofna til notandaheitis og tölvupóstfangs, án þess að auðkenni lögreglu komi fram, og senda og taka við skilaboðum með tölvupósti eða öðrum sambærilegum hætti.

Hvað merkir þetta í raun? Hversu langt má ganga? Má löggan t.d. þykjast vera tiltekinn einstaklingur í því skyni að rannsaka óframda glæpi? Eg sé allavega ekkert í þessum reglum sem kemur í veg fyrir það.

Setjum sem svo að löggan telji líklegt að áhugafélag um málefni flóttamanna standi í skipulagðri glæpastarfsemi. Má löggan þá búa til facebook-prófíl með nafninu „Teiturinn“ og senda mér svohljóðandi póst á fb;
„Hæ, ég er með nýtt netfang t.atlason@kmail.com. Viltu senda allar upplýsingar á það.“

Eru til einhver lög sem mæla gegn vinnubrögðum af þessu tagi? Ef ekki, hversu langt má þá ganga? Má löggan þykjast vera systir mín? Eða maðurinn minn?

Eg legg til að Innanríkisráðherra velti því vandlega fyrir sér hvaða afleiðingar þessi reglugerð getur haft og að næst þegar hann á leið á ruslahaugana, taki hann bæði njósnafrumvarið og þessa reglugerð með sér.

 

Share to Facebook

2 thoughts on “Ráðherrann á ruslahaugunum

  1. Þúsund þakkir fyrir tenglana. Veistu hvort fleiri greinar sem Haukur Már birti á blogginu sínu eru aðgengilegar á vefnum?

Lokað er á athugasemdir.